A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1344, 18. apríl 2023


Sveitarstjórnarfundur nr. 1344 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 18. apríl 2023 kl. 16:00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson, Jón Sigmundsson, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:
1. Húsnæðismál Grunnskólans og framtíðarlausnir – Til afgreiðslu
2. Tilboð í Skólabraut 20 frá desember 2022 – Til afgreiðslu
3. Stjórnsýsluúttekt KPMG – Til afgreiðslu
4. Staða í bókhaldi I ársfjórðungur 2023 – Til kynningar
5. Sumarlokun skrifstofu og sumarleyfi í stjórnsýslu – Til afgreiðslu
6. Frístundastyrkir í Strandabyggð – Til afgreiðslu
7. Styrktarsjóður EBÍ 2023, kynning á styrkjum til framfaraverkefna – Til kynningar
8. Sterkar Strandir fundargerð frá 1. mars 2023 – Til kynningar
9. Brunavarnir Dala, Stranda- og Reykhóla fundargerð frá 2. mars 2023 – Til kynningar
10. Ungmennaráð fundur frá 8. mars og 30. mars 2023 – Til kynningar
11. Umhverfis- og skipulagsnefnd fundargerð frá 13. april 2023 – Til kynningar
12. Fræðslunefnd fundargerð frá 17. apríl 2023 – Til kynningar
13. Atvinnu, dreifbýlis- og hafnarnefnd fundargerð frá 17. apríl 2023 – Til kynningar
14. Forstöðumannaskýrslur mars 2023 – Til kynningar
15. Vinnuskýrsla sveitarstjóra mars 2023 – Til kynningar og umræðu
16. Aðalskipulag Ísafjarðar, tillaga að breytingu v.íbúðabyggðar á landfyllingu norðan Skutulsfjarðareyrar - Til kynningar
17. Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar, breyting v. ofanflóðavarna á Flateyri – Til kynningar
18. Náttúrustofa Vestfjarða fundur 141 frá 1. mars 2023 og fundur 142 frá 4. apríl 2023– Til kynningar
19. Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerð nr. 920 frá 17. mars og nr. 921 frá 30. mars 2023- Til kynningar
20. Stjórn Hafnasambands Íslands nr. 451 frá 24. mars 2023 – Til kynningar
21. Innviðaráðuneyti 15. mars 2023, hvatning vegna tillagna verkefnistjórnar um bættar aðstæður kjörinna fulltrúa – Til kynningar


Þorgeir Pálsson oddviti bauð fundarmenn velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið.


Athugasemd er gerð við fundarboðið frá A-lista sem leggur fram eftirfarandi bókun:

A-listi harmar að enn og aftur skuli oddviti sveitarfélagsins brjóta gegn 27. grein sveitarstjórnarlaga:


„Sveitarstjórnarmaður á rétt á að tekið verði á dagskrá sveitarstjórnarfundar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess.“ og einnig 10. gr. í Samþykktum um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar þar sem stendur: „Sveitarstjórnarmaður sem óskar að fá mál tekið á dagskrá sveitarstjórnarfundar skal tilkynna framkvæmdastjóra það skriflega með tillögu eða fyrirspurn a.m.k. þremur sólarhringum fyrir fund.“

Þau tvö mál sem fengust ekki tekin á dagskrá þessa fundar eru annars vegar bréf frá Skólastjóra Grunnskólans á Hólmavík, Hrafnhildi Guðbjörnsdóttur, þar sem er komið á framfæri tillögu, um að koma skólastarfi á einn stað á meðan á viðgerðum á grunnskólanum stendur.


Hins vegar er það tillaga um umsókn vegna framlengingar á Brothættra byggða verkefninu „Sterkar Strandir“. Í tillögunni er góður rökstuðningur fyrir því að senda inn umsókn um áframhald verkefnisins á Ströndum.


Oddviti tekur til máls og vísar einnig í 10. gr. Samþykktar um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar þar sem kveðið er á um valdsvið framkvæmdastjóra/oddvita við skipulag funda. Hann hefur einnig leitað lögfræðiálits hvað þetta varðar sem staðfestir ótvírætt vald framkvæmdastjóra/oddvita til að ákveða dagskrá fundar.


Eins tekur oddviti fram að samkvæmt fundi nýverið með Byggðastofnun og verkefnastjórn Sterkra Stranda hafi komið fram að ekki sé tímabært fyrr en í haust að sækja um að nýju í verkefnið í stað þess ætti að efla samstarf við verkefnastjóra sem þegar er í ferli.


Varðandi bréf frá skólastjóra um að sameina allt skólahald í Þróunarsetri þá hafa áður komið fram hugmyndir um að auka við starfsemi hússins t.d. með því að færa dreifnámið þangað. Þeirri hugmynd var ekki vel tekið af notendum hússins. Oddviti áréttar tilgang Þróunarsetursins sem er starfstöð starfa án staðsetningar og aðstaða fyrirtækja.


Hlíf er með athugasemd við fundarboðið og segir engin gögn fylgja með lið númer 1 á dagskránni. Oddviti segir að gögn hafi verið send áður til sveitarstjórnarfulltrúa og því hafi þau ekki verið sett inn sem gögn sérstaklega.


A-listi leggur fram tillögu að afbrigði við fundinn: Kveðjur til íbúa Húnaþings vestra sem yrði þá númer 22 á dagskránni.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka inn afbrigðið.


Þá var gengið til dagskrár:

1. Húsnæðismál Grunnskólans og framtíðarlausnir – Til afgreiðslu

Strandabandalagið leggur fram eftirfarandi tillögur:

1. Íbúafundur. Strandabandalagið leggur til að sveitarstjórn Strandabyggðar boði til íbúafundar þriðjudaginn 25. apríl n.k. í Félagsheimilinu á Hólmavík, kl 20:00. Fundarefni: málefni grunnskólans á Hólmavík.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


2. Gerð verði verðkönnun meðal verktaka á svæðinu og næsta nágrennis, með skömmum tímaramma, til að afla tilboða í mokstur fyrir drenlögn við grunnskólann. Mikilvægt er að komast sem fyrst í að moka frá grunni skólans, opna að steypu og skoða ástand hennar. Tíminn skiptir miklu máli hvað þetta varðar, þar sem verktakar eru margir búnir að lofa sér í verkefni.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


3. Gengið verið til samninga við Litla Klett um eftirtalda verkþætti í uppbyggingu grunnskólans:
a. Klæðning tekin af húsinu
b. Dúkar teknir upp
c. Veggir í smíðastofu, tónlistarherbergi og við vesturgafl skólans verði opnaðir og ástand metið.

Samhliða verði hafinn undirbúningur að verðkönnun meðal verktaka á svæðinu og næsta nágrennis, til að fá tilboð í eftirtalda verkþætti:
a) Lokun og frágangur milli skólaeininga
b) Málun eftir að búið er að lofta, sótthreinsa og undirbúa veggi fyrir málun
c) Dúklagning á gólf í yngri hluta grunnskólans
d) Uppsetning nýrra innihurða í yngri hluta skólans
e) Viðgerð og/eða skipti á gluggum eftir því sem á.


Frekari verkþættir eru í mótun, og taka mið af ástandi byggingarinnar. Verður leitað verðhugmynda í þá á síðari stigum.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

Hlíf tekur fram að hún hefði viljað fá þessar tillögur fyrr. Matthías tekur undir með henni og mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum og að þessum tillögum hafi ekki verið deilt með minnihlutanum.

A-listi leggur fram eftirfarandi bókun:

„Verkefnið sem liggur fyrir er að taka ákvörðun um hvort gera eigi við núverandi skólahúsnæði sem skýrsla EFLU, metur verulega slæmt, eða byggja nýja byggingu sem getur hýst grunnskóla. Slíkar framkvæmdir þurfa að fela í sér heildarsýn á verkefnið, en ekki aðeins fáa verkþætti. Það þarf að vera ljóst, eins og kostur er, hver heildarkostnaður verksins er, sérstaklega í ljósi laga um opinber innkaup 120/2016 og innkaupareglur Strandabyggðar.

Einnig þarf áður en einhverjar framkvæmdir hefjast, að viðhafa lögbundið samráð (sbr. reglugerð 657/2009) við allt nærsamfélagið. Slíkt hefur ekki verið gert. Einnig þarf að ganga frá samningi við verkefnastjóra með verkinu eins og samþykkt var samhljóða á síðasta sveitarstjórnarfundi: „Oddviti leggur til að sveitarstjórn gangi frá samkomulagi við VSÓ Ráðgjöf um tímabundna verkefnastjórn og er sveitarstjóra falið að klára málið.“ „


Matthías spyr um tengsl sveitarstjórnar við verktakann sem semja á við.


Jón tekur til máls og reifar væntanlegar framkvæmdir og telur áríðandi að byrja strax til að tefja málið ekki lengur.


Þorgeir tekur til máls og segir engin hagsmunatengsl sé um að ræða við Litla Klett. Einnig tekur hann fram að samkomulag hafi verið gert við VSÓ ráðgjöf um tímabundna verkefnastjórn en samningur sé þó ekki undirritaður. Einnig tekur hann fram svar Sambands sveitarfélaga um löglegt samráð við nærsamfélagið.


A-listi óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:

„Það að velja eitt fyrirtæki án þess að aðrir hafi fengið sama frest til að leggja fram verðtilboð í verkhluta stríðir gegn innkaupareglum Strandabyggðar. Einnig stríðir það gegn lögum um opinber innkaup að ætla að búta í sundur verkþætti þannig að komist verði fram hjá að verkið í heild fari í útboð. Miðað við kostnaðarmat EFLU er alveg ljóst að viðgerðir á skólahúsnæðinu fara langt yfir þeim viðmiðunarfjárhæðum sem eru bæði í innkaupareglunum og lögunum.


Tillaga:

A-listinn leggur til að sveitarstjórn haldi hið fyrsta, opinn íbúafund þar sem fulltrúar EFLU sem stóðu að gerð ástandsskýrslu Grunnskólans mæti og geri grein fyrir skýrslunni og áhrifum myglu á heilsu og líðan fólks. Einnig yrði svarað spurningum frá íbúum um hvaða leiðir eru til skoðunar hjá sveitarstjórninni.“


Oddviti segir að það hafi alltaf staðið til að fara eftir því sem A-listi leggur fram í tillögu sinni.


Jón leggur fram eftirfarandi bókun: „Mér er ekki kunnugt um nein vensl við Litla Klett og tel þetta ómaklegar aðdróttanir“ Þorgeir tekur undir bókunina.


Sveitarstjóra er falið að koma öllum tillögum í framkvæmd. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

2. Tilboð í Skólabraut 20 frá desember 2022 – Til afgreiðslu

Oddviti rakti tilurð tilboðsins og bókun sveitarstjórnar frá fundi í desember, þegar tilboðið var fyrst lagt fram. Að mati Strandabandalagsins liggur umfang aðgerða nú fyrir og er ljóst, m.a. með vísan í skýrslu EFLU, að grunnskólinn er vel viðgerðarhæfur. Það er því ekki tilefni til að selja bygginguna, enda hefur slíkt aldrei verið rætt innan sveitarstjórnar. Oddviti leggur til að tilboðsgjafa sé þakkað fyrir ítrekun fyrra tilboðs, og tilkynnt að ekki standi til að selja skólabygginguna.

Sveitarstjóra er falið að tilkynna tilboðsgjafa þá ákvörðun.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


3. Stjórnsýsluúttekt KPMG – Til afgreiðslu

Oddviti hefur rætt stjórnsýsluúttektina við fulltrúa KPMG og farið yfir úrbætur. Margt er þar afgreitt eða komið vel á veg. Í einu tilviki er beðið álits innviðaráðuneytis. Sem fyrr eru stjórnsýsluúttektir mikilvægt og gott stjórntæki sem hjálpar sveitarstjórn og starfsfólki sveitarfélagsins að bæta verklag og þjónustu.

Sveitarstjórn staðfestir móttöku stjórnsýsluúttektar og farið verður í viðeigandi aðgerðir.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


4. Staða í bókhaldi I ársfjórðungur 2023 – Til kynningar

Oddviti gaf orðið til skrifstofustjóra. Skrifstofustjóri fór yfir helstu tölur og kynnti fyrir sveitarstjórn.


5. Sumarlokun skrifstofu og sumarleyfi í stjórnsýslu – Til afgreiðslu

Oddviti leggur til að sveitarstjórn staðfesti þessa sumarlokun skrifstofu.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða


6. Frístundastyrkir í Strandabyggð – Til afgreiðslu

Strandabandalagið fagnar þessu erindi og leggur til að því sé vísað til TÍM nefndar til mats og umsagnar. Oddviti bendir á að í næstu viku er áformaður TÍM nefndarfundur og þar gæti þetta mál farið í umræðu.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


7. Styrktarsjóður EBÍ 2023, kynning á styrkjum til framfaraverkefna – Til kynningar

Oddviti leggur til að erindinu sé vísað til forstöðumanna sveitarfélagsins til umræðu og leitað verkefna sem gætu talist styrkhæf. Bendir oddviti á að á morgun er einmitt forstöðumannafundur þar sem þetta yrði þá tekið til umræðu.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


8. Sterkar Strandir fundargerð frá 1. mars 2023 – Til kynningar

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

9. Brunavarnir Dala, Stranda- og Reykhóla fundargerð frá 2. mars 2023 – Til kynningar

Fundargerðin lögð fram til kynningar.


10. Ungmennaráð fundur frá 8. mars og 30. mars 2023 – Til kynningar

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar. Þorgeir hefur kannað hjá lögfræðingi Sambands sveitarfélaga lögmæti ungmennaráðsfunda þar sem nefndarmenn eru fjarstaddir og sitja fjarfund. Ekki er fjallað um Ungmennaráð í samþykktum um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar og því ekki sú krafa lögð á nefndina varðandi staðfundi eins og fastanefndir sveitarfélagsins. Sveitarstjóri mun kynna sér þetta málefni frekar.
Hlíf bendir á reglur um Ungmennaráð á vef Sambands sveitarfélaga varðandi aldursmörk ráðsins og barnasáttmálann.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fundargerðina og samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að svara spurningum ungmennaráðs.

11. Umhverfis- og skipulagsnefnd fundargerð frá 13. april 2023 – Til kynningar

Oddviti gefur formanni US nefndar orðið. Formaður kynnti fundargerðina.
Varðandi lið 1 um skilmálabreytingu á Nauteyri, leggur oddviti til að sveitarstjórn fari að tilmælum nefndarinnar og samþykki viðkomandi breytingu. Skipulagsfulltrúa og formanni US nefndar falið að ganga frá málinu.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

Varðandi lið 2 um skipulagslýsingu vegna breytingar á Aðalskipulagi Strandabyggðar vegna Kvíslatunguvirkjunar, leggur oddviti til að sveitarstjórn fari að tilmælum nefndarinnar og heimili gerð deiliskipulags og samþykki skipulagslýsinguna. Skipulagsfulltrúa og formanni US nefndar falið að ganga frá málinu.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

Varðandi lið 3 þá hefur húseigandi lagt fram tillögu varðandi útfærslu á götunni sem þarf að vinna áfram og verður lögð fram til US nefndar á næstunni. Sveitarstjórn leggur til, að tillögu US nefndar verði frestað þar til málið verði lagt fyrir að nýju.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

Varðandi lið 4 leggur oddviti til, að ávallt verði passað upp á að tilgreina farveg mála í fundargerðum og formaður leggur til að sveitarstjóri boði hugmyndasmiðina á fund hið fyrsta.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


12. Fræðslunefnd fundargerð frá 17. apríl 2023 – Til kynningar

Oddviti gaf formanni nefndarinnar orðið. Formaður kynnir fundargerðina.

Varðandi lið 1, vill oddviti taka fram, að það sé verulegur missir af jafn hæfum einstaklingum og viðkomandi kennurum í þessu tilviki. Hafi báðir sýnt sínu starfi áhuga og vakið áhuga margra á tónlist og tónlistarnámi. Er þeim óskað velfarnaðar í þeirra framtíðarstarfi.

Hins vegar leggur oddviti til að sveitarstjórn staðfesti tillögu formanns nefndarinar og hafni þessari breytingu á tónlistarkennslu í Strandabyggð. Hún sé ekki í þeim anda sem a.m.k Strandabandalagið vill hafa við uppbyggingu tónlistarnáms í Strandabyggð.

Matthías tekur til máls og telur þetta ekki hljóma vel en telur sig ekki hafa nægar forsendur til að meta þessa tillögu.

Tillagan er borin upp og samþykkt með þremur atkvæðum T-lista en fulltrúar A-lista sitja hjá.

Varðandi lið 4 b.telur oddviti að upplýst hafi verið eins og hægt var til íbúa. Jafnframt telur oddviti óraunhæft að byggja nýjan skóla sem sveitarfélagið hefur ekki fjármagn til.

Að öðru leiti er fundargerðin lögð fram til kynningar.

13. Atvinnu, dreifbýlis- og hafnarnefnd fundargerð frá 17. apríl 2023 – Til kynningar

Fundargerðin lögð fram til kynningar. Formaður nefndarinnar kynnir fundargerðina.

Varðandi lið 1 a í fundargerð leggur sveitarstjórn fram eftirfarandi bókun:

„Í ljósi nýjustu tíðinda varðandi riðu í Húnaþingi Vestra beiti ríkistjórn sér fyrir að styrkja varnargirðingar sauðfjárveikivarna með auknu fjármagni“

Sveitarstjóra er falið að koma ályktuninni á framfæri.

Samþykkt samhljóða. Að öðru leiti telst fundargerðin lögð fram til kynningar.

14. Forstöðumannaskýrslur mars 2023 – Til kynningar

Lagðar fram til kynningar.


15. Vinnuskýrsla sveitarstjóra mars 2023 – Til kynningar og umræðu

Lögð fram til kynningar.


16. Aðalskipulag Ísafjarðar, tillaga að breytingu v.íbúðabyggðar á landfyllingu norðan Skutulsfjarðareyrar - Til kynningar

Lagt fram til kynningar.


17. Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar, breyting v. ofanflóðavarna á Flateyri – Til kynningar

Lagt fram til kynningar.


18. Náttúrustofa Vestfjarða fundur 141 frá 1. mars 2023 og fundur 142 frá 4. apríl 2023– Til kynningar

Lagt fram til kynningar. Oddviti vill nefna, varðandi fundargerð 141, að síðan þessi fundur var haldinn með forsvarsmönnum NAVE, hafi skapast umræða um að nýtt stöðugildi gæti verið blanda af sérfræðingi á sviði landbúnaðar/sauðfjárræktar og haftengdra verkefna.


19. Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerð nr. 920 frá 17. mars og nr. 921 frá 30. mars 2023- Til kynningar

Lagðar fram til kynningar


20. Stjórn Hafnasambands Íslands nr. 451 frá 24. mars 2023 – Til kynningar

Lögð fram til kynningar


21. Innviðaráðuneyti 15. mars 2023, hvatning vegna tillagna verkefnistjórnar um bættar aðstæður kjörinna fulltrúa – Til
kynningar

Lögð fram til kynningar. Oddviti hvetur kjörna fulltrúa að skoða vel innihald þessarar hvatningar. Það er skuggaleg staðreynd, að sex af hverjum tíu kjörnum fulltrúum skuli ekki sjá sér fært eða hafa áhuga á að starfa áfram í sveitarstjórnarmálum við kosningar, vegna neikvæðrar orðræðu, eineltis og annars áreitis. Það er verulega umhugsunarvert.

22. Kveðjur til íbúa Húnaþings Vestra

Sveitarstjórn sendir íbúum Húnaþings Vestra hlýjar kveðjur og sérstakar hluttekningarkveðjur til þeirra sem verða nú fyrir þungum áföllum.

Sveitarstjóra falið að koma kveðjunni til skila.

Samþykkt samhljóða.


Fleira ekki fyrirtekið, fundargerð lesin upp og fundi slitið kl. 18.56


Þorgeir Pálsson (sign)
Jón Sigmundsson (sign)
Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir (sign)
Matthías Sævar Lýðsson (sign)
Hlíf Hrólfsdóttir (sign)

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón