A A A

Valmynd

Fréttir

Hamingjuhlaupiđ 2020

Hamingjuhlaupið verður haldið í 12. sinn laugardaginn 27. júní 2020, en þetta hlaup tilheyrir flokki gleðihlaupa. Hlaupararnir halda yfirleitt hópinn og fylgja fyrir fram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Hlaupaleiðin er afskaplega breytileg frá ári til árs, en hlaupið er fastur liður í bæjarhátíðinni Hamingjudagar á Hólmavík.  Að þessu sinni verður hlaupið um Vatnadal.

Vatnadalur var hlaupinn í Hamingjuhlaupinu 2014, en þá var lagt af stað frá Kleifum í Gilsfirði og byrjað á að hlaupa áleiðis upp á Steinadalsheiði (sjá https://stefangisla.com/2014/07/04/hamingja-og-thakklaeti/). Þaðan var svo farið yfir á Vatnadal og honum fylgt til byggða. Þessi leið er hins vegar ekki sú upprunalegasta, eins og lesa má um í þar til gerðu bloggi frá 2014 (https://stefangisla.com/2014/06/27/hamingjuhlaup-a-laugardaginn/), þar sem m.a. er minnst á ballferðir móðurbræðra minna á millistríðsárunum. Rökréttasta leiðin er eiginlega að fara „upp með Bergi“ eins og það var kallað, en þá er farið upp með Mávadalsá milli Gilsfjarðarbrekku og Gilsfjarðarmúla. Þetta er sjálfsagt dálítið brölt fyrsta spölinn, en ég held að þetta eigi að vera vel gerlegt. Það getur meira að segja verið að ég sé búinn að finna út hvorum megin við ána eigi að fara. Það kemur í ljós á næstu helgi.

 

Hlaupið yfir Vatnadal verður jafnframt fjallvegahlaup, nánar tiltekið 58. hlaupið í fjallvegahlaupaverkefninu mínu. Ég taldi hlaupið 2014 ekki með í þeim pakka af því að leiðin var ekki „rétt“. Þetta fjallvegahlaup hefst í Gilsfirði og endar á vegamótunum við Miðdalsá, rétt innan við Sævang þar sem hlaupaferillinn minn hófst formlega 19. ágúst 1972. Þessi hluti leiðarinnar er líklega 24,6 km. Svo heldur maður bara áfram eftir veginum til Hólmavíkur. Þannig bætast 11,6 km við og þar með verður Hamingjuhlaupið samtals 36,2 km frá upphafi til enda.

 

Hamingjuhlaupið 2020 hefst á veginum í vestanverðum Gilsfirði, nánar tiltekið við Mávadalsá, u.þ.b. 9 km fyrir innan Króksfjarðarnes. Frá Hólmavík eru um 35 km að Króksfjarðarnesi, þannig að vegalengdin frá Hólmavík að upphafsstaðnum er um 44 km eftir akveginum. Mér sýnist láta nærri að hlaupið þurfi að hefjast kl. 10:30 til að því verði lokið stundvíslega kl. 16:00. Tímaáætlunina má sjá hér. Sem fyrr ætti að vera auðvelt að koma inn í hlaupið þar sem best hentar, alla vega eftir að komið er niður að Tind. Þeir sem vilja endilega taka þátt í fjallvegahlaupi geta líka einbeitt sér að því að klára fyrstu 24,6 kílómetrana og smeygja sér svo aftur inn í síðustu áfangana.

Facebook

Hamingjumyndir

Vefumsjón