A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Söngkeppni í Bragganum næsta laugardag

| 03. október 2011
Barbara Guðbjartsdóttir vann keppnina í fyrra - ljósm. strandir.is
Barbara Guðbjartsdóttir vann keppnina í fyrra - ljósm. strandir.is
Laugardaginn 8. október verður karaoke-keppni Café Riis haldin í sjöunda sinn í Bragganum á Hólmavík. Tugir keppenda hafa stigið á svið, en sigurvegarar fyrri ára eru Stefán Steinar Jónsson, Sigurður Vilhjálmsson, Salbjörg Engilbertsdóttir, Árdís Rut Einarsdóttir, Eyrún Eðvaldsdóttir og Barbara Ósk Guðbjartsdóttir. Til að hægt sé að halda keppnina þarf hins vegar fyrst að fá keppendur til leiks og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við Báru í s. 897-9756. Sveitarfélagið Strandabyggð hvetur starfsmenn sína til að taka þátt - því það er svo gaman!

Atriðin mega innihalda einstaklinga, dúetta, sönghópa, gógópíur, dansara, lífverði og hver þau hlutverk sem menn vilja draga fram í dagsljósið. Engin takmörk eru sett á listræna tjáningu eða búningaglamúr - meira er betra og skrítnara er skemmtilegra.  

Hægt verður að æfa í Bragganum hvenær sem er fram að keppniskvöldinu. Þar verður jafnframt hægt að nálgast nokkur hundruð karaoke-lög á diskum, en einnig geta þeir allra hörðustu keypt lög á öruggum vefsíðum eins og www.karaoke-version.com.
 

Lokað vegna starfsdags starfsfólks Strandabyggðar

| 30. september 2011
Lokað er frá kl. 12:45 í stofnunum sveitarfélagsins Strandabyggðar í dag, föstudaginn 30. september, vegna starfsdags.

Logi Geirsson heldur fyrirlestur á Forvarnardaginn

| 29. september 2011
Logi Geirs í ham - ljósm. frá Loga sjálfum
Logi Geirs í ham - ljósm. frá Loga sjálfum
Í tilefni af Forvarnardeginum miðvikudaginn 5. október býður tómstundafulltrúi Strandabyggðar og Félagsmiðstöðin Ozon í samvinnu við Strandabyggð, Kaldrananeshrepp, Reykhólahrepp, HSS, Foreldrafélag Grunnskólans á Hólmavík og Grunnskólann á Hólmavík upp á fyrirlesturinn "Það fæðist enginn atvinnumaður". Fyrirlesturinn hefst kl. 20:00 í Félagsheimilinu á Hólmavík og er öllum opinn. 

Það er enginn annar en fyrrverandi handboltakappinn Logi Geirsson sem mætir á Strandirnar til að halda fyrirlesturinn. Loga þarf vart að kynna; hann vann til fjölda verðlauna með félagsliðum sínum auk bronsverðlauna með landsliðinu á EM 2010 að ógleymdum silfurverðlaunum á Ólympíuleikunum í Peking 2008.  

Logi fæddist ekki atvinnumaður frekar en nokkur annar og þurfti að leggja hart að sér til að ná þeim árangri sem hann hefur náð. Hann telur að allir geti orðið atvinnumenn, allir geta risið upp og farið fram úr eigin væntingum - allir geta náð árangri. Logi mun tala sérstaklega til ungs fólks um markmiðasetningu, þjálfun, hugarfarsþáttinn og fleira sem huga þarf að ætli menn að ná langt.

Fólk á öllum aldri úr öllum sveitarfélögum er að sjálfsögðu velkomið á atburðinn!
 

Göngudagur fjölskyldunnar á fimmtudag kl. 17:00

| 26. september 2011
Göngugarpar í Strandabyggð - ljósm. JJ
Göngugarpar í Strandabyggð - ljósm. JJ
Fimmtudaginn 29. september verður Göngudagur fjölskyldunnar haldinn í Strandabyggð. Gangan hefst við Íþróttamiðstöðina á Hólmavík kl. 17:00. Allir eru boðnir velkomnir og alls ekki er skilyrði að menn gangi alla leið. Gengið verður upp göngustíginn um Kálfanesborgir, staldrað við hjá Skólavörðu og áð við Háborgarvörðu. Þar mun hópurinn skrá nöfn sín í gestabók, borða nesti og eiga notalega stund saman áður en gengið verður áfram niður að grunnskólanum og síðan þaðan að íþróttamiðstöðinni. Fólk er hvatt til að taka nesti með sér í gönguna, t.d. kakó, samlokur, kleinur eða annað góðgæti sem smakkast hvergi betur en undir berum himni.  

Markmið göngudagsins er að öll fjölskyldan eigi góða stund saman við holla hreyfingu í góðum félagsskap. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að ungmenni sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum og stunda íþróttir, útivist og annað skipulagt æskulýðsstarf eru síður líkleg en aðrir til að hefja neyslu fíkniefna á lífsleiðinni. Tíminn sem við verjum með börnum okkar við heilbrigðar og gefandi tómstundir er því ekki bara dýrmætur meðan á honum stendur; áhrifin af þessum stundum endast allt lífið.  

Sjáumst hress og kát næsta fimmtudag kl. 17:00!
 

Líflegt félagsstarf eldri borgara í Strandabyggð

| 26. september 2011
Heiðurskonur á leið í Félagsheimilið - ljósm. IV
Heiðurskonur á leið í Félagsheimilið - ljósm. IV
« 1 af 6 »
Síðastliðinn þriðjudag hófst félagsstarf eldri borgara á vegum Strandabyggðar. Starfsemin er í Félagsheimilinu á Hólmavík og verður þar á öllum þriðjudögum í vetur frá kl. 14:00 til 17:00. Eins og mörg undanfarin ár er Ingibjörg Sigurðardóttir umsjónarmaður félagsstarfsins, en á fundi sem haldinn var um málefni aldraðra í síðastliðinni viku hvatti Ingibjörg sem flesta til að taka þátt í starfinu, enda er það bæði skemmtilegt og gefandi.

Fulltrúi strandabyggdar.is var að sjálfsögðu á staðnum þegar vetrarstarfið hófst síðastliðinn þriðjudag og smellti af nokkrum skemmtilegum myndum.
 
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón