A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan ađ baki

Ţorgeir Pálsson | 06. maí 2023

 

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nokkrar línur um vikuna sem var að líða.  Það gerðist margt í þessari viku;

Wilson Skaw fór og þar með lauk þessari framhaldssögu sem við íbúar höfum haft fyrir augunum síðan 18. apríl sl.  Dráttarbáturinn Grettir Sterki dró skipið áleiðis til Akureyrar í sannkölluðu Hólmavíkurlogni föstudaginn 5. maí og vonandi gengur sú ferð vel.  Það er ánægjulegt að segja frá því, að allar tryggingar og ábyrgðir tryggingafélags útgerðarinnar lágu fyrir og áhætta Strandabyggðar var í algeru lágmarki, enda okkar kröfur skýrar hvað þetta varðar.  Öll samskipti okkar við Landhelgisgæsluna, útgerð skipsins, Umhverfisstofnun, björgunaraðila, lögmenn og aðra hlutaðeigandi voru fagleg og ánægjuleg, enda allir að vinna að sama marki. 

Grunnskólinn:  Vinna í grunnskólanum gengur vel.  Í lok vikunnar kom fulltrúi VERKÍS á Ísafirði til okkar og átti fund með sveitarstjórn og starfsmönnum sveitarfélagsins.  VERKÍS mun verða okkur innan handar hvað verkefnastjórnun og hönnun yngri hluta skólans varðar, þar sem ráðgjafi VSÓ Ráðgjafar varð að segja sig frá verkefninu.  Að auki munu starfsmenn EFLU koma að verkefninu áfram.  Framundan er vinna með kennurum og stjórnendum skólans að gera eins konar þarfagreiningu og mat á því hvernig við nýtum yngri hlutann fyrir kennslu, vinnuaðstöðu kennara, samverusvæði o.s.frv.  Þetta þokast allt í rétta átt.  Gert er ráð fyrir að Litli Klettur ljúki sinni vinnu í lok komandi viku og þá taka aðrir verkþættir við.

Samráðsfundir.  Í vikunni voru tveir samráðsfundir; annars vegar með bændum þar sem rætt var um fjallskil og girðingarmál og hins vegar með eigendum gáma á Tanganum, en þar er fyrirhuguð tiltekt og flutningur gáma af svæðinu.  Báðir fundir voru upplýsandi og mun meiri yfirsýn og samstaða er nú milli aðila.  Við viljum koma í veg fyrir lausagang búfjár innan girðingar og bæjarmarka og til þess þarf að lagfæra girðingar á nokkrum stöðum.  Bændur og sveitarfélagið taka því höndum saman og leita formlega til Vegagerðarinnar eftir fjárhagslegum stuðningi hvað úrbætur varðar.  Við erum líka samstíga útgerðarmönnum og gámaeigendum, hvað varðar tiltekt á Tanganum.  Við viljum fegra umhverfið á Tanganum og um leið finna lausn sem hentar þeim sem nýta gámana.

Lífið á Hólmavík. Strandveiðar eru hafnar, ferðamönnum fjölgar, sumarvinna fer að skýrast og við, íbúar í Strandabyggð erum án efa byrjuð að hugleiða framkvæmdir í sumar.  Sumir ætla kannski að mála, aðrir klæða húsin sín eða gera matjurtagarð eða eitthvað annað.  Sumt er þó enn óljóst, eins og sláttur og umhirða opinna svæða á Hólmavík, en það hlýtur að bjargast.

Við skulum alla vega horfa bjartsýn fram á veg og nýtum sumrið vel.  Það er nefnilega margt sem við íbúar getum gert til að fegra umhverfið og skapa jákvæða bæjarmynd. Það var t.d. frábært að sjá áhugann á kajaksiglingum í vikunni, þegar GG Sport var með sýningu á Hólmavík.  Kajaksiglingar eru frábært sport og góð útivera og óvíða betra að stunda slíkar siglingar en hér á Hólmavík. 

Áfram Strandabyggð!

Kveðja og góða helgi,

Þorgeir Pálsson

Oddviti

 

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón