Logi Geirsson heldur fyrirlestur á Forvarnardaginn
Það er enginn annar en fyrrverandi handboltakappinn Logi Geirsson sem mætir á Strandirnar til að halda fyrirlesturinn. Loga þarf vart að kynna; hann vann til fjölda verðlauna með félagsliðum sínum auk bronsverðlauna með landsliðinu á EM 2010 að ógleymdum silfurverðlaunum á Ólympíuleikunum í Peking 2008.
Logi fæddist ekki atvinnumaður frekar en nokkur annar og þurfti að leggja hart að sér til að ná þeim árangri sem hann hefur náð. Hann telur að allir geti orðið atvinnumenn, allir geta risið upp og farið fram úr eigin væntingum - allir geta náð árangri. Logi mun tala sérstaklega til ungs fólks um markmiðasetningu, þjálfun, hugarfarsþáttinn og fleira sem huga þarf að ætli menn að ná langt.
Fólk á öllum aldri úr öllum sveitarfélögum er að sjálfsögðu velkomið á atburðinn!
Göngudagur fjölskyldunnar á fimmtudag kl. 17:00
Markmið göngudagsins er að öll fjölskyldan eigi góða stund saman við holla hreyfingu í góðum félagsskap. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að ungmenni sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum og stunda íþróttir, útivist og annað skipulagt æskulýðsstarf eru síður líkleg en aðrir til að hefja neyslu fíkniefna á lífsleiðinni. Tíminn sem við verjum með börnum okkar við heilbrigðar og gefandi tómstundir er því ekki bara dýrmætur meðan á honum stendur; áhrifin af þessum stundum endast allt lífið.
Sjáumst hress og kát næsta fimmtudag kl. 17:00!
Líflegt félagsstarf eldri borgara í Strandabyggð
Fulltrúi strandabyggdar.is var að sjálfsögðu á staðnum þegar vetrarstarfið hófst síðastliðinn þriðjudag og smellti af nokkrum skemmtilegum myndum.
Frábær þátttaka í starfsmannagleði Strandabyggðar
Starfsmannagleði Strandabyggðar verður haldin föstudaginn 30. september nk. Þá smella starfsmenn Strandabyggðar af öllum starfsstöðvum sveitarfélagsins, nefndum og sveitarstjórn, sér í stuðgírinn, binda þverslaufuna, pússa spariskóna og túpera hárið áður en þeir fjölmenna á Café Riis og skemmta sér saman fram á nótt við ljúffengan mat og heimatilbúin skemmtiatriði. Skráning á starfsmannagleðina er enn í fullum gangi, en um 60 manns hafa þegar skráð sig til leiks. Skráningarnetfangið er tomstundafulltrui@strandabyggd.is.
Allir sem ekki hafa skráð sig eru hvattir til að skella sér í það og mæta síðan galvösk á þennan skemmtilega viðburð!
Starfsmannagleðin er haldin í framhaldi af starfsdegi starfsfólks sveitarfélagsins í Félagsheimilinu á Hólmavík. Hann stendur yfir frá kl. 13:00-16:00, en á honum verður unnið að því að efla jákvæða uppbyggingu, stuðla að áframhaldandi þróun á starfsemi sveitarfélagsins og skapa sterkari liðsheild.