A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn Strandabyggðar - 17. ágúst 2010

Þann 17. ágúst 2010 var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Hann var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Hafnarbraut 19 á Hólmavík og hófst kl. 18:15. Jón Gísli Jónsson oddviti sveitarstjórnar setti fundinn, bauð fundarmenn velkomna og stjórnaði fundi. Auk hans sátu fundinn Jón Jónsson, Ásta Þórisdóttir, Katla Kjartansdóttir og Bryndís Sveinsdóttir sveitarstjórnarmenn. Jón Jónsson ritaði jafnframt fundargerð. Á dagskrá eru eftirtalin mál:

 

1. Skýrsla oddvita.

2. Gjaldskrár sveitarfélagsins.

3. Skýrsla ÍSOR um vatnsvinnslumöguleika við Hólmavík.

4. Boðun á aðalfund Menningarráðs Vestfjarða dags. 3. ág. 2010.

5. Fundargerð Landbúnaðar- og dreifbýlisnefndar Strandabyggðar dags. 13. ág. 2010.

6. Fundargerð Bygginga-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 16. ág. 2010.

7. Fyrirspurn frá Sævari Benediktssyni um fyrstu slökkvidæluna á Hólmavík, dags. 11. ágúst 2010.

8. Styrkbeiðni og frekari gögn frá Héraðssambandi Strandamanna.

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

1. Skýrsla oddvita.

Í skýrslu oddvita dags. 14. ágúst 2010 er yfirlit yfir helstu framkvæmdir sem starfsmenn áhaldahúss hafa unnið að. Lagðar hafa verið túnþökur á reitinn þar sem Hilmir stóð og við bátarennu. Lagfæringum er lokið á leikskólalóð og búið að girða lóðina af. Unnið hefur verið að viðhaldi í grunnskólanum og verið er að setja upp nýja girðingu neðan við skólavöll. Langt er komið að skipta um járn á þaki Skólabrautar 18. Lionsklúbbur Hólmavíkur mun fjarlægja útihús í Brandskjólum. Nokkrar girðingar í landi Skeljavíkur og Víðidalsár hafa verið fjarlægðar og búið er að ræða við viðeigandi aðila um að fjarlægja fleiri slíkar. Sveitarstjórn er sammála um að vinna áfram að því að fjarlægja ónýtar girðingar sem eru gagnslausar og lýti á umhverfinu.

 

Lóðarleigusamningur hefur verið gerður við Golfklúbb Hólmavíkur til 25 ára um svæði undir golfvöllinn.

 

Gerðar voru fyrirspurnir um vetrarþjónustu á vegi 68 suður Strandir, þar sem það verkefni var fellt út af útboðslista Vegagerðarinnar. Fram kom í svari að þjónusta á þeirri leið yrði óbreytt og mokað virka daga. Verkið yrði ekki boðið út, en mokstur að Guðlaugsvík yrði í höndum þjónustumiðstöðvar á Hólmavík. Miðað væri við að leiðin milli Hólmavíkur og Broddadalsár væri opin kl. 7:30 að morgni. Í skýrslu oddvita kemur einnig fram að óskað hefur verið eftir fundi með Sigurði Mar Óskarssyni hjá Vegagerðinni til að ræða ýmis mál. Sveitarstjórn ítrekar áhuga sinn á að teknar verði upp áætlunarferðir milli Króksfjarðarness og Hólmavíkur frá næstu áramótum þegar skipulag verður endurskoðað.

 

Í skýrslu oddvita kemur einnig fram að unnið hefur verið að skriflegum samningum í tengslum við skólastarf, varðandi Skólaskjól, mötuneyti og skólaakstur. Sveitarstjórn ákveður að halda gjaldskrám tengdum skólastarfi óbreyttum út árið. Samþykkt að heimila grunnskóla að auglýsa eftir stuðningsfulltrúa og sveitarstjórn samþykkir að bætt verði við starfsmanni í heimanámið til reynslu, ef þörf er á. Loks beinir sveitarstjórn því til Fræðslunefndar að gera tillögu að reglum um hvernig brugðist skuli við ef þjónustugjöld tengd skólastarfi eru ekki greidd.

 

Í framhaldi af skýrslu oddvitanna var rætt um starfsmannamál. Guðrún Guðfinnsdóttir leikskólastjóri hefur sagt starfi sínu lausu og auglýsa þarf þá stöðu. Ákveðið að fela sveitarstjóra að vinna að úttekt á kostum þess og göllum að sameina leikskóla, grunnskóla og tónskóla sveitarfélagsins undir eina stjórn. Einnig var ákveðið að auglýsa 50% starf á skrifstofu sveitarfélagsins.


2. Gjaldskrár sveitarfélagsins.

Lögð fram til fyrri umræðu tillaga að gjaldskrá fyrir afgreiðslu og þjónustu vegna skipulags og byggingarmála og tengigjalds veitna í Strandabyggð. Tillögunni vísað samhljóða til seinni umræðu.

 

3. Skýrsla ÍSOR um vatnsvinnslumöguleika við Hólmavík.

Lögð fram til kynningar skýrsla eftir Þórólf H. Hafstað hjá ÍSOR sem ber yfirskriftina Hólmavík. Vatnsvinnslumöguleikar.

 

4. Boðun á aðalfund Menningarráðs Vestfjarða dags. 3. ág. 2010.

Lögð fram gögn frá Menningarráði Vestfjarða þar sem aðalfundur er boðaður 4. september 2010 kl. 15:00 á Hólmavík. Ákveðið að Jón Gísli Jónsson oddviti fari með umboð Strandabyggðar á aðalfundinum.

 

5. Fundargerð Landbúnaðar- og dreifbýlisnefndar Strandabyggðar dags. 13. ág. 2010.

Lögð fram til samþykktar fundargerð Landbúnaðar- og dreifbýlisnefndar Strandabyggðar dags. 13. ágúst 2010. Varðandi lið 4 vísar sveitarstjórn því til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 að skoða lausnir varðandi skólabifreið. Einnig samþykkir sveitarstjórn að beina þeirri tillögu til Vegagerðarinnar að þær leiðir sem skólaakstur er á verði opnaðar fyrr á daginn. Ef þjónustutími á veginum suður Strandir væri t.d. færður fram um hálftíma myndi mokstur nýtast skólaakstri mun betur. Fundargerðin samþykkt samhljóða.

 

6. Fundargerð Bygginga-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 16. ág. 2010.

Lögð fram til samþykktar fundargerð Bygginga-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 16. ág. 2010. Fundargerðin samþykkt eftir nokkra umræðu.

 

7. Fyrirspurn frá Sævari Benediktssyni um fyrstu slökkvidæluna á Hólmavík, dags. 11. ágúst 2010.

Lögð fram fyrirspurn frá Sævari Benediktssyni um slökkvidælu. Sveitarstjórn er kunnugt um að sögusagnir um að dælan hafi verið seld eða gefin eiga ekki við rök að styðjast, heldur sé hún í geymslu á Hólmavík.

 

8. Styrkbeiðni og frekari gögn frá Héraðssambandi Strandamanna.

Lögð fram gögn og styrkbeiðni frá Héraðssambandi Strandamanna dags. 10. ágúst 2010 þar sem farið er fram á styrk frá Strandabyggð. Sveitarstjórn samþykkir einróma að styrkja Héraðssambandið um 150 þúsund, en sveitarfélagið hefur einnig veitt Héraðssambandinu stuðning í formi skrifstofuaðstöðu undanfarin misseri. 

  

Fundargerð lesin upp og hún samþykkt samhljóða. Fundi slitið kl. 21:22.

 

Jón Gísli Jónsson (sign)                
Bryndís Sveinsdóttir (sign)

Katla Kjartansdóttir (sign)                          
Ásta Þórisdóttir (sign)

Jón Jónsson (sign)
 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón