A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Opið hús hjá Strandabyggð og Þróunarsetri

| 29. mars 2011
Sumar á Hólmavík - mynd: Arnar Jónsson
Sumar á Hólmavík - mynd: Arnar Jónsson

Föstudaginn 1. apríl  verður opið hús milli kl. 15:00 og 17:00 í Þróunarsetrinu að Höfðagötu 3 á Hólmavík. Boðið verður upp á kaffisopa og vöfflur fyrir gesti og gangandi og starfsmenn segja frá starfsemi sinna stofnanna og fyrirtækja. Ekki er langt síðan Strandabyggð flutti höfuðstöðvar sínar í húsið, en sveitarfélagið rekur nú öfluga starfsemi í fimm skrifstofum á miðhæðinni. Auk þess eru Menningarráð Vestfjarða, Náttúrustofa Vestfjarða, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Þjóðfræðistofa á Ströndum með skrifstofuaðstöðu í Þróunarsetrinu. Allir sem áhuga hafa eru hvattir til að líta við og kynna sér starfsemina og hina nýju aðstöðu Strandabyggðar. 

ATH. Opna húsið er ekki aprílgabb þó að dagsetningin gefi það til kynna! :)

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð hélt tónleika fyrir unga fólkið

| 28. mars 2011
Jakob Ingi Sverrisson spilaði á trompet með kórnum við mikinn fögnuð viðstaddra. Mynd Hildur Guðjónsdóttir.
Jakob Ingi Sverrisson spilaði á trompet með kórnum við mikinn fögnuð viðstaddra. Mynd Hildur Guðjónsdóttir.

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð hélt tónleika fyrir nema á leikskólanum Lækjarbrekku, grunnskólanema frá Drangsnesi og Hólmavík í Hólmavíkurkirkju í dag kl. 10. Efnisskrá kórsins var afar fjölbreytt með íslenskum og erlendum tónverkum eftir ólíka höfunda. Þau heilluðu okkur alveg upp úr skónum með sínum frábæru tónum og takti. Þetta er í fyrsta sinn sem kór Menntaskólans við Hamrahlíð heimsækir Strandir, en hann er skipaður 87 nemendum á aldrinum 16-20 ára. Hljóðfæraleikarar eru meðal kórfélaga og spilaði Jakob Ingi Sverrisson nemandi í Tónskólanum á Hólmavík með kórnum í lokin við frábærar undirtektir viðstaddra. Stjórnandi kórsins í ferðinni og allt frá stofnun hans er Þorgerður Ingólfsdóttir og náði hún vel til krakkanna. Kórinn er á ferðalagi um Dali, Reykhólasveit, Strandir og Snæfellsnes og héldu m.a. frábæra tónleika fyrir alla í Hólmavíkurkirkju í gær. Fararstjórar í ferð kórsins eru rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, Lárus H. Bjarnason og Jóhann Ingólfsson kennari.

Frétt af vef Grunn- og Tónskólans á Hólmavík. Sjá fleiri myndir hér.

Sveitarfélagið Strandabyggð þakkar Kór Menntaskólans við Hamrahlíð kærlega fyrir komuna og óskar honum áframhaldandi farsældar.

Tilkynning um framlagningu kjörskráa

| 28. mars 2011
Mynd Jón Jónsson
Mynd Jón Jónsson

Kjörskrár vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt eða synjun laga nr. 13/2011, sem fram fer laugardaginn 9. apríl 2011, hefur verið lögð fram á skrifstofu Strandabyggðar. Kjörskrá mun liggja frammi til kjördags. Þeim sem vilja koma að athugasemdum við kjörskrá er bent á að senda þær til sveitarstjórnar. Athygli er vakin á því að sveitarstjórn getur allt fram á kjördag gert leiðréttingar á kjörskrá, ef við á. Sjá nánari upplýsingar hér.

Skólahald í 100 ár - árshátíð Grunn- og Tónskólans

| 26. mars 2011
100 ára skólahald á Hólmavík - árshátíð Grunn- og Tónskólans á Hólmavík. Myndir JG.
100 ára skólahald á Hólmavík - árshátíð Grunn- og Tónskólans á Hólmavík. Myndir JG.
« 1 af 5 »
Árshátíð Grunn- og Tónskólans á Hólmavík var haldin í Félagsheimilinu á Hólmavík í gær. Nemendur og starfsfólk skólans settu upp glæsilega leiksýningu þar sem rakin var 100 ára saga skólahalds á Hólmavík en í vetur eru einmitt 100 ár frá því að skólahald hófst. Arnar S. Jónsson, tómstundafulltrúi í Strandabyggð samdi leikritið, leikstjóri var Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir kennari í Grunnskólanum á Hólmavík, tónlistarstjóri var Stefán Jónsson tónlistarkennari en Tónskólinn á Hólmavík sá um tónlistina og nemendur og starfsfólk Grunnskólans léku og sungu. Að sýningu lokinni var haldinn fjölskyldudansleikur í Félagheimilinu. Íbúar í Strandabyggð fjölmenntu á árshátíðina.

Sveitarfélagið Strandabyggð óskar Grunn- og Tónskólanum til hamingju með vandaða sýningu og íbúum öllum til hamingju með 100 ára afmæli skólahalds á Hólmavík.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga

| 26. mars 2011
Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið í Reykjavík föstudaginn 25. mars 2011. Á þinginu var unnið að stefnumörkun Sambandsins fyrir árin 2011 - 2014. Unnið var í hópum á þinginu undir stjórn Guðríðar Arnardóttur, Elínar R. Líndal, Dags B. Eggertssonar, Gunnars Einarssonar og Eiríks B. Björgvinssonar en vinnan var framhald af ítarlegri greinargerð og hópvinnu sem fór fram á Landsþingi Sambands íslenska sveitarfélaga sem haldið var á Akureyri haustið 2010. Stjórnin mun vinna úr þeim hugmyndum og ábendingum sem komu fram á þinginu og birta niðurstöður á heimasíðu sambandsins. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ fjölluðu að lokum um horfur í atvinnumálum á Íslandi.

U1000, fundur sveitarfélaga með færri en 1000 íbúa, var haldinn fimmtudaginn 24. mars en alls eru 43 sveitarfélög á Íslandi í þeim hóp eða 56% sveitarfélaga á Íslandi. Á fundinum var farið yfir drög að nýjum sveitarstjórnarlögum og áhrif þeirra á fámenn sveitarfélög, úthlutunarreglur jöfnunarsjóðs og byggðarþróun á Austurlandi. Ingibjörg Valgeirsdóttir, sveitarstjóri var fulltrúi Strandabyggðar á fundunum. 
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón