A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Lokaáfangi að hefjast á neðstu hæðinni

| 21. febrúar 2012
Myndir IV
Myndir IV
« 1 af 8 »

Framkvæmdir á neðstu hæðinni í Þróunarsetrinu á Hólmavík eru langt komnar en áætlað er að opna hæðina í mars. Ákveðið hefur verið að fullklára verkið og setja m.a. gólfefni strax í stað þess að bíða með það eins og til stóð í upphafi. Rýmið verður sem fyrr segir notað sem móttaka sveitarfélagsins Strandabyggðar, fundaraðstaða, fræðsluaðstaða auk þess sem það verður nýtt sem sýningar- og viðburðarými. Þá er fyrirhugað að framhaldsdeild á Hólmavík geti hafið starfsemi sína á neðstu hæðinni en sveitarstjórn samþykkti í kjölfar fundar með fulltrúa Mennta- og menningarmálaráðuneytisins nú í febrúar að sækja um til ráðuneytisins að framhaldsdeild verði opnuð á Hólmavík haustið 2013.

Þróunarsetrið á Hólmavík og Fræðslumiðstöð Vestfjarða koma að enduruppbyggingu neðstu hæðarinnar með sveitarfélaginu Strandabyggð auk þess sem sótt er um styrki í verkefnið.

Ökumenn hvattir til að vera vakandi yfir hvar þeir leggja

| 20. febrúar 2012
Af gefnu tilefni vill Félagsþjónusta Stranda og Reykhólahrepps beina þeim tilmælum til ökumanna að vinsamlegast ekki leggja bílum sínum fyrir framan merkt bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk fyrir utan Kaupfélag Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Því miður hefur borið á því þegar hreyfihamlaðir einstaklingar hafa ætlað að nýta sér bílastæðið, að öðrum bílum er lagt fyrir framan það sem kemur í veg fyrir mögulega notkun á stæðinu.

Félagsþjónusta Stranda og Reykhólahrepps hvetur fyrirtæki og stofnanir til að taka Kaupfélag Steingrímsfjarðar sér til fyrirmyndar og bæta aðgengi fyrir hreyfihamlaða að þeirri þjónustu sem veitt er á Ströndum og Reykhólahreppi.

Auglýst eftir íbúðarhúsnæði í Strandabyggð

| 20. febrúar 2012
Mynd Jón Jónsson
Mynd Jón Jónsson
5 manna fjölskylda auglýsir eftir húsnæði til leigu í Strandabyggð frá og með næsta vori eða sumri. Fjölskyldan hefur áhuga á að flytja úr borginni og setjast að úti á landi og horfa til búsetu á Hólmavík eða nágrenni. Fjölskyldan er með hund. Allar upplýsingar eru vel þegnar í netfang Rannveigar Óskarsdóttur: raa1@hi.is 

Vel upplýst skólabörn í Strandabyggð!

| 17. febrúar 2012
Vel upplýstir nemendur í fínu endurskinsmerkjunum frá Strandabyggð.
Vel upplýstir nemendur í fínu endurskinsmerkjunum frá Strandabyggð.
« 1 af 3 »
Nú hefur sveitarfélagið Strandabyggð gefið öllum nemendum Grunnskólans á Hólmavík merkt endurskinsvesti til þess að tryggja öryggi þeirra í umferðinni. Mikilvægi þess að vera vel sýnilegur í umferðinni á jafnt við börn sem og fullorðna, hvort sem fólk er gangandi, hlaupandi eða hjólandi. Hildur Guðjónsdóttir aðstoðarskólastjóri fagnar því að Strandabyggð vilji tryggja að börnin okkar séu vel upplýst á dimmustu mánuðum ársins til að forða slysum. Börnin eru hvött til að nota vestið á leið til og frá skóla og við önnur tækifæri, til dæmis á leið í íþróttir og tómstundastarf.

Mikilvægt er að foreldrar og starfsfólk skóla hvetji og veiti því athygli hvort börnin þeirra séu sjáanleg í umferðinni og að foreldrar séu sjálfir til fyrirmyndar og noti endurskinsmerki. Hannes Leifsson yfirlögregluþjónn á Hólmavík kom og ræddi við börnin og fræddi okkur um hvernig hægt er að auka öryggi allra í umferðinni margfalt með því að nota þessi einföldu, léttu og þægilegu öryggistæki sem endurskinsvesti og endurskinsmerki eru. Börn sem eru með endurskin sjást miklu fyrr en ella eða í um 100 metra fjarlægð frá ökutæki. Nemendur fóru strax í vestin sín eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og voru þakklát sveitarfélaginu fyrir umhyggjuna sem þeim hefur verið sýnd með þessari góðu gjöf og í þakkarskyni tóku þau lagið með viðstöddum.

Skrifað undir styrktarsamning við Skíðafélag Strandamanna

| 17. febrúar 2012
F.v. Arnar Snæberg Jónsson tómstundafulltrúi sem vann að samningagerðinni, Rósmundur Númason, skíðakappi og stjórnarmaður í Skíðafélaginu og Ingibjörg Valgeirsdóttir, sveitarstjóri í Strandabyggð.
F.v. Arnar Snæberg Jónsson tómstundafulltrúi sem vann að samningagerðinni, Rósmundur Númason, skíðakappi og stjórnarmaður í Skíðafélaginu og Ingibjörg Valgeirsdóttir, sveitarstjóri í Strandabyggð.
« 1 af 2 »
Nýlega skrifaði sveitarfélagið Strandabyggð undir styrktarsamning við hið öfluga Skíðafélag Strandamanna. Í samningnum, sem er til þriggja ára og gildir því út árið 2014, er kveðið á um árlegan stuðning Strandabyggðar við Skíðafélagið ásamt endurgjaldslausum afnotum af húsnæðisaðstöðu í eigu sveitarfélagsins undir æfingar og aðra viðburði. Skíðafélagið hefur verið sérstaklega öflugt undanfarin ár í að efla veg og vanda skíðaíþróttarinnar á Ströndum, einkum og sér í lagi skíðagöngu. Í þeirri grein á félagið fólk í fremstu röð sem hefur náð góðum árangri á mótum, til dæmis á Andrésar Andar leikunum.


Við undirskrift samningsins kom fram í máli Rósmundar Númasonar, stjórnarmanns í Skíðafélaginu, að félagið stefnir á mikla uppbyggingu í Selárdal á komandi árum. Þar hefur félagið haft aðsetur undanfarin ár til æfinga og mótshalds. Þar á að reisa húsnæði til afnota fyrir iðkendur, hvort sem er við æfingar eða mótshald. Framtíð skíðaíþróttarinnar á Ströndum er því björt.

Eldri færslur

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón