A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Þjóðleikshátíð á Vestfjörðum

| 07. maí 2015

Verkefnið Þjóðleikur er heilmikið leiklistarverkefni á landsbyggðinni sem fer fram í samvinnu Þjóðleikhússins við menningarráð, leikfélög og skóla og marga aðra aðila um land allt. Nú um helgina verður Þjóðleikshátíð á Ísafirði í Edinborgarhúsinu laugardaginn 9. maí og sunnudaginn 10. maí. Þar munu sex leiklistahópar frá Ísafirði, Hólmavík og Sauðárkróki sýna tvö glæný íslensk leikverk. Hægt verður að kaupa armband sem gildir á allar sýningarnar á staðnum á aðeins 1500 krónur. Allir eru hjartanlega velkomnir á Þjóðleikshátíðina.

Leikverkin eru Hlauptu, týnstu! eftir Berg Ebba og Útskriftaferðin eftir Björk Jakobsdóttur, en hún mun heiðra hátíðina með nærveru sinni. Þau verða sýnd alls 12 sinnum, því hver hópur sýnir tvisvar sinnum. Bæði verkin eru skrifuð sérstaklega með leikara á aldrinum 13-20 ára í huga. Leikhópar um land allt hafa valið sér annað þessara verka til uppsetningar og hafa æft stíft frá áramótum. Þau hafa svo sýnt í sinni heimabyggð og koma síðan saman á landshlutahátíð á þremur stöðum á landinu að þessu sinni.

Hátíðin hefst kl. 14:00 á laugardaginn með skrúðgöngu, glaum og gleði, og klukkan 15:00 hefjast svo sýningar í tveimur sölum í Edinborgarhúsinu, Bryggjusalnum og Edinborgarsalnum. Sýnt verður laugardaginn fram til kl. 20:00 en þá verður kvöldvaka fyrir hópana. Á sunnudag hefjast sýningar að nýju kl. 10:00 og standa óslitið til kl. 16:00. Verkefnið er gríðarlega lærdómsríkt fyrir þátttakendur og spennandi fyrir þá að sjá hvernig aðrir hópar leysa úr málum í sinni uppsetningu. Eins skemmta gestir sér vel að sjá ólíkar útgáfur af sömu verkum.

 

Þjóðleikshátíð er nú haldin í fyrsta sinn á Vestfjörðum, en hópur frá Hólmavík tók þátt í hátíðinni á Norðurlandi árið 2013. Verkefnisstjóri af hálfu Þjóðleikhússins er Vigdís Jakobsdóttir frá Ísafirði. Hóparnir sem taka þátt fyrir hönd Strandabyggðar að þessu sinni eru tveir. Annars vegar setur Ungmennahúsið Fjósið upp Hlauptu, týnstu en hins vegar setur Kva1urinn & dvergarnir sjö, leiklistarval Grunnskólans á Hólmavík, upp Útskriftarferðina. Báðar uppsetningarnar frá Strandabyggð eru unnar í nánu samstarfi við Leikfélag Hólmavíkur.

 

Sýningarplanið á hátíðinni er svohljóðandi:

Laugardagur 9. maí:

 

Kl. 14:00 – Skrúðganga Þjóðleiks frá Edinborg

Kl. 15:00 – Opnunarsýning í Edinborgarsal: Útskriftarferðin - Gölluðu drengirnir, Ísafirði, leikstjórn Harpa Henrýsdóttir

Kl. 15:00 – Opnunarsýning í Bryggjusal: Hlauptu, týnstu! – Leikfélag Hólmavíkur & Fjósið ungmennahús, Hólmavík, leikstjórn Eiríkur Valdimarsson og Jón Jónsson

Kl. 16:00 – Í Bryggjusal: Hlauptu, týnstu! – Leikfélag Hólmavíkur & Fjósið ungmennahús, Hólmavík, leikstjórn Eiríkur Valdimarsson og Jón Jónsson

Kl. 17:00 – Í Edinborgarsal: Útskriftarferðin – Leiklistarval 9. Bekkjar í Árskóla, Sauðárkróki, leikstjórn Íris Baldvinsdóttir

Kl. 18:00 – Í Bryggjusal: Hlauptu, týnstu! – Skattlaust lán, Ísafirði, leikstjórn Harpa Henrýsdóttir

Kl. 19:00 – Í Edinborgarsal: Útskriftarferðin – Leiklistarval 9. Bekkjar í Árskóla, Sauðárkróki, leikstjórn Íris Baldvinsdóttir

 

Sunnudagur 10. maí:

 

Kl. 10:00 – Í Bryggjusal: Hlauptu, týnstu! – Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar, Ísafirði, leikstjórn Henna-Riikka Nurmi

Kl. 11:00 – Í Edinborgarsal: Útskriftarferðin – Kva1urinn og dvergarnir sjö, Hólmavík, leikstjórn Esther Ösp Valdimarsdóttir

Kl. 12:00 – Í Bryggjusal: Hlauptu, týnstu! – Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar, Ísafirði, leikstjórn Henna-Riikka Nurmi

Kl. 13:00 – Í Edinborgarsal: Útskriftarferðin – Kva1urinn og dvergarnir sjö, Hólmavík, leikstjórn Esther Ösp Valdimarsdóttir

Kl. 14:00 – Í Bryggjusal: Hlauptu, týnstu! – Skattlaust lán, Ísafirði, leikstjórn Harpa Henrýsdóttir

Kl. 15:00 – Í Edinborgarsal: Útskriftarferðin - Gölluðu drengirnir, Ísafirði, leikstjórn Harpa Henrýsdóttir

 

Sjáumst á Þjóðleik !!!

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón