A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Fjáröflunartónleikar á miðvikudaginn

| 10. maí 2011
Sara Jóhannsdóttir á Samfés-keppni í vetur - ljósm. Jón Jónsson
Sara Jóhannsdóttir á Samfés-keppni í vetur - ljósm. Jón Jónsson
Stórskemmtilegir fjáröflunartónleikar félagsmiðstöðvarinnar Ozon og nemendafélags Grunnskólans verða haldnir í Félagsheimilinu á Hólmavík miðvikudaginn 11. maí kl. 19:30. Þar stíga á stokk hljóðfærasnillingar úr Tónskólanum auk frábærra söngvara á öllum aldri. Fjöldi slagara er á efnisskránni og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Sjoppa verður á staðnum. Aðgangseyrir er aðeins kr. 1.000.- fyrir fullorðna, 500 krónur fyrir 6-16 ára og frítt fyrir yngri. Í tilkynningu kemur fram að enginn megi missa af þessari frábæru skemmtun sem styðji við félagslíf allra krakka í Grunnskólanum á Hólmavík.

Alvarlegar athugasemdir við misskiptingu milli svæða

| 08. maí 2011
Frá fundi ríkisstjórnarinnar á Ísafirði 5. apríl 2011. Mynd af BB
Frá fundi ríkisstjórnarinnar á Ísafirði 5. apríl 2011. Mynd af BB

Á samráðsfundi á Ísafirði 3. maí s.l. um þau 16 verkefni sem snúa að eflingu byggðar á Vestfjörðum sem ríkisstjórnin tilkynnti um í byrjun apríl og ber að fagna, lýstu forsvarsmenn Strandabyggðar, Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri og Jón Jónsson varaoddviti, yfir gríðarlegum vonbrigðum með það framlag sem áætlað er til sveitarfélaga á Ströndum. Inn í þeim 16 tillögum sem voru lagðar fram voru framkvæmdir á Strandavegi í Steingrímsfirði þar sem klára á síðasta ómalbikaða kaflann milli þéttbýlisstaða á Vestfjörðum, Drangsness og Hólmavíkur, eina verkefnið sem tilheyrir þessu svæði. Unnið hefur verið að þessari framkvæmd lengi og því kom verulega á óvart að hún skyldi talin fram á listanum umtalaða yfir verkefnin 16. Sameiginleg verkefni sem nýtast öllu svæðinu snúa að lækkun húshitunarkostnaðar, lækkun flutningskostnaðar og öryggi í raforkumálum.    

Í kjölfar fundarins með ríkisstjórninni 5. apríl s.l. sendi sveitarfélagið Strandabyggð innaríkisráðherra, hr. Ögmundi Jónassyni, og vegamálastjóra, Magnúsi Valssyni, áskorun um að hluti af 350 milljóna króna fjármagni sem lagt var fram 5. apríl 2011 til umbóta í vegamálum færi í brýnar vegaframkvæmdir í sveitarfélögum á Ströndum, Veiðileysuháls í Árneshreppi, Bjarnarfjarðarháls í Kaldrananeshreppi og veginn í Bitrufirði í Strandabyggð. Sveitarfélagið Árneshreppur gerði slíkt hið sama. Á fundinum á Ísafirði 3. maí kom hinsvegar í ljós að ekki krónu af þessum 350 milljónum var úthlutað í vegi á Ströndum. 

Á fundinum lögðu forsvarsmenn Strandabyggðar fram viðbótartillögu við lið nr. 2 sem snýr að undirbúningi að stofnun framhaldsdeildar í Strandabyggð sem nýst geti sveitarfélögum á Ströndum, Reykhólahreppi og jafnvel víðar. Tillagan fékk stuðning forsvarsmanna annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum og Fjórðungssambands Vestfirðinga, sjá meðfylgjandi frétt sem birtist á vef www.bb.is 6. maí 2011:  

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga áréttar að undirbúningur verkefna sem samþykkt voru á fundi ríkisstjórnar þann 5. apríl á Ísafirði fór fram án formlegs samráðs við forsvarsmenn sveitarfélaga eða stofnana þeirra. „Verkefnin í heild munu hafa jákvæð áhrif fyrir samfélög og atvinnulíf á Vestfjörðum en gera verður alvarlegar athugasemdir varðandi misskiptingu þeirra gagnvart einstökum svæðum innan Vestfjarða," segir í ályktun. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga skorar því á ríkisstjórn Íslands að auka við fjárveitingu til verkefnatillögu nr. 2 sem felur í sér að tryggt verði áframhaldandi gott framboð á námi á framhaldsskólastigi á Vestfjörðum.

Gerð er sú krafa að sett verði aukið fjármagn til þessa verkefnis eða sem nemur 10 milljónum króna. Verði þeim fjármunum ráðstafað til sveitarfélagsins Strandabyggðar til að hefja undirbúning að stofnun framhaldsdeildar á Hólmavík, sem nýtast muni Strandabyggð sem og nágrannasveitarfélögum í Strandasýslu, í Reykhólahreppi og hugsanlega víðar.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi á Ísafirði fyrir mánuði sextán verkefni sem snúa að eflingu byggðar og atvinnusköpunar á Vestfjörðum. Kostnaður við verkefnin er metinn um 5,4 milljarðar króna en þau varða m.a. menntun, velferð og umhverfismál. Af heildarkostnaði verkefnanna er tæpur 1,5 milljarður króna nýtt fjármagn og munar þar mestu um tvö verkefni við snjóflóðavarnir eða tæpan milljarð og fjármagn til nýrra vegaframkvæmda að andvirði 350 milljónir króna.

Auglýsum eftir gömlum húsgögnum og munum

| 07. maí 2011
Eru gamlir munir í bílskúrnum hjá þér sem þú vilt losna við?
Eru gamlir munir í bílskúrnum hjá þér sem þú vilt losna við?

Sveitarfélagið Strandabyggð auglýsir eftir gömlum húsgögnum og munum sem fást gefins til að nota á neðstu hæðinni í Þróunarsetrinu, Höfðagötu 3. Þessa dagana er verið að tæma hæðina en þar hafa Kaupfélag Steingrímsfjarðar, Héraðsbókasafn Strandasýslu, Héraðssamband Strandamanna, Handverkshópurinn Strandakúnst, sveitarfélagið Strandabyggð auk annarra geymt húsgögn og muni í vetur. Til stendur að gera endurbætur á gólfi, veggjum og lýsingu og setja í stand fjölnota rými sem nýst getur fyrir móttöku sveitarfélagsins Strandabyggðar, fundaraðstöðu, kennslurými fyrir Fræðslumiðstöð Vestfjarða, listasýningar, viðburði og fleira. Í sumar verður handverkshópurinn Strandakúnst með handverk til sölu á neðstu hæðinni.

Sveitarfélagið auglýsir sem fyrr segir eftir gömlum húsgögnum, sófum, borðum, stólum, lömpum og hvaðeina sem ykkur langar til að losa ykkur við. Hlutir sem eru jafnvel drasl í augum einhverra geta verið gersemar í þessu samhengi! Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Strandabyggðar í síma 451 3510 eða sendið tölvupóst á strandabyggd@strandabyggd.is merkt Gamalt dót. Við munum koma til ykkar og skoða hvort við getum nýtt húsgögnin/munina.

Hugmyndatorg Áhaldahúss og Vinnuskóla Strandabyggðar

| 06. maí 2011
Hugmyndaríkir Strandastrákar. Mynd: IV
Hugmyndaríkir Strandastrákar. Mynd: IV
Áhaldahús og Vinnuskóli Strandabyggðar hafa stofnað hugmyndatorg og auglýsa núna eftir hugmyndum að verkefnum til að vinna að í Strandabyggð í sumar. Allar hugmyndir eru vel þegnar, fögnum sérstaklega hugmyndum sem kosta lítið en gera mikið! Margt smátt gerir eitt stórt.  

Hugmyndir má senda á: strandabyggd@strandabyggd.is merkt Hugmyndatorg eða skila inn hugmyndum á skrifstofu Strandabyggðar fyrir 20. maí n.k.

Fiðrildagildrur á vegum Náttúrustofu Vestfjarða við Hólmavík

| 06. maí 2011
Nemendur við vitjun á fiðrildagildrum
Nemendur við vitjun á fiðrildagildrum

Eftir páska hafa nemendur við Grunnskólann á Hólmavík farið með og hjálpað til við vitjun á fiðrildagildrum í Stakkamýri og við Þverárvirkjun. Vitjað er um gildrurnar á hverjum föstudegi frá miðjum apríl til byrjun nóvember. Nemendur munu aðstoða við vitjun gildranna fram að lokum skólans og möguleiki er að halda áfram á nýju skólaári í haust. Nemendurnir fá fræðslu um þau skordýr sem sjást í gildrunum og sérstaklega um lífsferil fiðrilda. Einnig fá þau fræðslu um gróðurlendið sem gildrurnar eru í.


Föstudaginn 6. maí 2011 fór hópur úr 7. bekk ásamt kennara sínum Hrafnhildi Guðbjörnsdóttur til að vitja um gildruna. Í Stakkamýri veiddist eitt fiðrildi og nokkrar flugur en í gildrunni við Þverárvirkjun voru 31 fiðrildi og 36 flugur af mismunandi tegundum. Hópurinn var mjög áhugasamur og fannst gaman að fá að skoða fiðrildi og krækilyngsblóm með stækkunargleri.

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón