A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 3. nóvember 2009.

Ár 2009 þriðjudaginn 3. nóvember var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar.  Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00.  Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson.  Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Þetta var gert:

 

Oddviti kynnti dagskrá fundarins í  7 töluliðum, sem var eftirfarandi:

 

  • 1. Þingmannafundur 29. október 2009.
  • 2. Samanburður rekstrarreiknings við fjárhagsáætlun fyrstu 9 mánuði ársins.
  • 3. Stutt samantekt um hagkvæmni þess að hafa einn stjórnanda menntastofnana hjá Strandabyggð.
  • 4. Erindi frá Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneyti um auglýsingu til sveitarstjórna um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2009/2010.
  • 5. Fundargerð Félagsmálaráðs Strandabyggðar dags. 15. október 2009.
  • 6. Fundargerð byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 20. október 2009.
  • 7. Beiðni frá Snorraverkefninu dags. 16. október 2009 um fjárhagsstuðning við verkefnið.

 

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

  • 1. Þingmannafundur 29. október 2009. Fimmtudaginn 29. október var haldinn fundur með þingmönnum Norðvesturkjördæmis á Ísafirði en Fjórðungssamband Vestfirðinga sá um undirbúning og framkvæmd. Tókst fundurinn afar vel og var farið yfir öll helstu mál fjórðungsins sem talið var nauðsynlegt að fylgja eftir eða leggja áherslu á. Farið var ítarlega yfir samgöngumál og lögð áhersla á uppbyggingu Vestfjarðavegar, vetrarþjónustu og snjómokstur, jöfnun flutningskostnaðar, fjarskiptasjóð og styrki til ferja, sérleyfishafa og innanlandsflugs. Þá var rætt um jöfnun raforkuverðs, niðurgreiðslur til húshitunar og raforkuöryggi undir liðnum orkumál og fyrirsjáanlega fækkun stöðugilda í opinberri þjónustu vegna breytingar á stjórnkerfi. Lögð var mikil og rík áhersla á velferðar- og menntamál sem og rannsóknir og m.a. lögð áhersla á að koma upp framhaldsdeild á Hólmavík. Að endingu voru atvinnumál rædd og sóknaráætlun 20/20 sem unnin er í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða var kynnt af Þorgeiri Pálssyni.
  • 2. Samanburður rekstrarreiknings við fjárhagsáætlun fyrstu 9 mánuði ársins. Lagður er fram til kynningar samanburður rekstrarreiknings við fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrstu 9 mánuði ársins. Eins og gera mátti ráð fyrir er aukning á rekstrarkostnaði þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir enda hafa aðföng hækkað mikið á árinu. Þá er ljóst að samdráttur er á tekjum frá Jöfnunarsjóði og má reikna með að hallarekstur verði tæplega 5 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.
  • 3. Stutt samantekt um hagkvæmni þess að hafa einn stjórnanda menntastofnana hjá Strandabyggð. Lögð er fram til kynningar samantekt um hagkvæmni þess að hafa einn stjórnanda menntastofnana hjá Strandabyggð. Lagt fram til kynningar.
  • 4. Erindi frá Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneyti um auglýsingu til sveitarstjórna um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2009/2010. Borist hefur erindi dags. 12. október 2009 frá Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneyti um auglýsingu til sveitarstjórna um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2009/2010. Búið er að senda inn umsókn um byggðakvóta fyrir Strandabyggð fiskveiðiárið 2009/2010. Lagt fram til kynningar.
  • 5. Fundargerð Félagsmálaráðs Strandabyggðar dags. 15. október 2009. Lögð er fram til samþykktar fundargerð Félagsmálaráðs Strandabyggðar frá 15. október 2009. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
  • 6. Fundargerð byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 20. október 2009. Lögð er fram til samþykktar fundargerð byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar frá 20. október 2009. Liður 1. í fundargerð er samþykktur með þremur atkvæðum en tveir greiddu atkvæði á móti en að öðru leyti var fundargerðin samþykkt samhljóða.
  • 7. Beiðni frá Snorraverkefninu dags. 16. október 2009 um fjárhagsstuðning við verkefnið. Borist hefur erindi frá Snorraverkefninu dags. 16. október 2009 þar sem leitað er eftir fjárhagsstuðningi við verkefnið fyrir árið 2010. Samþykkt var samhljóða að hafna erindinu.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.  Fundi slitið kl. 18:30.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón