A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 06. nóvember 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Yfirfærsla grunnskólans til sveitarfélaganna

Vikan byrjaði á fundi um yfirfærslu grunnskóla yfir til sveitarfélaga, en um 25 ár eru síðan það var gert.  Ég fylgdist með fundinum í streymi framan af og þar kom ýmislegt áhugavert fram.  Við (á Íslandi) erum með eitt dýrasta skólakerfi í OECD.  Hár kostnaður er þó ekki vegna launahækkanna kennara, heldur er stoðkerfið að vaxa, framleiðni í skólastafi dregst saman (OECD könnun) og mikill tími fer í samskipti kennara og foreldra. Einnig var rætt um árangur.  Hvað er árangur?  Og þá má spyrja; Hvað er námsárangur? Hvernig á að mæla hann?  Hugsanlega mætti mæla hann með því að spyrja;  inn í hvaða framhaldsskóla komast nemendur eftir grunnskólanám?  Inn í hvaða háskóla komast nemendur?  Og komast þeir í það nám sem þeir ætluðu sér?  Þetta þurfum við að vita hvað okkar nemendur varðar og mun fræðslunefnd Strandabyggðar skoða þetta í vetur.

 

Það er margt að breytast i skólastarfi á Íslandi þessa dagana.  Innleiðing laga um farsæld barna er t.d. ein breytingin sem var innleidd um áramót og fram kom á fundinum að innleiðingin gæti tekið allt að fimm ár.  Það eru blikur á lofti hvað námsgagnagerð vaðar, sérþjónustu, bið eftir greiningu, fjölgun starfsmanna í stoðþjónustu á kostnað kennara og spurt var hvaða áhrif fjölgun ófaglærðra starfsmanna hefði á nemendur.

 

Sveitarfélögin eiga að móta sína eigin stefnu, með sínum foreldrum og sínu umhverfi.  Þau verða að vera sterkari og verða að horfa á hvernig hægt er að gera skólakerfið betra. Framundan hjá okkur í Strandabyggð er lestur og greining á Menntastefnu Vestfjarða, sem Vestfjarástofa kynnti á Fjórðungsþingi í síðasta mánuði.  Þessa stefnu munum við nota til að endurskoða okkar eigin „Menntastefnu í Strandabyggð“.

 

Skipulagsmál

Áfram er unnið að endurgerð Aðalskipulagsins. Í liðinni viku var m.a. einblínt á aðkomu inn á svæðið við félagsheimilið og íþróttamiðstöðina og tók ég það mál upp á fundi með fulltrúum Vegagerðarinnar.  Við erum einnig að skoða uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafmagnsbíla á bílastæðinu við Félagsheimilið. 

 

Hrekkjavaka

Hrekkjavaka fór fram í vikunni og tókst mjög vel, í frábæru veðri.  Slökkt var á ljósastaurum frá kl 18 til 21 sem gerði þetta allt meira spennandi.  Það var frábært að sjá hvað margir íbúar lögði mikinn metnað í skreytingar og ekkert vantaði upp á hugmyndaflugið.  Krakkarinr voru alsælir.

 

Fjárhagsáætlanagerð

Sveitarstjórn hélt vinnufund í vikunni og nú var einblínt á forsendur og áherslur hvað rekstarliðina varðar.  Þar var m.a. rætt um gjaldskrárbreytingar, breytingar á útsvari og fasteignaskatti o.s.frv.  Fjárhagsáætlun fer í fyrri umræðu á sveitarstjórnarfundi þann 14.11. n.k.

 

Starfrænt umhverfi sveitarfélaga

Ég sat fjarfund um stafræna umbreytingu sveitarfélaga en þar er mikil þróun í gangi.  Við í Strandabyggð tökum þátt í þessu verkefni sem er á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Á næsta ári verður farið í endurgerð heimasíðu sveitarfélagsins og stofnanna þess og þá þarf að taka tillit til þeirra stafrænu lausna sem í boðu eru.  Við munum sjá breytingu hvað öll samskipti við íbúa varðar, sem m.a. felur í sér gagnvirk samskipti, auðveldara umsóknarferli ofl.

 

Starfsmannamál

Eins og fram hefur komið, höfum við staðið frammi fyrir erfiðleikum við að manna nokkrar stöður hjá sveitarfélaginu.  Það hefur þó heldur snúist til betri vegar og í vikunni var t.d. gengið frá samningi varðandi deildarstjórastöðu í leikskólanum, komin er tímabundin lausn hvað varðar tónlistarkennara og einnig var formlega gengið frá ráðingu matráða við grunnskólann.  Sömuleiðis er kominn matráður í leikskólann.  Þetta er allt mjög gleðilegt en áfram leitum við hins vegar að þroskaþjálfa.

 

Að auki var vikan full af alls kyns samskiptum, vangaveltum og hugmyndavinnu sem miðar að því að gera Strandabyggð betra og öflugra sveitarfélag.

 

Kveðja

Þorgeir Pálsson

Oddviti

 

 

 

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón