A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Leikskólanefnd - 8. okt. 2008

Miðvikudaginn 8. október 2008 var haldinn fundur í Leikskólanefnd Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Mætt voru Ingibjörg Emilsdóttir, varamaður, Sigurður Marinó Þorvaldsson, Kristín Sigurrós Einarsdóttir, sem ritaði fundargerð, Hlíf Hrólfsdóttir fulltrúi foreldra og Kolbrún Þorsteinsdóttir leikskólastjóri. Sigurður setti fundinn og stjórnaði honum.

1. Erindi frá Viðari Guðmundssyni varðandi vistun.
2. Kynning á úttekt á leiktækjum leikskóla.
3. Önnur mál.

Þá var gengið til dagskrár.

1. Erindi frá Viðari Guðmundssyni varðandi vistun.
Viðar óskar eftir rökum fyrir því að ekki sé hægt að hafa vistunartíma barna í leikskólanum breytilegan eftir vikudögum. Sú ákvörðun var tekin í samhengi við einsetningu leikskólans á sínum tíma (í lok síðasta kjörtímabils) og voru helstu rök þau að mikill breytileiki í vistunartíma skapaði ringulreið fyrir leikskólastarfið og börnin sjálf. Einnig að þetta skapaði óhagræði varðandi nýtingu starfsmanna á ákveðnum tímum dagsins.

Ræddir voru kostir og gallar þess að bjóða upp á mismunandi vistunartíma eftir vikudögum. Kostirnir þykja m.a. þeir að bæta þjónustu við foreldra og að börnin fái ef til vill meiri tíma með foreldrum, þá daga sem fólk hefur verið að kaupa meiri vistunartíma en þörf er á vegna vinnu foreldranna. Þær Kolbrún og Hlíf telja þó mögulegt að hagræða þannig í skipulagningu á starfi leikskólans að þetta geti gengið upp. Verður þessi möguleiki þá í boði fyrir alla, en hingað til hafa verið gerðar undantekningar fyrir þau börn sem eiga um lengstan veg að fara.

Því leggur leikskólanefnd til að boðið verði upp á vistunartíma frá kl 8 eða 9 á morgnana til kl 12, 13, 14, 15 eða 16 á daginn (við bætist kl 13 og 15). Einnig að vistunartími geti verið breytilegur eftir vikudögum, en sá vistunartími sem kosinn er gildi að öllu jöfnu í heila önn, það er frá því að sumarfríi lýkur og til áramóta eða frá áramótum til upphafs sumarfrís. Hins vegar er áfram mjög mikilvægt að fólk haldi sig við þann vistunartíma sem greitt er fyrir hverju sinni.

2. Kynning á úttekt á leiktækjum leikskóla.
Kolbrún lagði fram gögn frá BSI á Íslandi, vegna úttektar á leikskólalóðinni sem gerð var 8. ágúst sl. Búið er að lagfæra flest af því sem var gefinn þriggja mánaða frestur til að laga. 

3. Önnur mál.
a. Rætt var um reynsluna af skólamáltíðum, sem hafa verið keyptar af Café Riis og er almenn ánægja með það fyrirkomulag.

b. Samkeppni um merki leikskólans er lokið og bárust þrjár tillögur eftir tvo höfunda í keppnina. Dómnefnd hefur hist og valið merki. Bréf hefur verið sent til vinningshafa sem hlýtur 70 þúsund króna verðlaun. Stefnt er að því að prenta merkið á skilti, sem verður afhjúpað á afmæli leikskólans 30. október.

Fundargerð lesin upp og hún samþykkt. Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 17:58.

Hlíf Hrólfsdóttir (sign)                                 
Ingibjörg Emilsdóttir (sign)
Kristín Sigurrós Einarsdóttir (sign)              
Sigurður Marinó Þorvaldsson (sign)
Kolbrún Þorsteinsdóttir (sign)                                 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón