Söngkeppni Ozon á þriðjudagskvöldið
Þriðjudaginn 10. janúar fer fram hin árlega Söngkeppni félagsmiðstöðvarinnar Ozon, en hún verður haldin í kjallara Grunnskólanum á Hólmavík. Allmörg atriði taka þátt, en þriggja manna dómnefnd velur þrjú atriði sem fá keppnisrétt í Vestfjarðariðli landshlutakeppni Samfés sem verður á Súðavík föstudaginn 27. janúar. Þá fær siguratriðið farandgrip til varðveislu í eitt ár.
Húsið opnar kl. 20:00 og allir eru hjartanlega velkomnir. Aðgangseyrir fyrir fullorðna er 500 krónur, krakkar á grunnskólaaldri borga kr. 100 en börn undir fimm ára aldri fá frítt inn. Sjoppa nemendafélagsins verður að sjálfsögðu opin. Íbúar í Strandabyggð eru hvattir til að mæta á þessa skemmtilegu uppákomu í menningarlífinu og styðja þannig við bakið á söngvurunum og starfsemi félagsmiðstöðvarinnar.
Umsóknarfrestur vegna Skólaskjóls 10. janúar
Vakin er athygli foreldra og forráðamanna nemenda í Grunnskólanum á Hólmavík á að skráningarfrestur í Skólaskjól fyrir vorönnina 2012 er til 10. janúar. Þjónustan hefur verið aukin verulega þar sem starfið hefur verið þróað og endurskipulagt og verður nú boðið upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Upplýsingar um starfsemi Skólaskjóls og skráningareyðublað hafa borist til foreldra/forráðamanna í tölvupósti auk þess sem nemendur fengu gögnin afhent á síðasta skóladegi ársins 2011. Skrá þarf hversu mikið nemendur munu nýta Skólaskjól fram á vor.
366 fréttir á vef Strandabyggðar 2011
Salti landað fyrir Hólmadrang í dag
Salti var landað á hafskipabryggjunni í Hólmavíkurhöfn í dag fyrir rækjuvinnsluna Hólmadrang. Verið er að endurnýja stálþil á bryggjunni en hún hefur verið lokuð frá því í september vegna framvkæmdanna sem eru í fullum gangi. Verktakinn Ísar ehf. undirbjó bryggjuna fyrir löndunina ásamt starfsmönnum hafnarinnar en Hólmadrangur greiðir kostnað vegna þessa. Að sögn Sigurðar Marinó Þorvaldssonar hafnarvarðar gekk löndunin mjög vel og er afar gott að geta orðið við þessari beiðni Hólmadrangs. Endurbætur á bryggjunni eru nauðsynlegar og til mikilla bóta fyrir alla hagsmunaaðila þar sem ástand hennar var orðið slæmt. Áætluð verklok vegna endurbyggingar stálþilsins eru 1. mars 2012 og verður farið í útboð á þekjunni í framhaldi af því.