A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Verkefni sveitarstjóra

| 31. janúar 2020

Janúar einkenndist af undirbúningi og upphafi verkefna, eins og gjarnan gerist í upphafi árs.  Ég hef fundað með nær öllum forstöðumönnum, farið yfir verkefni á fjárhagsáætlun og helstu verkefni hverrar deildar þar fyrir utan, því það er alltaf svo að hver deild eða stofnun sveitarfélagsins er ávallt með mun meira í gangi en það sem kemur fram í fjárhagsáætlun.  Ég mun svo fylgja þessum verkefnum eftir með mánaðarlegum forstöðumannafundum og eins fundum með hverjum forstöðumanni fyrir sig. 

Í janúar var líka gengið frá Starfsáætlun Strandabyggðar 2020, sem nú er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins  Starfsáætlunin er eins konar leiðarvísir fyrir starfsmenn sveitarfélagsins og aðra sem vilja kynna sér starfsemina.


Umhverfisátakið

Sveitarstjórn samþykkti gerð bílastæðis á Skeiðinu fyrir gangfærar vinnuvélar og ökutæki.  Nú er verið að klára reglur og ramma utan um notkun á þessu stæði og eftir það verður hægt að bjóða verktökum að nýta sér þetta stæði undir vinnuvélar og farartæki. 

40 bílar!

Það er gaman að segja frá því, að á síðasta á voru fjarlægð 40 farartæki úr þorpinu, af Skeiði og úr sveitinni.  Árið 2018 voru þetta 26 farartæki.  Þar að auki hefur Sorpsamlagið og eigendur sjálfir fjarlægt mikið að alls konar úrgangi, brotajárni og drasli, sem ekki var norhæft eða þörf fyrir lengur.  Þetta sýnir vel að umhverfisátakið skilar árangri.  Þegar vorar, einbeitum við okkur að gámasvæðinu og geymslusvæðinu og tökum betur til þar.


Hitaveitan

Það er mín von að álagsprófun geti hafist í næsta mánuði, þar sem samningar við landeigendur eru á lokastigi.  Álagsprófunin, sem mun standa yfir í um tvo mánuði, svarar síðan með afgerandi hætti vonandi, hvort raunhæft er að ráðast í uppbyggingu hitaveitu eða ekki.

Brothættar byggðir

Strandabyggð gekk nýlega í verkefni Byggðastofnunar; Brothættar byggðir.  Þetta verkefni á eftir að beina til okkar styrkjum í mótun og uppbyggingu verkefna, hugsanlega stofnun fyrirtækja og aukins samstarfs íbúa um að efla það atvinnulíf sem fyrir er í Strandabyggð.  Það verður gott að fá íbúa með okkur í þetta verkefni!

Veðrið og menningin

Veðrið er alltaf umræðuefni og í janúar hefur það mótað umræðuna og starfsemi sveitarfélagsins talsvert.  Fundir hafa frestast, skólaakstri og skólahaldi var frestað í nokkrar daga og margt annað pirrandi. En það var líka nokkuð um viðburði á sama tíma og við búum svo vel í Strandabyggð að hér er mikið og öflugt menningarlíf sem vegur sannarlega upp á móti vindinum. 

Að auki er ótrúlega mikið um ýmis verkefni, bréfaskriftir og samskipti sem gera hvern dag ólíkan þeim fyrri.  Dæmi um verkefni eru: endurskoðun gjaldskrár hafnarinnar, skipulagning á fundahaldi sveitarstjórnar, umsókn til Loftslagssjóðs, Brothættar byggðir, fundir í Brunavörnum Dala, Reykhóla og Stranda, umræða um byggðakvóta, Vegagerðin/vegamál ofl. ofl.


Ég hvet íbúa til að hafa samband með sínar hugmyndir, ábendingar og vangaveltur.  Það er enginn viðtalstími, bara mæta eða hringja.  thorgeir@strandabyggd.is eða 899-0020

Góða helgi!

 

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón