A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Skýrsla EFLU um grunnskólann á Hólmavík

Þorgeir Pálsson | 03. febrúar 2023
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Hér má finna skýrslu EFLU þar sem fram koma helstu niðurstöður varðandi ástand grunnskólans.  Sveitarstjórn hvetur íbúa til að kynna sér skýrsluna og ef einhverjar spurningar vakna, ekki hika við að hafa samband.

Í stuttu máli má segja að báðar skólabyggingarnar eru viðgerðarhæfar. Gamli hlutinn er þó mun verr farinn en sá yngri.  Við skulum hafa í huga að eldri hlutinn var reistur árið 1947 og sá yngri árið 1982.  Raki fannst í gólfi og veggjum í báðum byggingum, mikið tréverk og gólfefni þarf að fjarlægja, endurnýja alla glugga nema þá sem eru nýlegir, skoða drenlagnir, frárennsli, lagnakerfi almennt, loftun þaks og setja upp loftræstingu, svo eitthvað sé nefnt.

Sveitarstjórn hefur ákveðið að leita eftir kostnaðarmati frá EFLU sem og tveimur öðrum verktakafyrirtækjum.  Að auki er leitað til sérfræðinga hvað varðar faglega skoðun á niðurstöðum skýrslunnar.  Við munum fá nánari upplýsingar og kostnaðarmat á næstu vikum og þá verður sagt frá næstu skrefum.  Lítið annað liggur fyrir að svo stöddu.  Búið er að kynna helstu niðurstöður sérstaklega fyrir starfsmönnum og foreldrum.

Hins vegar munum við nú leggja megin áherslu á  að huga að starfsfólki og nemendum skólans.  Það er ljóst þessi snöggu umskipti og óvissa um framtíð skólans, valda mörgum áhyggjum og er það vel skiljanlegt.  Við munum því endurskoða núverandi kennslufyrirkomulag, með það í huga að: bæta starfsaðstöðu og líðan starfsmanna og nemenda, draga úr álagi, draga úr akstri milli starfsstöðva og efla samverustundir.  þessi vinna er komin af stað.

Sveitarstjórn Strandabyggðar vill þakka og hrósa öllum starfsmönnum skólans og sveitarfélagsins sem með litlum fyrirvara gerðu kennslu mögulega á þremur stöðum í þorpinu.  Eins viljum við þakka foreldrum og öðrum sem hlut eiga að máli, fyrir skilning og stuðning.  En umfram allt viljum við þakka og hrósa krökkunum, sem hafa sýnt þessu mikinn skilning og mikla þolinmæði frá upphafi.  Við vitum samt að þetta er farið að reyna á alla og við munum taka á því, sem fyrr segir.

Áfram Strandabyggð!

Kveðja 
Þorgeir Pálsson
Oddviti

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón