A A A

Valmynd

Fréttir

Hamingjuhlaupiđ 2021

Hamingjuhlaupið verður haldið í 13. sinn laugardaginn 26. júní 2021, en þetta hlaup tilheyrir flokki gleðihlaupa. Hlaupararnir halda yfirleitt hópinn og fylgja fyrir fram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Hlaupaleiðin er afskaplega breytileg frá ári til árs, en hlaupið er fastur liður í bæjarhátíðinni Hamingjudagar á Hólmavík. Að þessu sinni verður hlaupið yfir Kollabúðaheiði úr botni Þorskafjarðar (rétt vestan við Bjarkalund) norður að Hólum í Staðardal í Steingrímsfirði – og þaðan áfram til Hólmavíkur. Samtals eru þetta um 37,5 km og hæst fer leiðin í u.þ.b. 500 m yfir sjó.

Hamingjuhlaupið átti að hefjast kl. 8:30 umræddan laugardag en vegna veðurs hefur bottför verið frestað til kl. 17:00. Hlaupið hefst innst í Þorskafirði, nánar tiltekið þar sem vegurinn liggur áleiðis upp á Þorskafjarðarheiði. Fyrstu 6,7 km er þeim vegi fylgt, en síðan er beygt til hægri og stefnan tekin inn á sjálfa Kollabúðaheiðina.

Í Hamingjuhlaupinu fylgjast hlaupararnir yfirleitt að, sem fyrr segir, og ef allt gengur upp er hópurinn alltaf á ákveðnum stað á ákveðnum tíma, svona rétt eins og strætó. Þetta er annars vegar gert til þess að þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa alla leið geti slegist í hópinn eða helst úr lestinni á ákveðnum stöðum á ákveðnum tímum – og hins vegar til þess að hlaupið endi á Hólmavík á réttum tíma. Að þessu sinni verður réttur tími kl. 22:30 á laugardeginum. Þar verður tekið á móti hlaupurunum með hátíðarbrag, almennri gleði, brekkusöng og veigum. 

Tímaáætlunina í heild má sjá á meðfylgjandi mynd.

 

Stefán Gíslason, bóndasonur frá Gröf í Bitrufirði og fyrrum sveitarstjóri á Hólmavík, er upphafsmaður Hamingjuhlaupsins. Sagan segir að þátttakendur öðlist mikla hamingju að hlaupi loknu. Ekki er þörf á að skrá sig í hlaupið, en snjallt að láta vita af sér með fyrirvara.

Að þessu sinni verður Hamingjuhlaupið jafnframt fjallvegahlaup, nánar tiltekið hlaup nr. 64 í fjallvegahlaupaverkefni Stefáns Gíslasonar. Fjallvegahlaupinu sem slíku lýkur reyndar þegar komið er niður á veg í Staðardal (eftir u.þ.b. 20,4 km), en Hamingjuhlaupið heldur áfram eftir veginum til Hólmavíkur eins og ekkert hafi í skorist. Þar lýkur Hamingjuhlaupinu með móttöku og veitingum kl. 14:00 eins og fyrr segir. Lýsingu á hlaupaleið fjallvegahlaupsins má finna á https://fjallvegahlaup.com/naestuhlaup/kollabudaheidi.

Fyrirspurnum varðandi hlaupið má beina til Stefáns í netfangið stefan@environice.is. Endilega takið þátt - það eykur hamingju, gleði, gæfu og heilsu! 

Frásagnir af hamingjuhlaupum fyrri ára má lesa hér:

 

 Höf. Stefán Gislason

Facebook

Hamingjumyndir

Vefumsjón