A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan ađ baki

Ţorgeir Pálsson | 29. október 2023

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Tíminn líður hratt og enn ein vikan er liðin.

Sterkar Strandir

Þessi vika byrjaði á samráðsfundi með fulltrúum verkefnastjórnar Sterkra Stranda og verkefnastjóra og var þar farið yfir þau verkefni sem fram komu sem áhersluefni á íbúafundi í upphfi verkefnisins.  Mörg þessara verkefna eru afgreidd, önnur í farvegi en eitt og eitt er enn á byrjunarreit.  Og það er gjarnan þannig að sum þessara verkefna, eins og t.d. samgöngubætur og stærri innviðamál, eru í raun á borði stjórnvalda en ekki sveitarfélagsins.  Hlutverk sveitarfélagsins gagnvart þessum verkefnum er þá frekar að þrýsta á stjórnvöld um aðgerðir og sú vinna er stöðugt í gangi af hálfu sveitarfélagsins

Í byrjun nóvember tekur stjórn Byggðastofnunar fyrir beiðni Strandabyggðar um áframhaldandi aðild að Brothættum byggðumk og við skulum vona að niðurstaðan verði okkur hliðholl.  Á bak við þessa um sókn er amk samstíga sveitarstjórn og samfélag, því öll sjáum við án efa kostina við verkefnið.

Fjárhagsáætlanagerð

Unnið var áfram að gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2024 og næstu þrjú ár þar á eftir.  Sveitarstjórn hittist á vinnufundi í vikunni og ræddi áherslur næsta árs.  Sem fyrr er grunnskólinn þar ofarlega á blaði, en einnig leikskólalóðin, áframhaldandi malbikun og vinna við að bæta ásýnd bæjarins. 

Við stöndum frammi fyrir talsverðri innviðaskuld, sem við munum vinna á smátt og smátt, en það mun taka tíma og kalla á umtalsvert fjármagn.  Það er því mikilvægt að við skipuleggjum það verkefni vel og forðumst of mikla skuldsetningu sveitarfélagsins, nú þegar við erum á réttri leið hvað fjárhagslega uppbyggingu sveitarfélagsins varðar.

Heilbrigðisþjónusta og þjónustukjarni fyrir aldraða

Það gleymist oft í daglegu tali, en við hér í Strandabyggð eru það lánsöm að hér er nokkuð gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu.  Hér er ávallt læknir og mjög gott starfsfólk heilbrigðisstofnunarinnar.  En við skulum samt hafa það hugfast, að stöðugildum hefur fækkað á undanförnum árum og það er óásættanlegt.  Hér er ekki hjúkrunarfræðingur að staðaldri, meinatæknir eða full mönnuð heilbrigðisstofun.  Sveitarstjórn kom þessari stöðu á framfæri á nýliðnu Fjórðungsþingi.  Þessa staðreynd ræddi ég einnig við heilbrigðisráðherra á fundi okkar í vikunni.  Hann tók vel í okkar sjónarmið og við munum þrýsta á leiðréttingu hvað þetta varðar.

Við ræddum einnig þá hugmmynd, að í nýju íbúðarhverfi í Brandskjólum, verði þjónustukjarni fyrir aldraða.  Ráðherra leist mjög vel á þessa hugmynd og fellur hún vel að hugmyndafræðinni sem birtist í verkefninu „það er gott að eldast“  Upplýsingar um það verkefni má finna hér en þarna er um að ræða samþættingu margs konar þjónustu í þágu eldra fólks.  Og hér í Strandabyggð er öll grunnþjónusta til staðar til að styðja við svona þjónustukjarna;  heilbrigðisþjónusta, góð íþróttaaðstaða og sundlaug, öflugt félagsstarf eldri borgara o.s.frv.  Við munum vinna áfram með þessa hugmynd og getum sagt nánar frá henni á síðari stigum.

Ýmislegt annað

Það var ýmislegt annað áhugavert í vikunni;  kynningarfundur um sorpbrennslustöðvar, umræða um nýtingu sláturhússins og atvinnutækifæri í tengslum við það, við auglýstum eftir hugmyndingum um réttarstæði í Kollafirði, auglýst var eftir áhugasömum aðilum um snjómokstur í sveitarfélaginu ofl.

Kveðja

Þorgeir Pálsson

Oddviti

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón