A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Kveðja til íbúa

Salbjörg Engilbertsdóttir | 03. júní 2022

 

Kæru íbúar Strandabyggðar!

Það var sérlega ánægjulegt að sjá flutningaskip við bryggju hér á Hólmavík, í gærmorgun en skipið kom hingað með 260 tonn af rækju fyrir Hólmadrang. Hráefnisstaðan er því góð um þessar mundir. Það vita allir hversu mikilvæg þessi starfsemi er fyrir sveitarfélagið og þess vegna fögnum við því þegar vel gengur.


Þeim fjöldar líka ört ferðamönnunum sem sjást hér í þorpinu, á tjaldsvæðinu, við gisti- og veitingastaðina. Bistro 510 er búið að opna, strandveiðin skapar líf við höfnina, vinnuskólinn byrjar eftir helgina sem og sumarnámskeiðin, tiltekt hafin í görðum og það heyrist í einstaka sláttuvél. Sumarið er að koma. Og við fögnum því og njótum þess meðan það er, því tíminn hefur tilhneigingu til að líða of hratt.


Fyrsta vika nýrrar sveitarstjórnar er að baki og spennandi tímar framundan. Nokkur mál voru tekin fyrir á sveitarstjórnarfundi þann 31. maí s.l. og er ljóst af afgreiðslu þeirra að framundan eru framkvæmdir við nýjar réttir, skipulag göngustíga, aukið umferðaröryggi með merkingu gangbrauta ofl. Að auki eru fjöldi mála í undirbúningi sem öll eru til hagsbóta fyrir íbúa og sveitarfélagið í heild.


Sveitarstjórn Strandabyggðar er nú skipuð fulltrúum tveggja lista, eins og kunnugt er. Allt er þetta fólk sem þekkist, hefur rætur og taugar til samfélagsins og vill Strandabyggð vel. Áherslur kunna að vera mismunandi í einstaka málum, en sveitarstjórn Strandabyggðar er staðráðin í að sinna sínu hlutverki af samvisskusemi og heilindum.

Að vera í sveitarstjórn er viðamikið starf. Það þarf að lesa mikið af gögnum, ályktunum, reglugerðum, skýrslum og minnisblöðum, svo fátt eitt sé nefnt. Fundir eru tíðir, t.d. í nefndum sveitarfélagsins en einnig í öllum þeim fjölmörgu samstarfsverkefnum sem Strandabyggð á aðild að. Það tekur tíma að kynnast og ná utan um þetta verklag, en ef við styðjum hvert annað mun það ganga.


Kæru íbúar Strandabyggðar. Njótið sumarsins og alls þess sem Strandabyggð hefur upp á að bjóða. Lífið er núna, ekki seinna.


Kveðja frá sveitarstjórn,
Þorgeir Pálsson
Oddviti

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón