A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

„Sterkar Strandir“ – íbúaţing viđ upphaf byggđaţróunarverkefnis

Salbjörg Engilbertsdóttir | 19. júní 2020
« 1 af 4 »

Tækifæri Strandabyggðar til framtíðar, felast í sterkri náttúru, magnaðri þjóðtrú og „kyrrðarkrafti“, sem gestir og íbúar geta notið. Sækja þarf fram með sameiginlegri markaðssetningu, ímyndarsköpun og vöruþróun. Þetta voru skilaboð íbúaþings sem haldið var á Hólmavík, dagana 12. og 13. júní. Þar mættu liðlega 60 manns og réðu þátttakendur því hvað um var rætt og forgangsröðuðu málefnum eftir mikilvægi.

Íbúaþingið markar upphafið að samtali við íbúa Strandabyggðar í verkefni Byggðastofnunar „Brothættar byggðir“ og gáfu heimamenn verkefninu heitið „Sterkar Strandir“. Strandabyggð er tólfta byggðarlagið þar sem unnið er eftir þessu verklagi Byggðastofnunar. 

Auk Byggðastofnunar standa sveitarfélagið Strandabyggð, Vestfjarðastofa og íbúar að verkefninu og er verkefnisstjórn skipuð fulltrúum þessara aðila. Ráðinn hefur verið verkefnisstjóri, Sigurður Líndal Þórisson. Þinginu stýrði Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI.

Virk þátttaka íbúa er einn af hornsteinum verkefnisins „Brothættar byggðir“ og mun verkefnisáætlun til allt að fjögurra ára, byggja á skilaboðum þingsins.


Það var hugur og kraftur í Strandamönnum á þinginu, sem sjá fjölmörg tækifæri til að sækja fram og snúa við langvarandi fólksfækkun. En það þarf umfram allt að láta umheiminn vita af þeim gæðum á sviði náttúru, menningar og mannlífs, sem Strandabyggð hefur uppá að bjóða.


Auk hugmynda um nýsköpun tengda sérstöðu í náttúru og þjóðtrú, var rætt um fjölbreytni í atvinnulífi, sveitamarkað, eflingu smábátaútgerðar, krabbaveiðar, fiskeldi á landi og óstaðbundin störf, sem reynslan af Kórónuveirufaraldrinum sýnir að er raunhæfur kostur.  Ferðaþjónusta var fólki ofarlega í huga, með áherslu á heilsutengda ferðaþjónustu, t.d. endurhæfingarsetur og að Strandabyggð verði áfangastaður, en ekki stoppistöð fólks á leið annað. 


Umhverfismál voru rædd, allt frá því að malbika fleiri götur og fara í tiltekt á Hólmavík, til þess að athuga með stofnun þjóðgarðs, eða svæðisgarðs, í samstarfi við nágranna og nýta tækifæri tengd Earth Check umhverfisvottun Vestfjarða.

Fjallað var um menntamál í víðum skilningi og að góðir skólar séu lykill að búsetuvali. Fram kom ánægja með skólastarf á Hólmavík og m.a. rætt um tækifæri tengd kennslu í gegnum netið og sérhönnuð styttri námskeið. Viðruð var hugmynd um samfélagssetur og rætt um að styrkja svæðið enn frekar sem útivistarparadís og skoða sérstaklega sjósport, sem krakkar í grunnskólanum væru spennt fyrir.


Spurt var hvernig mætti laða að nýja íbúa, sérstaklega ungt fólk. Til þess þurfi íbúðarhúsnæði og nýja búsetukosti fyrir aldraða, til að koma hreyfingu á fasteignamarkaðinn. Einnig að ráða menntað ungt fólk í vinnu og bjóða aðstöðu fyrir þá sem vilja starfa sjálfstætt. Stungið var upp á leiðum til að taka á móti nýjum íbúum, hvaðan úr heiminum sem þeir koma.

Kallað var eftir uppbyggingu á Innstrandarvegi og veginum um Langadalsströnd. Bæta þurfi GSM samband og nettengingar og ljósleiðaravæða Hólmavík, enda liður í að skapa tækifæri fyrir fjarvinnu af ýmsu tagi. Strandabyggð er fámennt og landstórt sveitarfélag og var rætt um tilvist sveitarfélagsins, hvort það hafi efni á að vera til og möguleika á samstarfi eða sameiningu við önnur sveitarfélög.

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón