A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan ađ baki

Ţorgeir Pálsson | 08. apríl 2024

Kæru íbúar Strandabyggðar,

 

Nokkrar línur um sum þeirra mála sem hafa verið í umræðunni að undanförnu.  

 

Sértækur byggðakvóti

Eitt stærsta mál síðari tíma í atvinnulífi Strandabyggðar held ég að verði að teljast úthlutun Byggðastofnunar á 500 tonna sértækum byggðakvóta til sveitarfélagsins.  Öllum eru að ég held ljóst, hversu mikið tækifæri þetta er fyrir sveitarfélagið, hvað atvinnu- og verðmætasköpun varðar.  Og það var því viðbúið að málið yrði mikið rætt í samfélaginu og jafnvel umdeilt, enda skiptar skoðanir á því hvernig hagsmununir sveitarfélagsins yrðu best tryggðir.  Rétt er að minna á að þessum kvóta er ætla að efla fiskvinnslu á Hólmavík og skapa störf og verðmæti í Strandabyggð.  Kvótinn er eyrnamerktur Strandabyggð og hefur það verið ítrekað af Byggðastofnun.

 

Nú liggur niðurstaðan fyrir.  Vissa úrgerð ehf og samstarfsaðilar urðu fyrir valinu.  Þá þurfum við að leggja mismunandi skoðanir okkar til hliðar og styðja við þann hóp, sem nú tekur við þeirri ábyrgð sem Byggðastofnun útdeilir með þessum kvóta og við verðum að hvetja þau áfram og vona að þeim gangi vel að skapa öll þau störf sem um ræðir, en samkvæmt gögnum Byggðastofnunar mun vinnslan skapa 13 störf.  Einnig er mikilvægt að verkefnið skapi þau verðmæti sem þessi kvóti felur í sér fyrir sveitarfélagið.  Um það snýst jú málið, að efla sveitarfélagið.

 

Félag fagfólks í frístundaþjónustu

Þrír stjórnarmenn Félags fagfólks í frístundaþjónustu heimsóttu Hólmavík sl. föstudag.  Sveitarfélagið bauð þeim hingað í þeim tilgangi að kynna fyrir þeim með hvaða hætti við hér í Strandabyggð stöndum að uppbyggingu félagsmiðstöðvar og frístundastarfs barna og unglinga.  Hingað til höfum við verið í þeirri trú að hér sé unnið af heilhug og fagmennsku að þeim málum, en félaginu hafði engu að síður borist ábending frá foreldrafélgi grunnskólans um að hér væri ekki nægilega faglega staðið að málum.  Áttum við mjög góðan dag saman, þar sem við heimsóttum grunnskólann, Ozon og íþróttamiðstöðina auk þess sem við fengum okkur súpu á Galdrasafninu, sem klikkar aldrei.  Þessi heimsókn er vonandi upphafið að frekari samvinnu við Félag fagaðila í frístundaþjónustu.

 

Framundan er síðan fundur sveitarstjórnar og foreldrafélagsins, þar sem samskipti og samvinna verða til umræðu.  

 

Viðgerðir á grunnskólanum

Verkinu miðar vel og þessa dagana eru margir verktakar að störfum. Margt hefur tekið lengri tíma en áætlað var og erfitt er oft að fá aðföng á tíma  En, allt stefnir þetta í rétta átt.  

 

Þó það hjálpi okkur ekkert, þá erum við alls ekki ein í þessum vanda.  Nú hefur vandi Kópavogsbæjar verið í umræðunni, en þar er komin upp mygla í skóla í byggingu, Kársnesskóla sem má lesa um hér: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2024-04-07-baejarstjori-kopavogsbaejar-telur-ad-rett-hafi-verid-brugdist-vid-grafalvarlegri-stodu-karsnesskola-409525 .

Í tengslum við fréttir af því, hefur verið rifjað upp að helmingur sveitarfélaga í landinu glímir við mygluvanda í skólum.  Ástæður þessa vanda um allt land eru margvíslegar og ekki endilega tengdar aldri bygginga, að því er kemur fram í frétt á RÚV sem fylgir hér síðar, en þar segir m.a.: "Ástæður eru alls kyns eins og efnisval, óvandaðar framkvæmdir, skortur á viðhaldi ".  Þá er þekkt að víða skortir loftræstikerfi, eins og t.d. hér á Hólmavík, en slíkt kerfi hefur aldrei verið í grunnskólanum

 

https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-04-07-mygladir-skolar-i-helmingi-sveitarfelaga-landsins

 

Strandanefndin

Nú er starfandi nefnd sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra skipaði, Strandanefndin.  Nefndin, sem hittist vikulega ef hægt er, hefur unnið vel, hitt alþingismenn, fulltrúa fyrirtækja og stofnana og byrjað er að stilla upp sviðsmyndum sem byggja m.a. á hugsanlegum sameiningum sveitarfélaga.  Lögð er áhersla á að koma fram með skýrar tillögur og óskir til stjórnvalda, og auka þannig líkurnar á aðgerðum og fjárhagslegum stuðningi. 

 

Katrín Jakobsdóttir kom hingað í heimsókn í vikunni fyrir páska, og hitti oddvita og kjörna fulltrúa sveitarfélaganna sem um ræðir og aðra sem koma að vinnu nefndarinnar, auk þess að skoða Vissu útgerð ehf, Heilsugæsluna, grunnskólann og Galdur brugghús. 

 

Þessi nefnd er mjög mikilvæg fyrir Strandir og okkur í Strandabyggð.  Við erum og verðum þjónustukjarni svæðisins og í allri þeirri uppbyggingu sem við sjáum fyrir okkur; í ferðaþjónustu, sjávarútvegi eða öðrum atvinnugreinum, verðum við að muna að passa upp á að halda í og styrkja alla helstu innviði svæðisins, eins og heilbrigðisþjónustu, samgöngur o.s.frv.

 

Það eru mörg önnur mál í gangi í Strandabyggð þessa dagana.  Úthlutun styrkja úr Sterkum Ströndum er t.d. á næsta leyti og það verður forvitnilegt að sjá þar hvaða nýsköpun í atvinnu- og menningarlífi fær brautargengi.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Oddviti

 

 

 

 

 

 

 

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón