A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Verkefni í Strandabyggđ

Ţorgeir Pálsson | 07. október 2022

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Það er mikið að gerast í Strandabyggð þessa dagana. 

Réttir

Eins og flestir sjálfsagt vita, voru tvær nýjar réttir teknar í notkun í september, Krossárrétt og Staðardalsrétt.  Þar unnu bændur í Strandabyggð mikið og gott verk og undirstrikuðu mikla framsýni, fagþekkingu og samvinnu.  Báðar hafa þegar sannað gildi sitt og menn hæstánægðir með útkomuna.

Sundlaugin

Meirihluti sveitarstjórnar tók þá ákvörðun á síðasta sveitarstjórnarfundi, að gera breytingar á framkvæmdaáætlun þessa árs, á þann hátt að hætt var við að byggja nýjan inngang á Grunnskólann en í stað þess verður gamli inngangurinn rifinn og honum lokað og fjármagn fært í staðinn í tækjakaup fyrir sundlaugina.  Því miður er ástand tækja í sundlauginni afar bágborið og hefur verið í áraraðir.  Í sumar var ástandið oft sérlega erfitt og má þar helst nefna ólag á hitastýringu, sveiflur í klórmagni ofl.  það er von okkar að nú skapist meira rekstraröryggi og þar með minni óþægindi fyrir gesti.  Sundlaugin og íþróttamiðstöðin eru okkar helsta afl í eflingu lýðheilsu og samveru íbúa.  

Leikskólinn

Það stóð til að ráðast í framkvæmdir á leikskólalóðinni á árinu og var verkefnið auglýst snemma í vor.  Enginn sótti þó um og því erum við á byrjunarreit.  Og þó ekki, því komin er af stað hugmyndavinna með starfsfólki leikskólans um tillögur að nýrri lóð, og framundan eru hugarflugsfundir með foreldrum og krökkunum í leikskólanum.  Markmiðið er að endanlegar hugmyndir liggi fyrir í lok október og þá verður verkefnið auglýst aftur.  Framkvæmdir hæfust svo í vor.  Í þessu sem og svo mörgu öðru, er mikilvægt að vita hvað þarf að gera áður en framkvæmdir hefjast.

Hótel, hleðslustöðvar, skipulagsmál, húsnæðismál ...

Eins og fram hefur komið, eru viðræður í gangi við aðila sem vilja reisa hótel á Hólmavík.  Þær viðræður ganga vel.  Einnig er rætt við aðila sem vilja setja upp hleðslustöðvar hér og er nú verið að vinna tillögur í þeim efnum.  Þá er mikilvæg vinna við endurskoðun Aðalskipulags Strandabyggðar í gangi og í þeirri vinnu er m.a. rætt um húsnæðismál og þá húsnæðisþörf sem blasir við í Strandabyggð.  Þar horfum við á Brandskjól sem framtíðaríbúðasvæði.  Einnig þarf að huga að framboði á iðnaðarlóðum, við ætlum að ræða endurskipulagningu á Tanganum við útgerðarmenn ofl. ofl. 

En þó svo umræðan sé víðfem, þá gerist þetta ekki allt í einu.  Það þarf hins vegar að hugað að þessu öllu núna, þannig að við getum fært þessa framtíðarsýn inn í næsta Aðalskipulag.

Hvernig Strandabyggð viljum við?  Í leit að svarinu, þurfum við að horfa til næstu áratuga og það er ótrúlega spennandi vinna.  Ég hvet alla til að hugleiða með sjálfum sér og öðrum; hvernig samfélag viljum við sjá?

Ég hvet einnig alla íbúa og aðra sem hafa áhuga á þróun og uppbyggingu í Strandabyggð, að senda okkur póst á strandabyggd@strandabyggd.is eða hafa samband við mig í síma 899-0020 og/eða á netfangið thorgeir@strandabyggd.is  Svo er líka alltaf gaman að fá fólk í heimsókn að Hafnarbraut 25.  Þið eruð velkomin!
 

Kveðja,

Þorgeir Pálsson

oddviti

 

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón