A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Atvinnu- dreifbýlis- og hafnarnefnd, fundargerð 20. júní 2025

Atvinnu- dreifbýlis- og hafnarnefnd

Fundur föstudaginn 20.6.2025 kl 16, að Hafnarbraut 25, kaffistofu.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

  1. Erindi frá Guðfinnu Láru og Ágústi Helga, beiðni um niðurfellingu fjallskila
  2. Fjallskil 2025, fjáreign í Strandabyggð og drög að fjallskilaseðli
  3. Samþykkt um búfjárhald, drög
  4. Atvinnuuppbygging á Hólmavík og í Strandabyggð, staða og umræður
  5. Staðan í landbúnaði, umræður
  6. Önnur mál
    1. Aðalskipulag og tilheyrandi deiliskipulag
    2. Kvíslatunguvirkjun


Mætt voru: Grettir Örn Ásmundsson, Marta Sigvaldadóttir, Henrike Stuheff, Björk Ingvarsdóttir, Gunnar Númi Hjartarson og Þórður Halldórsson.  Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri, sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.  Fundur settur kl. 16:00.  Formaður kannaði lögmæti fundarins. Engar athugasemdir.

 

Umræða.

  1. Erindi frá Guðfinnu Láru og Ágústi Helga, beiðni um niðurfellingu fjallskila

Formaður rakri erindið.  Góð umræða spannst um erindið og forsendur þess.  Einnig var rætt um stöðu nefndinnar til að afgreiða erindið og um leið að meta ástand girðingar.  Nefndarmenn telja erfitt að hafna erindinu. Hægt væri samþykkja erindið til eins árs en að kalla eftir upplýsingum í haust um hvernig til hefði tekist og meta framhaldið út frá því. 

 

Formaður lagði til að erindið yrði samþykkt og að kallað verði eftir gögnum í haust um hvernig til hefði tekis.  Var lagt til við sveitarstjórn að staðfesta ákvörðun nefndarinnar á fundi sínum í ágúst.  Samþykkt samhljóða.

 

  1. Fjallskil 2025, fjáreign í Strandabyggð og drög að fjallskilaseðli

Fomaður gaf Þorgeiri Pálssyni orðið sem rakti vinnu við mótun Fjallskilaseðils og einnig sýndi hann tölur um fjáreign og dagsverk.  Lagt er til að drög að Fjallskilaseðli 2025 ásamt tölum um fjáreign og dagsverk, verði send á bændur til athugasemda og umsagnar.  Samþykkt samhljóða.  Formaður bað Þorgeir að fullgera drögin sem fyrst svo hægt sé að senda þau út.

 

  1. Samþykkt um búfjárhald, drög

Formaður gerði grein fyrir erindinu.  Umræða spannst um innihald þess. Nefndarmenn ræddu þær breytingar sem erindið felur í sér.

 

Nefndin fagnar erindinu og þeirri vinnu sem þar er að baki og leggur til við sveitarstjórn að hún staðfesti samþykktina, að undangengnum útskýringum málshefjanda.  Samþykkt samhljóða.

 

  1. Atvinnuuppbygging á Hólmavík og í Strandabyggð, staða og umræður

Formaður gaf orðið laust.  Fram kom að með tilkomu Vilja fiskverkunar og aukinnar útgerðar á Hólmavík, hafi komið meiri bjartsýni í samfélagið.  Einnig var rætt um framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins, t.d. við leikskólann.  Það sé verið að byggja upp bifreiðaverkstæði.  Var bent á að með tilkomu hótels skapaðist aukin atvinna, en um leið var bent á aukna þörf á húsnæði.  Það er hins vegar áhyggjuefni í hvaða stöðu heilbrigðisþjónustan er, því með allri þessari uppbyggingu væri mikil þörf á öruggri heilbrigðisþjónustu.  Hér þyrftu að vera tveir sjúkrabílar, ef vel á að vera, þegar þessi atvinnuuppbygging raungerist og í ljósi þess að umsjónarsvæði sjúkrabíls frá Hólmavík er það stærsta á landinu.  Bent var á að ef flugvöllurinn væri malbikaður, skapaðist möguleiki á auknu sjúkraflugi.  Nefndin vill gjarnan sjá meira viðhald og malbikun á vellinum.  Mikil umræða spannst um stöðu heilbrigðismála í Strandabyggð.

Rætt var um verkefni Vesturbyggðar, Gullkistuna, og hvort grundvöllur væri fyrir sameiginlegri þátttöku fyrirtækja og verktaka úr Strandabyggð.   Bent var á að hér voru eitt sinn skilgreind „Samtök atvinnurekenda á Ströndum“ en starfsemi þeirra samtaka náði aldrei neinu flugi.  Hugsanlega væri rétt að endurvekja þau.  Fram kom einnig að stór hluti atvinnurekenda í Strandabyggð, er ungt fólk og er það mjög jákvæð þróun.

Þrátt fyrir að margt í sjávarútvegi sé í góðum farvegi, eru blikur á lofti varðandi skerðingu á almennum byggðakvóta án aukningar á 5,3% pottinum.  Ofan á það kemur umræða um leiðréttingu á veiðigjaldi. 

 

  1. Staðan í landbúnaði, umræður

Rætt var m.a. um fækkun í greininni almennt og aukna áherslu á vinnslu meðal bænda.  Það er ekki einfalt ferli né ódýrt.  Rætt var um nýliðun í landbúnaði og hvernig „næsta kynslóð bænda“ verði til.  Fram kom að einstaka bændur hafa tekið nema til sín úr Landbúnaðarháskólanum. 

 

  1. Önnur mál
    1. Aðalskipulag og tilheyrandi deiliskipulag

Formaður bað Þorgeir að fara lauslega yfir stöðuna.  Þorgeir sagði frá því að nú væru öll gögn hjá Skipulagsstofnun til lokayfirferðar og samþykktar.

 

    1. Kvíslatunguvirkjun

Formaður rakti stöðuna.  Búið er að samþykkja framkvæmdaleyfi varðandi vegaframkvæmdir, en að öðru leyti er staðan þar sú sama og varðandi aðalskipulagið.  Öll gögn afgreidd af hálfu sveitarfélagsins og eru nú hjá Skipulagsstofnun.


             c. Heimasíða Sveitarfélagsins

Spurt var um stöðu þess máls, sem Þorgeir svaraði til um.  Stefnt er að opnun nýrra síðu og undirsíðna í haust í síðasta lagi.


             d. Bruni í Selárdal

Gunnar Númi sagði frá því að gróðurbruni varð nýlega í Selárdal, eins og vitað er.  Fram kom að Björgunarsveit og slökkvilið frá Hólmavík, sem og aðrir bráðaliðar, stóðu sig mjög vel í öllum þessum aðgerðum og nefndin telur þá aðila eiga mikið hrós skilið.  Fram koma að björgunarsveitin og slökkviliðið eiga ekki sexhjól sem var alger nauðsyn við þessar aðstæður.


             e. Þörf á samkeppni við Krambúðina

Fram kom sú skoðun að það væri tækifæri í því fyrir heimamenn að skoða möguleika á stofnun verslunar á staðnum, þar sem verðlag í Krambúðinni væri mjög hátt.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið kl: 17:53.  Formaður mun senda yfirfarna fundargerð til yfirlestrar og rafrænnrar staðfestingar til fundarmanna.

 

Þorgeir Pálsson, ritari.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón