A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Vikan að baki

Þorgeir Pálsson | 29. apríl 2023


Kæru íbúar Strandabyggðar,

Það er komin helgi og enn ein vikan að baki. Og þessi var alls ekki viðburðalaus, frekar en flestar aðrar. Mín vika byrjaði reyndar með veikindum, þó svo síminn og vinnutengd málefni létu það sig engu skipta.  Það voru verk að vinna.


Grunnskólinn
.  Hingað var allt í einu kominn hópur iðnaðarmanna á vegum fyrirtækisins Litla Kletts, að hefja framkvæmdir í grunnskólanum.  Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti samhljóða þann 18.4 sl. að ganga til samninga við Litla Klett um niðurrif á gólfefnum, klæðningu og múr þar sem þurfti í grunnskólanum.  Það stóð reyndar ekki til að þeir kæmu á mánudag, en stundum þarf einfaldlega að bregðast hratt við og fyrirtækið sá fram á að þurfa að koma núna, ella myndi það missa starfsmenn í sumarleyfi.  Og það er skemmst frá því að segja að mikið hefur áunnist í yngri hlutanum.  Allt gólfefni farið, vissar innréttingar, og nú er hægt að fara að hanna þennan hluta að nýju.  Starfsmenn Strandabyggðar unnu frábært verk við að tæma stofur, fjarlægja og farga rusli, dúk og múrbrotum ofl.  Vinna við uppbyggingu grunnskólans er hafin og það er mikið gleðiefni.


Wilson Skaw
.  Íbúar hafa fylgst með þróun mála út um gluggana hjá sér og verður að segjast að atburðarrásin hefur oft verið spennandi, sérstaklega ef frásagnir og umræða í fjölmiðlum væru teknar með í myndina.  Frásagnir fjölmiðla voru þó ekki alltaf í takt við sannleikann en þannig er það bara.  Það stóð t.d.aldrei til að skipið leggðist að bryggju hér, þótt því hafi verið haldið fram í fjölmiðlum.  Landhelgisgæslan óskaði eftir því í vikunni að fá að draga skipið inn fyrir hafnarsvæði Strandabyggðar og þar með dróst sveitarfélagið beint inn í málið. Þessu fylgir mikil ábyrgð og nauðsynlegt að huga vel að öllum hagsmunum sveitarfélagsins.  Óskað var eftir aðstoð Umhverfisstofnunar og lögmaður sveitarfélgsins var ræstur út.  Í dag eru öll ábyrgðarmál á hreinu, björgunaráætlun hefur verið samþykkt og innan vikutíma eða svo ætti skipið að geta farið héðan í togi til Akureyrar.  Vonandi gengur þessi áætlun eftir.   Ég verð hins vegar að viðurkenna að þrátt fyrir allt, þá hefur verið gaman að sjá Freyju, þetta tignarlega skip okkar allra, hér rétt fyrir utan á morgnana og í ljósadýrðinni á kvöldin. 

 

Íbúafundur.  Mjög góður og fjölmennur íbúafundur um málefni grunnskólans var haldinn í vikunni.  Þar voru fulltrúar EFLU með kynningu og svörðuðu spurningum fundarmanna.  Síðan sat sveitarstjórn fyrir svörum.  Ég hef þá trú að fundurinn hafi verið upplýsandi og staðfest þá ætlan sveitarstjórnar að hefja endurgera grunnskólann eins og hægt er, enda staðfesti EFLA það í ársbyrjun að skólinn væri viðgerðarhæfur.  Það er þó enn margt óljóst og mikil vinna óunnin, en við erum á réttri leið.


Ársreikningur
síðasta árs ofl.  Á þessum tíma leggja sveitarfélög fram ársreikninga sína fyrir undangengið ár.  Það hefur þó dregist hjá okkur sem og öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum, þar sem illa hefur gengið að gera upp síðasta ár hjá Byggðasamlagi Vestfjarða um málefni fatlaðra, BS Vest.  Vonandi klárast þetta þó á næstu dögum.

Sumarvinna.  Verkefni sumarsins eru að skýrast sem og mönnun í þau.  Það er alltaf púsluspil sem oftast gengur þó upp á endanum og við vonum að svo verði einnig nú.

Skíðafélag Strandamanna.  Vikunni lauk hjá mér á uppskeruhátíð skíðafélagsins, en þá hafði ég reyndar skipt um hlutverk og var þar sem stoltur farðir tveggja krakka sem finnst fátt skemmtilegra en að vera á gönguskíðum með frábærum hópi krakka og þjálfara hjá Skíðafélagi Strandamanna. Þarna var farið í leiki, reipitog, boðið upp á kökur og grillaðar pylsur, veitt verðlaun fyrir ástundun ofl.  Jákvæðni og samstaða í hverju orði!

 

Góða helgi kæru íbúar,  njótum lífsins í Strandabyggð!

Kveðja

Þorgeir Pálsson

Oddviti

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón