A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1362, aukafundur 21. maí 2024

Fundur nr. 1362 sem er aukafundur í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 21. maí kl. 16.00 í Hnyðju, Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson oddviti, Jón Sigmundsson, Matthías Sævar Lýðsson, Hlíf Hrólfsdóttir og Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:


1. Ársreikningur 2023 seinni umræða og endurskoðunarskýrsla
2. Varúðarniðurfærsla skatt- og viðskiptakrafna og afskriftir v/2023
3. Staða bókhalds á fyrsta ársfjórðungi
4. Áskorun til Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis v.samgönguáætlunar, frh. frá fundi 1360
5. Innviðaráðuneyti, beiðni um áframhaldandi fjárstuðning frh. frá fundi 1361
6. Vegagerð ríkisins, umsókn um framkvæmdaleyfi og efnistöku á Ennishálsi


Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Engin athugasemd var gerð við fundarboðið.
Þá var gengið til umræðu.

1. Ársreikningur Strandabyggðar 2023, seinni umræða

Oddviti vísaði í fyrri umræðu og kynningu Kristjáns Jónassonar frá KPMG á ársreikningnum og stöðu sveitarfélagsins í ljósi hans.

Niðurstaða ársreiknings sýnir að rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu kr. 1.058.924.000 samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta kr. 1.013.392.000.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 75,6 millj.kr. en í A hluta var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 78,6 millj.kr.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2023 nam 367,5millj.kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 481,3 millj. kr.

Handbært fé frá rekstri A og B hluta nam kr. 207 milljónum. Handbært fé frá rekstri er í raun það fjármagn sem sveitarfélag hefur til framkvæmda og afborganna af lánum. Á síðasta ári nam fjárfesting í rekstrarfjármunum kr. 227 milljónum og ljóst að sveitarfélagið tekur á sig meiri skuldbindingar en efni standa til. Þetta er meðvitað og má reikna með að árið 2024 verið svipað. Hafa ber í huga, að sveitarfélagið stendur í kostnaðarsömum verkefnum, sérstaklega endurbótum á grunnskóla og leikskólalóð. Innviðaskuld sveitarfélagsins er veruleg og þarf að vinna á henni, samhliða þessum endurbótum. Stefnt er að því að það hægist á fjárfestingum á árinu 2025.

Þrátt fyrir kostnaðarauka í rekstri sem tengist viðgerðum á grunnskólanum, hefur rekstur sveitarfélagsins engu að síður þróast til betri vegar milli ára. Áfram verður unnið að því að efla tekjur, enda er það eina raunhæfa leiðin til bættrar afkomu, til lengri tíma litið.

Endurskoðunarskýrsla KPMG vegna 2023 var einnig lögð fram undir þessum lið og kynnti Kristján Jónasson hana á fjarfundi.

Orðið gefið laust.

Matthías tók til máls og sagði ekki miklu við þetta að bæta. Það þurfi áfram að gæta aðhalds og velja verkefnin vel eða þau velja okkur.

Jón tók til máls og bendir á að það þurfi að taka tillit til í komandi áætlunum, mögulegan kostnað við gatnagerð kringum hótelbyggingu.

Oddviti tók fram að hann hafi beðið Hlyn Torfa Torfason skipulagsfulltrúa um að taka saman næstu skref varðandi kostnað og tímalínu við nýtt hverfi í Brandsskjólum og væntanlega hótelbyggingu.

Oddviti óskaði eftir því að sveitarstjórn samþykkti ársreikninginn með handaupprétttingu. Ársreikningur ársins 2023 samþykktur samhljóða.


2. Varúðarniðurfærsla skatt- og viðskiptakrafna og afskriftir v/2023


Oddviti gaf skrifstofustjóra orðið. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri fór yfir afskriftir ársins 2023 sem þegar hafa verið teknar inn í ársreikninginn (sjá skýringu 12 í ársreikningi). Afskriftir krafna eru samtals kr. 4.146.000 sem skiptist þannig að afskriftir skatttekna eru kr. 4.046.000 og afskrift viðskiptakrafna kr. 82.156. Jafnframt fór hún yfir hækkun á varúðarniðurfærslu. Um er að ræða hækkun upp á 3.346 milljónir kr. og þá heildarniðurfærslu kr. 11.500.000.


Lagt fram til samþykktar. Samþykkt samhljóða.


3. Staða bókhalds á fyrsta ársfjórðungi


Oddviti gaf skrifstofustjóra orðið. Salbjörg Engilbertsdóttir fór yfir stöðuna á fyrsta ársfjórðungi.


Oddviti gaf orðið laust. Nokkar spurningar vöknuðu varðandi framkvæmdir ársins sem Þorgeir svaraði. Oddviti þakkar skrifstofustjóra samantektina. Lagt fram til kynningar.


4. Áskorun til Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis v.samgönguáætlunar, frh. frá fundi 1360


Oddviti rakti tilurð þessa máls og las síðan meginefni áskorunarinnar. Orðið gefið laust.


Matthías tók til máls og nefnir að erindið sé unnið upp úr tillögum A-lista frá fundi 1360.


Oddviti lagði til að áskorunin yrði samþykkt með leiðréttingu á villu sem í fundargagni stendur og sveitarstjóra falið að senda hana til nefndarinnar. Samþykkt samhljóða.


5. Innviðaráðuneyti, beiðni um áframhaldandi fjárstuðning frh. frá fundi 1361


Oddviti rakti tilurð þessa máls og innihald nýs bréfs til innviðaráðuneytis. Orðið gefið laust.

Nokkur atriði voru nefnd varðandi orðalag í bréfinu og verður það lagfært.


Oddviti lagði til að bréfið yrði samþykkt með umræddum breytingum og sveitarstjóra falið að senda það á viðkomandi.

Samþykkt samhljóða.


6. Vegagerð ríkisins, umsókn um framkvæmdaleyfi og efnistöku á Ennishálsi


Oddviti gaf formanni umhverfis- og skipulagsnefndar orðið.


Matthías Lýðsson tók til máls og taldi að umsóknin hefði átt að fara í umfjöllun US nefndar, en þar sem þetta er náma á námuskrá og ekki er verið að opna nýja, leggur Matthías til að umsóknin verði samþykkt af sveitarstjórn. Oddviti tekur undir það.


Sveitarstjórn samþykkir umsóknina samhljóða.


Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 16.57

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón