A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 24. júní 2008

Ár 2008 þriðjudaginn 24. júní var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
 
Þetta var gert:
 
Oddviti kynnti dagskrá fundarins í 9 töluliðum, sem var eftirfarandi:


1. Skýrsla sveitarstjóra.
2. Kosning oddvita, varaoddvita, skoðunarmanna, endurskoðanda og kjörstjórnar til eins árs.
3. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga um tillögur að gerð svæðisskipulags fyrir Vestfirði.
4. Erindi frá Mótorkross félagi Geislans um styrk til gerðar mótorkrossbrautar.
5. Uppsögn vinabæjarsamstarfs frá Faaborg-Midtfyn Kommune, áður Arslev og Merimaskun Kunta.
6. Umsóknir um þátttöku sem fulltrúar Strandabyggðar í vinabæjarmóti í Hole í Noregi.
7. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar
dags. 11. júní 2008.
8. Ársreikningur Strandabyggðar 2007, fyrri umræða.
9. Staðardagskrá 21 fyrir Strandabyggð.

Þá var gengið til dagskrár.


1. Skýrsla sveitarstjóra. 
Greint er frá því að eigendur Café Riis séu tilbúnir til að sjá um rekstur mötuneyta hjá sveitarfélaginu með það að markmiði að reka Café Riis allt árið. Er þegar reynsla fyrir slíkum rekstri á Tálknafirði sem telur færri íbúa en í Strandabyggð. Verði gengið til samninga við Café Riis er rétt að skoða hvort ekki eigi að taka leikskólann með sem og að starfsmönnum sveitarfélagsins standi til boða að borða þar í hádeginu. Þá er einnig eðlilegt að Café Riis sjái um mat fyrir eldri borgara, en slíkir bakkar hafa verið keyptir af Heilbrigðisstofnuninni hingað til. 

Þá er greint frá því að ungmannafélagið Djúpverji er búið að samþykkja að gefa sinn hlut í félagsheimilinu á Nauteyri til Steinshúss ses. Þarf því nú að tilnefna tvo frá sveitarfélaginu í stjórn Steinshúss og er komin fram tillaga um Valdemar Guðmundsson og Rúnu Stínu Ásgrímsdóttur og Jón Stefánsson sem varamaður en einnig á sæti í stjórn upphafsmaður Steinshúss, Þórarinn Magnússon. Þá er Djúpverji búinn að tilnefna sinn fulltrúa sem kemur frá Æðey en eftir er að tilnefna fyrir kvenfélagið á Nauteyri.


2. Kosning oddvita, varaoddvita, skoðunarmanna, endurskoðanda og kjörstjórnar til eins árs. 
Eftirfarandi aðilar voru kosnir samhljóða:
Oddviti: Valdemar Guðmundsson og varaoddviti Rúna Stína Ásgrímsdóttir.
Skoðunarmenn:  Anna Þorbjörg Stefánsdóttir og Signý Ólafsdóttir og til vara Jóhann Björn Arngrímsson og Úlfar Hentze Pálsson.
Endurskoðandi:  Kristján Jónasson KPMG. 
Kjörstjórn: Anna Þorbjörg Stefánsdóttir, Maríus Kárason og Bryndís Sigurðardóttir og til vara Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir, Signý Ólafsdóttir og Birna Richardsdóttir.


3. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga um tillögur að gerð svæðisskipulags fyrir Vestfirði. 
Borist hefur erindi dags. 11. júní 2008 frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga þar sem greint er frá tillögum að gerð svæðisskipulags fyrir Vestfirði ásamt því að sveitarfélagið tilnefni annan fulltrúa í Svæðisskipulagsnefnd en þegar er búið að tilnefna Matthías Lýðsson. Samþykkt var samhljóða að fresta afgreiðslu til næsta fundar.


4. Erindi frá Mótorkross félagi Geislans um styrk til gerðar mótorkrossbrautar. 
Borist hefur erindi frá Mótorkross félagi Geislans þar sem farið er fram á styrk að fjárhæð 1.000.000 kr. til að ljúka framkvæmdum við gerð mótorkrossbrautar. Samþykkt var samhljóða að verða við erindinu.


5. Uppsögn vinabæjarsamstarfs frá Faaborg-Midtfyn Kommune, áður Arslev og Merimaskun Kunta. 
Borist hafa erindi frá Faaborg-Midtfyn Kommune og Merimaskun Kunta þar sem greint er frá hugsanlegum breytingum á vinabæjarsamstarfi þar sem viðkomandi sveitarfélög hafa sameinaðst öðrum sveitarfélögum.  Lagt fram til kynningar.


6. Umsóknir um þátttöku sem fulltrúar Strandabyggðar í vinabæjarmóti í Hole í Noregi. 
Borist hafa sex umsóknir til Strandabyggðar vegna fyrirhugaðs vinabæjarmóts í Hole nk. ágúst en búið var að samþykkja að styrkja 3-4 aðila til ferðarinnar. Umsækjendur voru: Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Victor Victorsson, Ásta Þórisdóttir, Gunnar Melsted, Kristín S. Einarsdóttir og Salbjörg Engilbertsdóttir. Samþykkt var samhljóða að styrkja Rúnu Stínu Ásgrímsdóttur, Ástu Þórisdóttur, Kristínu S. Einarsdóttur og Salbjörgu Engilbertsdóttur til fararinnar.


7. Fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 11. júní 2008. 
Lögð er fram til samþykktar fundargerð byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar frá 11. júní 2008. Fundargerðin var samþykkt með eftirfarandi breytingum: Borin var 4. liður fundargerðarinnar, lokun Vitabrekku yfir sumartímann, undir atkvæði og greiddu þrír atkvæði með lokuninni en tveir greiddu atkvæði á móti. Þá var samþykkt samhljóða að hafna því að gerð verði bílastæði fyrir stórar bifreiðar skammt frá vigtarhúsi.


8. Ársreikningur Strandabyggðar 2007, fyrri umræða. 

Kristján Jónasson endurskoðandi var boðinn velkominn á fundinn. Fór hann yfir ársreikninga Strandabyggðar og gerði grein fyrir helstu kennitölum. Rekstrartekjur A hluta sveitarsjóðs námu tæpum 329 milljónum kr. en rekstrargjöld tæpum 272 millj. kr. og fjármagnsgjöld rúmar 21 millj. kr. Hagnaður frá rekstri A hluta nam því rúmum 36 millj. kr. en samantekinn A og B hluti sýndi jákvæða rekstrarniðurstöðu upp á tæpar 22 millj. kr.  Handbært fé frá rekstri nam tæpum 66 millj. kr. en hækkun á handbæru fé eftir fjármögnunarhreyfingar nam rúmum 31 millj. kr. Engin ný lán voru tekin á árinu. Samþykkt var að vísa ársreikningum til annarrar umræðu. Kristján Jónasson vék af fundi.


9. Staðardagskrá 21 fyrir Strandabyggð. 
Lögð er fram til samþykktar Staðardagskrá 21 fyrir Strandabyggð en dagskránni er ætlað að verða stefnumótandi fyrir sveitarfélagið í öllum rekstri þess. Samþykkt var samhljóða að vísa Staðardagskránni til næsta fundar svo fundarmenn gætu kynnt sér enn betur innhald hennar.

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:00. 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón