A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Lagasamkeppni Hamingjudaga föstudaginn 20. maí

| 17. maí 2011
Hamingjulagið 2010 flutt á sviði - ljósm. Jón Jónsson
Hamingjulagið 2010 flutt á sviði - ljósm. Jón Jónsson
Lagasamkeppni Hamingjudaga verður haldin næstkomandi föstudagskvöld, þann 20. maí kl. 20:00, í Félagsheimilinu á Hólmavík. Hvorki fleiri né færri en sjö lög keppa um að verða kosið Hamingjulagið 2011, en áhorfendur í sal fá það hlutverk að kjósa það lag sem þeim finnst best. Stigahæsta lagið fer síðan með sigur af hólmi og verður gefið út fyrir Hamingjudagana sem fara fram 1.-3. júlí í sumar. Nöfnum höfunda er haldið leyndum þar til úrslit liggja fyrir, en allnokkrir flytjendur ferðast um langan veg til að taka þátt í keppninni í ár. Lagaflóran er allt frá djassskotnum vísnasöng að teknói. Allir eru hjartanlega velkomnir á keppnina, en aðgangseyrir er aðeins kr. 1000 fyrir fullorðna og kr. 500 fyrir börn á grunnskólaaldri.

Skoðaðir verði kostir og gallar sameiningar Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar

| 16. maí 2011
Oddvitar horfa til framtíðar. Jón Gísli Jónsson oddviti Strandabyggðar og Halla Sigríður Steinólfsdóttir oddviti Dalabyggðar. Myndir IV.
Oddvitar horfa til framtíðar. Jón Gísli Jónsson oddviti Strandabyggðar og Halla Sigríður Steinólfsdóttir oddviti Dalabyggðar. Myndir IV.
« 1 af 9 »

Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur óskað eftir að starfshópur um eflingu sveitarstjórnarstigsins skoði sérstaklega kosti og galla sameiningar Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar ásamt því að skoða aðra sameiningarmöguleika innan Vesturlands.

Með tilkomu vegarins um Arnkötludal hefur landslagið breyst á þessu svæði og möguleikar á samstarfi stóraukist. Nú þegar hafa sveitarfélög á Ströndum og Reykhólahreppur stofnað sameiginlega félagsþjónustu auk þess sem Reykhólahreppur er að skoða aðkomu að Sorpsamlagi Strandasýslu.

Sveitarstjórnarfólk úr Dalabyggð heimsótti sveitarstjórn Strandabyggðar á dögunum og þann 5. maí s.l. var sveitarstjórnarfólki úr bæði Strandabyggð og Reykhólahreppi boðið til kvöldverðar í Leifsbúð í Búðardal. Þar kynnti Sveinn Pálsson sveitarstjóri Dalabyggðar starfsemi sveitarfélagsins og Halla Sigríður Steinólfsdóttir kynnti sögu og enduruppbyggingu Leifsbúðar sem hefur tekist vel til. 

Þá var farið óformlega yfir samstarfsmöguleika sveitarfélaganna þriggja og rætt hvaða sameiginlegu hagsmunir eru í húfi. Framkvæmdastjórum sveitarfélaganna var falið að fylgja umræðunni eftir og skoða mögulega samstarfsfleti.

Reglur um refa- og minkaveiðar í Strandabyggð

| 16. maí 2011
Refur á Hornströndum. Mynd af www.vestfirdir.is
Refur á Hornströndum. Mynd af www.vestfirdir.is
Reglur um refa- og minkaveiðar í Strandabyggð voru samþykktar í sveitarstjórn Strandabyggð 3. maí s.l., sjá hér. Samþykkt var að Sveitarfélagið Strandabyggð greiði fyrir refa- og minkaveiðar samkvæmt skriflegum samningi við veiðimenn.

Grenjaveiði
- Refir kr. 7000 á dýr
- Yrðlingar kr. 1600 á dýr
- Tímakaup: kr. 800 per klst.
- Akstur kr. 79 per km

Vetrarveiði
- Hlaupadýr kr. 7000 á dýr
- Hver ráðinn veiðimaður fær greitt að hámarki fyrir 10 hlaupadýr
- Einungis eru greidd verðlaun fyrir halupadýr en ekki akstur og tímakaup.

Samþykkt var að gera samninga um refaveiðar við núverandi veiðmenn:
- Indriði Aðalsteinsson Mórilla/Ísafjarðará
- Magnús Steingrímsson Selá/Grjótá
- Þorvaldur Garðar Helgason/Sigurður Marinó Þorvaldsson Grjótá/Hrófá
- Ragnar Bragason/Torfi Halldórsson Hrófá/Ennisháls
- Þorvaldur Garðar Helgason/Sigurður Marinó Þorvaldsson  Ennisháls/Þambárvellir
- Magnús Sveinsson Þambárvellir

Samhliða reglunum var samþykkt að fyrir næsta veiðiár, 2011-2012 sem hefst 1. september n.k., verði auglýst eftir minka- og refaveiðimönnum fyrir einstök svæði í Strandabyggð.

Saga Kaupfélags Steingrímsfjarðar heldur áfram

| 15. maí 2011
Jón E. Alfreð fyrrum kaupfélagsstjóri og Jón Eðvald Halldórsson núverandi kaupfélagsstjóri. Myndir: IV
Jón E. Alfreð fyrrum kaupfélagsstjóri og Jón Eðvald Halldórsson núverandi kaupfélagsstjóri. Myndir: IV
« 1 af 7 »
Kaupfélag Steingrímsfjarðar á Hólmavík var stofnað 29. desember 1898. Stórbrotin saga þess hefur verið samofin samfélaginu og daglegu lífi íbúa hér á Ströndum í 113 ár eins og sjá mér hér. Og sagan heldur áfram. Þriðjudaginn 10. maí 2011 voru síðustu pappírar og munir Kaupfélags Steingrímsfjarðar fluttir úr geymslum á efstu og neðstu hæðum fyrrum húsnæðis þess að Höfðagötu 3 á Hólmavík. Á meðfylgjandi myndum má sjá Jón E. Alfreðsson fyrrum kaupfélagsstjóra og Jón Eðvald Halldórsson, barnabarn hans og núverandi kaupfélagsstjóra, við flutningana ásamt starfsfólki Kaupfélagsins, Bryndísi Sveinsdóttur sveitarstjórnarmanni og Valgeiri Erni Kristjánssyni formanni Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar.

Húsnæðið að Höfðagötu 3, sem er í eigu sveitarfélagsins Strandabyggðar, gegnir í dag nýju hlutverki í samfélaginu sem Þróunarsetrið á Hólmavík þar sem fulltrúar fjölda stofnanna og félagasamtaka eru með skrifstofur. Teikningar og pappírar byggingarfulltrúa Strandabyggðar hafa nú verið fluttir á efstu hæðina. Jafnframt er verið að rýma neðstu hæðina á Höfðagötu 3 þessa dagana en þar hafa auk Kaupfélags Steingrímsfjarðar, Héraðsbókasafn Strandasýslu, sveitarfélagið Strandabyggð, Handverkshópurinn Strandakúnst og fleiri aðilar verið með geymslumuni. Til stendur að koma neðstu hæðinni í frekari nýtingu fyrir móttöku sveitarfélagsins, fundi, fræðslu, viðburði, sýningar, handverkssölu ofl.

Til fyrirmyndar: Finna Hótel og Gistihúsið Steinhúsið

| 13. maí 2011
Mynd af vef Steinhússins: www.steinhusid.is
Mynd af vef Steinhússins: www.steinhusid.is
Vefurinn www.strandabyggd.is flytur helstu fréttir af því sem er að gerast í starfsemi sveitarfélagsins Strandabyggðar. Til viðbótar mun nú hefjast fréttaþáttur sem nefnist Til fyrirmyndar þar sem horft er til þess sem vel er gert á Ströndum. Fyrstir fyrir valinu og vel til þess fallnir eru gististaðirnir Finna Hótel og Gistihúsið Steinhúsið sem hjónin Sævar Benediktsson og Elísabet Pálsdóttir eiga og reka í skemmtilegri samvinnu við dætur sínar, Sigrúnu og Guðfinnu.

Hjónin Sævar og Elísabet tóku við gistiheimilinu á Borgabraut 4 á s.l. ári og í haust breyttu þau starfseminni í Finna Hótel þar sem þau vinna nú að gagngerum endurbótum. Þau hafa þegar hafið vinnu við að bæta glæsilegum baðherbergjum inn á herbergi á hótelinu og stendur til að halda þeirri vinnu áfram næsta haust eftir að ferðasumrinu lýkur að sögn Sævars. Þá eru þau að færa móttöku hótelsins yfir í sólskála sem byggður er við húsið og eru að bæta aðgengi fyrir gesti og gangandi, m.a. skábraut fyrir hjólastóla sem er til fyrirmyndar að mati www.strandabyggd.is, en aðgengi fyrir hreyfihamlaða er því miður víða ófullnægjandi í Strandabyggð. Frekari upplýsingar um Finna-hótel má sjá hér.

Þessa dagana er verið að klæða Gistihúsið Steinhúsið en þar er boðið upp á gistingu í húsi með sögu og sál sem byggt var árið 1911. Það voru hjónin Jakobína Thorarensen og Guðjón Brynjólfsson sem byggðu húsið sem verður 100 ára á þessu ári. Systurnar Sigrún og Guðfinna Sævarsdætur keyptu húsið árið 2006 og hófu enduruppgerð þess ásamt foreldrum sínum og hefur sú uppbygging tekist með eindæmum vel eins og sjá má hér. Í Steinhúsinu er bæði boðið upp á fallegar hótelíbúðir og gistingu í herbergjum í afar sjarmerandi gistihúsi.

Sveitarfélagið Strandabyggð óskar Sævari Benediktssyni, Elísabetu Pálsdóttur og dætrum þeirra til hamingju með hversu vel hefur tekist til og óskar þeim velfarnaðar í áframhaldandi uppbyggingu á ferðaþjónustu á Ströndum.

Fréttaþátturinn Til fyrirmyndar er afsprengi hvatningarátaksins Til fyrirmyndar sem tileinkað var Frú Vigdísi Finnbogadóttur og íslensku þjóðinni á 30 ára kosningarafmæli Vigdísar, þann 29. júní 2010. Í átakinu voru Íslendingar hvattir til að staldra við og huga að því sem vel er gert, jafnt stóru sem smáu. Sveitarfélagið Strandabyggð hvetur lesendur til að senda inn ábendingar um það sem ykkur finnst vera til fyrirmyndar á Ströndum. Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Strandabyggðar eða sendið póst á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is merkt Til fyrirmyndar.
Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón