A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Samantekt verkefna

Þorgeir Pálsson | 04. mars 2024

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nokkrar línur um stöðu ýmissa verkefna sem eru í gangi hjá okkur.

Grunnskólinn

Í grunnskólanum er nú allt á fullu.  Þar eru rafverktakar að skipta um lagnir og undirbúa uppsetningu ljósa o.s.frv.  Felliveggirnir sem afmarka kennslustofurnar eru komnir upp og unnið er að því núna að setja einangrun í loftið.  Þá hefur vinna verið í gangi við að flísaleggja salerni og undirbúa uppsetningu innréttinga í eldhúsið.  Í næstu viku er gert ráð fyrir að málun skólans hefjist.  Einnig styttist í að gler verði sett í milliveggi, hurðir settar upp ofl ofl.  Ný húsgöng eru komin og hafa verið tekin í notkun.

Tekin voru myglusýni í eldri hlutanum sem og þeim yngri og verða þau nú metin af EFLU.  Einhverjir foreldrar sem komið hafa á skrifstofurnar í gamla hlutanum, hafa kvartað undan einkennum í öndunarfærum.  Á sínum tíma samþykkti EFLA notkun á þessum skrifstofum, þannig að þetta vekur upp spurningar.  Því hér með beint til þeirra foreldra sem þarna eiga í hlut, að þeir leiti til læknis og fái staðfest hvers kyns þessi einkenni eru og hafi síðan samband við okkur sem fyrst, ef þörf kerfur.

Lillaróló og raðhús í Víkurtúni

Sveitarstjórn hélt vinnufund nýlega og ræddi þar nokkur mál sem eru á okkar borði.  Allar ákvarðanir á vinnufundum sem þessum, eru teknar með fyrirvara um staðfestingu sveitarstjórnar á formlegum sveitarstjórnarfundi.  Á fundinum var ákveðið, að Lillaróló verður settur upp við ærslabelginn þegar leysir.  Einnig var samþykkt að koma upp leiktækjum á Galdratúninu.  Verður unnið að þessu eins hratt og kostur er.  Nýr verktaki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem mun reisa fjögurra íbúða raðhús við Víkurtún, þar sem Lillaróló er, mun hefjast handa um leið og leysir.  

 

Sértækur byggðakvóti

Nokkur umræða er nú í samfélaginu um þann sértækna byggðakvóta Byggðastofnunar sem, Strandabyggð stendur til boða, náist samningar milli aðila.  Um er að ræða allt að 500 þorskígildistonn, sem eru bundin því að þau fari til vinnslu í sveitarfélaginu.  Í umnræðunni er að áhugasamir aðilar geti hugsað sér að koma hingað og setja upp fiskvinnslu og einnig að leggja fram verulegt mótframlag.  Þetta er því mikið tækifæri fyrir okkur í Strandabyggð og í raun samfélagsmál sem við verðum að vinna saman.  Það er mikið í húfi og komi til þessa er ljóst að hér skapast fjölmörg störf og veruleg verðmæti.  Byggðastofnun mun skila sinni greinargerð til sveitarstjórnar á næstu dögum/vikum.

Leikskólalóðin

Eins og greint hefur veirð frá áður, samþykkti meirihluti sveitarstjórnar sl haust, að ganga til samninga við Litla Klett um framkvæmdir á leikskólalóðinni.  Undanfarið hefur verið nokkur umræða í samfélaginu og innan nefnda sveitarfélagsins, hvort skynsamlegt væri að sameina leikskólann grunnskólanum, með flutningi í eldri hluta grunnskólans, reynist hann í lagi.  Þetta hefur verið góð umræða og mikilvægt að öll sjónarmið séu rædd.  Það er hins vegar niðurstaða meirihlutans að leikskólinn verði áfram þar sem hann er og að framkvæmdir við lóðina hefjist í vor/sumar.  Það fylgir því of mikil óvissa að flytja og sameina þessar einingar og eins væri þar með verið að bjóða börnunum upp á lélega leikskólalóð enn eitt árið. Leikskólinn Lækjarbrekka verður því á sínum stað og vonandi getum við hannað eldri hluta grunnskólans í samræmi við þarfir hans.

Ýmis mál

Mörg önnur mál eru í gangi og má þar nefna Strandanefndina, sem ætlað er að greina stöðuna hjá sveitarfélögunum á Ströndum og leggja fram áætlanir um uppbyggingu.  Þrýst er á að leit að heitu vatni á Gálmaströnd verið haldið áfram sem fyrst. Þar er margt í húsi og má þar m.a. nefna áform um landeldi á regnbogasilungi, sem er einn valkosturinn sem verið er að skoða.  Framundan eru auglýsingar um sumarvinnu í Íþróttamiðstöð, sundlaug og á tjaldsvæði.  Eins verður auglýst eftir starfsmönnum í unglingavinnuna og skipulag sumarnámskeiða er í vinnslu. 

Það er því allt á fullu og mikið að gerast í Strandabyggð þessa dagana.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Oddviti

 

 

Breytingar á flokkun og sorphirðu - Spurningakönnun -UPPFÆRT

Bára Örk Melsted | 04. mars 2024

Kæru Íbúar í Strandabyggð,

Við viljum byrja á að þakka ykkur fyrir hversu vel það hefur verið flokkað hér á okkar svæði, en gegnum árin hefur flokkun og umgengni í kringum flokkunargáma og stöð verið til fyrirmyndar. Það má hins vegar alltaf gera betur og viljum við benda á að passa sérstaklega vel að batterí, rafhlöður og spilliefni fari ekki með í pappa og plastgáma. Plastið og pappinn hjá okkur eru þjöppuð í sérstakri pressu og getur skapast veruleg hætta á sprengingu ef aðskotahlutir eins og rafhlöður og önnur spilliefni eru þar með. Við bendum á að auðvitað er tekið við spilliefnum og rafhlöðum á söfnunarstöð. Við minnum einnig á að einungis eiga að fara umbúðir í plast og pappagámana og passa þarf að ekki séu önnur efni með þeim. Þá er einnig velkomið að hafa samband við okkur á sorpsamlag@holmavik.is ef einhver vafi er um hvernig á að flokka en leiðbeiningar eru einnig aðgengilegar hér ásamt öðrum upplýsingum um sorphirðu t.d. sorphirðudagatal.


Nýjungar í tækjabúnaði
Það gleður okkur að segja frá þeim nýjungum í tækjabúnaði sem Sorpsamlagið hefur tekið til notkunar þar má nefna stóra pressu þar sem að við pressum pappa og plast sem skilar sér í að við getum flutt fimmfalt meira magn í hverri ferð til Reykjavíkur en við gátum áður, í því felst mikil hagræðing og tekjuaukning fyrir hverja ferð. Þá höfum við einnig verið með til prufu jarðgerðarvél fyrir heimili og hefur hún reynst mjög vel og munum við kynna hana vel á vefnum strandabyggd.is.


Ný lög um hringrásarhagkerfi
Það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum að ný lög um hringrásarhagkerfi tóku gildi í byrjum 2023 og meðfylgjandi breytingar á flokkun hafa verið mikið til umræðu. Helsta breytingin er að farið verður að safna lífrænum úrgangi til jarðgerðar. Þá eru einnig breytingar á hvaðan má safna heimilisúrgangi, í þéttbýli skal úrgangi safnað innan viðkomandi lóðar. Það hefur á flestum stöðum t.d. á höfuðborgarsvæðinu verið útfært með því að fjórar tunnur séu við hvert heimili. Þá eru einnig aðrar útfærslur mögulegar þar sem einnig er leyfilegt að safna saman úrgangi frá samliggjandi lóðum. Í dreifbýli er heimilt að setja upp sorpílát í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili og til lögaðila.


Við stöndum nú frammi fyrir því að ákveða hvaða leið verður farin í söfnun úrgangs í þéttbýli í Strandabyggð það er innan Hólmavíkur. Það eru tvær mögulegar útfærslur á þessu sem henta okkur, annars vegar að settar verði 4 tunnur við hvert heimili (fyrir almennt heimilissorp, pappír, plast og matarleifar) eða hins vegar að settar verði upp svokallaðar botnlangastöðvar þar sem úrgangi er safnað frá samliggjandi stöðum samkvæmt heimild í lögum nr 803/2023 um meðhöndlun úrgangs. Þessar botnlangastöðvar verða misstórar og á þó nokkrum stöðum í þorpinu, aldrei ætti að vera lengra en 100-200 m frá hverju húsi í næstu botnlangastöð. Söfnunarstöðin verður áfram út á Skeiði fyrir flokka sem verða ekki safnað í á botnlangastöðvum. Stefnt er að móttöku fyrir timbur, járn og fl. á lokuðu svæði á Skeiði. Á myndini hér fyrir ofan má sjá dæmi um hvernig mögulegt útlit gæti verið þó það sé breytingum háð.

 

Þá erum við einnig að skoða mismunandi leiðir til að safna lífrænum matar afgöngum. Þar eru nokkrir möguleikar t.d. Reenecle heimajarðgerðarvél sem er tæki sem minkar umfang lífræns úrgangs um 90% á innan við sólarhring, Bocashi tunna sem síar vatn frá matarleyfunum og notast við örverur til að brjóta niður lífræna efnið hraðar en ellar. Ormamolta notast við sérstaka orma sem borða matarleifarnar og skila frá sér hágæða moltu. Síðast en ekki síst er klassísk moltutunna utandyra þar sem lífrænum úrgangi er safnað saman í stórri tunnu og er lengi að brotna niður án þess að notast við sérstakar leiðir til að hraða ferlinu. 

Þetta eru stórar breytingar og gerum við okkur grein fyrir því að með innleiðingu þessara nýju laga mun kostnaður við söfnun úrgangs verða meiri en hann hefur verið hingað til. Við munum því leggja okkur fram við að halda í hagkvæmni og að skapa meiri verðmæti úr því úrgangi sem safnað er sem skilar sér á endanum til íbúa í lægri gjöldum. Við viljum því taka þessa ákvörðum með lýðræði að leiðarljósi og í samráði við íbúa. Því biðjum við ykkur að svara spurningakönnun um hvaða kostur þér hugnast betur. Spurningakönnunina má nálgast hér. Könnunin opin til 14. mars. Nóg er að senda einungis eitt svar fyrir hvert heimili.

UPPFÆRT-Samkvæmt lögum er okkur skylt að breyta sorphirðu innan þéttbýlis og leiðin er að safna í 4 tunnur á hverri lóð eða á samliggjandi lóðum þ.e. botnlangastöðvar. Þessi lög ná ekki yfir dreifbýlið, en lagabreyting er í vinnslu. 


Þegar niðurstöður könnuninar liggja fyrir og ákvörðun verður tekin um hvaða leið verður farin munum við kynna nýja fyrirkomulagið vel m.a. á íbúafundi.

Grenndargámar
Grenndargámar verða áfram á Skeiði við húsnæði Sorpsamlags Strandasýslu og þar verður móttaka fyrir eftirfarandi:

  • Pappi
  • Plast
  • Gler umbúðir
  • Málm umbúðir
  • Raftæki
  • Garðaúrgang
  • Timbur
  • Járn
  • Grófan úrgang, byggingarefni
  • Spilliefni

Aðrir grenndargámar á vegum Sorpsamlags Strandasýslu eru í Bitrufirði, Drangsnesi, Bjarnafirði, Norðurfirði, og Djúpuvík. En ekki er tekið við öllum flokkum á þeim stöðum.

 

ENGLISH
Dear inhabitants of Strandabyggð. We are now facing some changes regarding waste management. The full English version of the details of these changes is available here. Please have a look and take some time to answer the online survey about your preferences regarding waste collection.

Laust starf á leikskólanum Lækjarbrekku

Salbjörg Engilbertsdóttir | 04. mars 2024

Staða leikskólakennara, almennt starf á deild. Starfshlutfall er 100% og vinnutíminn frá 8:00-16:00. Æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.


Leikskólinn Lækjarbrekka 
tilheyrir sameinuðum leik-, grunn- og tónskóla í Strandabyggð og starfar samkvæmt lögum og reglugerðum um grunnskóla og leikskóla, öðrum lögum er við eiga, aðalnámskrá grunnskóla og stefnu skólans.

Uppeldisstefnan er jákvæður agi, skólinn er grænfánaskóli og unnið er að innleiðingu stefnu um heilsueflandi skóla.


Menntunar og hæfniskröfur:

• Kennaramenntun, leyfisbréf og hæfni til kennslu í viðeigandi skólagerð

• Góð íslenskukunnátta

• Áhugi, reynsla og hæfni í starfi með börnum

• Jákvæðni, frumkvæði og góður samstarfsvilji

• Lipurð og hæfni í mannlegum samskiptum

• Frumkvæði, sjálfstæði og sveigjanleiki í vinnubrögðum

• Reglusemi og samviskusemi

• Hreint sakavottorð


Laun 
eru samkvæmt samningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.

Ef enginn kennaramenntaður sækir um verður staðan boðin ófaglærðum.


Umsóknarfrestur er til miðnættis 10.mars 2024


Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir skólastjóri gefur upplýsingar um starfið og tekur á móti umsóknum ásamt ferilskrá, afriti leyfisbréfa og upplýsingum um meðmælendur netfang: skolastjori@strandabyggd.is

Íþróttaverðlaun Strandabyggðar

Bára Örk Melsted | 29. febrúar 2024
Stefán Þór (t.v.)bróðir Árnýar tók við verðlaununum fyrir hennar hönd. Benedikt Gunnar (t.h)
Stefán Þór (t.v.)bróðir Árnýar tók við verðlaununum fyrir hennar hönd. Benedikt Gunnar (t.h)

Íþróttaverðlaun Strandabyggðar árið 2023 voru afhent í dag við mikinn fögnuð.

Titilinn íþróttamanneskja ársins 2023 hlýtur Árný Helga Birkisdóttir. Á liðnu ári lagði Árný Helga gríðarlega mikið á sig við æfingar og keppnir um land allt. Hún lagði mikið á sig til að sækja þekkingu utan svæðis og æfði samviskusamlega og sjálfstætt til að ná þeim markmiðum sem hún hafði sett sér. Hún fór á fjölmörg mót, bæði hér á landi og erlendis sem og æfingaferðir. Hún er ljúf, áhugasöm, ósérhlífin og gefst ekki upp þegar á móti blæs. Hún styður aðra iðkendur með hvetjandi og vinalegri framkomu hvar sem maður hittir á hana.

Árangur Árnýjar Helgu er aðdáunarverður þar sem hún vann Bikarkeppni SKÍ sem samanstendur af alls 11 keppnum yfir veturinn 2023. Einnig var hún dugleg að taka þátt í Íslandsgöngum sem eru haldnar víðsvegar um landið. Árný Helga komst auk þess í 2 kvenna úrtökuhóp gönguskíðaungmenna fyrir Ólympíuleikana í Suður Kóreu, sem var gríðarlegur heiður. Árný Helga er einstök fyrirmynd annarra barna.
Meðfylgjandi listi yfir árangur Árnýjar Helgu er ekki tæmandi en gefur glögga mynd af mögnuðum afrekum hennar.
Skíðaganga:
• Bikarmeistari (Samanlögð stig eftir 11 keppnir)
• 1.sæti í Strandagöngunni 20 km
• Andrésandarmeistari
• 1.sæti í Fossavatnsgöngunni 25 km
Utanvegahlaup:
• Súlur Vertical 18 km
• Fjögurraskógahlaupið 17,6 km, 5 sæti


Þá voru einnig veitt Hvatningarverðlaun Strandabyggðar 2023 en þau hlýtur Benedikt Gunnar Jónsson. Benidikt stóð sig gríðarlega vel í kúluvarpi árið 2023. Benedikt á lengsta kast 14 ára drengja með 5 kg kúlu og annað lengsta kast 14 ára drengja með 4 kg kúlu. Benedikt varð Íslandsmeistari í kúluvarpi í sínum aldursflokki og auk þess keppti hann upp fyrir sig á nokkrum stórum mótum þar sem hann hlaut bronsverðlaun í flokknum 16-17 ára. Þá er hann talinn mjög líklegur til að komast inn í Afreksíþróttamannadeild ÍSÍ.

Meðfylgjandi listi yfir árangur Benedikts er alls ekki tæmandi en gefur okkur yfirsýn yfir frábæran árangur hans á síðastliðnu ári:
• Stórmót ÍR janúar 2023 - 1.sæti með 11,32 m og persónulega bætingu
• Gaflarinn 4. nóvember 2023 - 1.sæti með kast upp á 14,74 m og persónulega bætingu
• Silfurleikar ÍR - 1.sæti og kastaði 15,45 m með persónulega bætingu
Í lok desember kastaði hann svo 15,49 m á jólamóti ÍR og bætti sig því um rúmlega 4 metra í kúluvarpi á einu ári. Þessar tölur sýna okkur hvað Benedikt hefur bætt sig mikið á einu ári og hlökkum við til að fylgjast með honum á þessu ári.

 

 

 

 

Íþróttadagur á fimmtudaginn

Bára Örk Melsted | 27. febrúar 2024

 

Grunnskólinn á Hólmavík býður foreldrum og öðrum áhugasömum í íþróttatíma í Íþróttamiðstöðinni fimmtudaginn 29. febrúar, klukkan 12:10-13:00.
Nemendur á yngsta stigi og miðstigi kynna og gera fimleikaæfingar, nemendur á unglingastigi bjóða í skotbolta/gryfjubolta.
Samstarfsnemendum á Drangsnesi er sérstaklega boðið að taka þátt.

Tilkynnt verður um val á íþróttafólki ársins í Strandabyggð og verðlaun afhent.
Öll velkomin!

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón