A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Skólastarf Grunn- og Tónskólans 2011-2012 hafið

| 25. ágúst 2011
Nýr og glæsilegur körfuboltavöllur. Næst eru það körfurnar! Myndir IV.
Nýr og glæsilegur körfuboltavöllur. Næst eru það körfurnar! Myndir IV.
« 1 af 4 »
Þessa vikuna eru nemendur í Grunn- og Tónskólanum á Hólmavík að stíga sín fyrstu lærdómsskref skólaárið 2011-2012. Skólasetning fór fram föstudaginn 19. ágúst 2011 þar sem Bjarni Ómar Haraldsson skólastjóri fór yfir skólastarfið framundan. Heilmiklar breytingar hafa verið gerðar á húsnæði og starfsemi skólans fyrir komandi skólaár 2011 - 2012 eins og sjá má í setningarræðu Bjarna Ómars hér að neðan. Sveitarfélagið Strandabyggð óskar nemendum og starfsfólki Grunn- og Tónskólans á Hólmavík gleði- og innihaldsríkra skóladaga.

Ræða skólastjóra, Bjarna Ómars Haraldssonar, við skólasetningu 19. ágúst 2011:

Kæru nemendur, starfsfólk, foreldrar og aðrir gestir.


Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin á skólasetningu Grunnskólans á Hólmavík. Enn á ný er farið að hausta og nýtt skólaár framundan. Það er gaman að sjá ykkur öll og vonandi hafa allir haft það gott í sumar. Ég vil nota þetta tækifæri og bjóða alla nemendur velkomna í skólann, sérstaklega þá nemendur sem eru að hefja skólagöngu sína í dag. Þá vil ég bjóða alla foreldra innilega velkomna og sérstaklega foreldra nýrra nemenda sem eiga eftir að bætast við þann góða hóp foreldra sem hefur átt í góðu samstarfi við skólann. Í fyrsta bekk eru að koma fimm nýjir nemendur sem nú hafa sagt skilið við fyrsta skólastigið á Leikskólanum Lækjarbrekku og nýjir nemendur eru að bætast við í 3. og 10. bekk. Í vetur verða nemendur Grunnskólans því 80 í fimm bekkjardeildum. Af þessum 80 nemendum hafa 54 þegar skráð sig í nám við Tónskólann. Ég vil  nota tækifærið og hvetja þá sem eiga eftir að ljúka skráningu við Tónskólann að gera það í dag en umsóknareyðublöð má nálgast hjá kennurum Grunn- og Tónskólans að loknum skólaslitum. Kennarar Tónskólans munu síðan hefja stundaskrárgerð eftir helgina og afhenta nemendum upplýsingar um hvenær þeir eiga tíma. Kennsla við Tónskólann hefst síðan mánudaginn 29. ágúst.


Breytingar á skólastarfi
Á síðasta vetri fórum við í gegnum umræðu um breytingar á skólastarfinu sem nú eru að koma til framkvæmda. Þessar breytingar munu snerta okkur öll með einhverjum hætti en mismikið þó. Hugmyndirnar fengu góðan hljómgrunn meðal þeirra aðila sem komu að því að fjalla um breytingarnar með formlegum hætti en einnig var mikið ánægjuefni hvað foreldrar tóku þessum hugmyndum vel. Síðustu vikur og mánuðir hafa síðan verið notaðir til að hnýta lausa enda og færa hugmyndirnar af blaði yfir í raunverulegt skólastarf.


Helsta breytingin er sú að nú hefja og ljúka allir nemendur skóladeginum á sama tíma en skóli hefst klukkan 8:10 og honum lýkur klukkan 14:00. Það ætti að skapa mikilvægt svigrúm til góðra verka og létta álagi af nemendum.


Breyting á skólahúsnæði - hádegismatur á Café Riis
Húsnæðið okkar hefur tekið nokkrum breytingum og hafa starfsmenn Áhaldahúss og trésmiðir á staðnum unnið við skólahúsnæðið í sumar. Stærsta einstaka verkefnið, sem þó kom óvænt upp, var endurnýjun á skolpi og fráveitukerfi hússins en það var komið mjög til ára sinna og orðið ónýtt. Þá hefur vinnuaðstaða kennara og stjórnenda skólans verið bætt til muna og kennslustofur verið aðlagaðar að nemendahópum. Tónskólinn hefur nú fengið varanlegra húsnæði þar sem áður var mötuneyti skólans. Þar er nú aðstaða til tónlistarkennslu í tveimur kennslurýmum og þriðja rými Tónskólans er nú þar sem sérkennslan var áður. Til þess að koma aðstöðu Tónskólans í viðunandi horf var farin sú leið að færa mötuneyti skólans og munu nemendur snæða hádegismat á veitingastaðnum Café Riis sem áfram sér um að útbúa og framreiða matinn. Nemendur munu því fara fótgangandi frá skólanum að veitingastaðnum til að borða hádegisverð kjósi þeir svo. Öllum nemendum sem eru í mat og enda kennslustundir í íþróttahúsinu fyrir hádegi verður þó ekið með skólabílnum á Café Riis. Við þökkum eigendum Café Riis fyrir góðar undirtektir við þessa breytingu og vonumst eftir að hún eigi eftir að vera til góðs fyrir nemendur sem við hvetjum til að nýta sér þessa þjónustu. Á skólalóðinni hefur síðan verið malbikaður glæsilegur körfuboltavöllur sem vonandi verður tilbúinn til notkunar í næstu viku en uppsetningu á körfum er ekki lokið.


Samskipti heimilis og skóla
Breytingar á skólastarfi geta verið erfiðar fyrir marga, sérstaklega þegar verið er að breyta áralöngum hefðum. Þá er mikilvægt að líta jákvæðum augum á það sem framundan er, gefa breytingunum tíma til að þróast og starfsfólki tíma til að sníða vankanta af þar sem við á. Áður en við vitum af eru svo breytingarnar orðnar að hefð sem við viljum ekki hagga á nokkurn hátt. Það er mikilvægt að leyfa skólastarfinu smá saman að þróast og ég er ekki í nokkrum vafa um að með samhentu átaki mun fara fram öflugt og gott skólastarf í vetur. Á undanförnum árum hafa kennarar skólans verið með fastan viðtalstíma í stundaskrá. Þessir viðtalstímar hafa nýst illa og því verða ekki fastir viðtalstímar í vetur. Ég vil samt nota tækifærið og leggja áherslu á það við foreldra að þeir hafi samband við skólann og leggi skilaboð fyrir kennara um að hafa samband sem þeir munu gera við fyrsta tækifæri. Samráð milli foreldra og kennara um námið og skólagönguna er einn mikilvægasti þátturinn í því að námið gangi vel fyrir sig. Foreldrar eru því eindregið hvattir til að hafa samband strax og muna að ekkert er svo lítið atriði að það skipti ekki máli.


Sérfræði- og sérkennsluþjónusta
Síðastliðinn vetur var unnin mikilvæg úttekt á sérfræði- og sérkennsluþjónustu skólans. Sú vinna leiddi meðal annars til þess að nemendaverndarráð skólans hefur fengið nýtt og stærra hlutverk sem felur í sér að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur og foreldra þegar kemur að sérfræðiþjónustu, sértækum námsúrræðum og stuðningi í námi. Þannig sér nemendaverndarráð um skipulagninu og sérkennslu skólans og skiptingu tíma á milli nemenda. Samþykktar voru verklagsreglur sem tryggja eiga að sérfræðiþjónusta og sérkennsla sé eins og best verður á kosið. Í gangi er starfshópur á vegum sveitarfélaganna á Ströndum og í Reykhólasveit sem er að meta þörfina fyrir sérfræðiþjónustu og hvernig sérfræðiþjónustu skólanna verður háttað í framtíðinni. Á vormánuðum sagði sveitarfélagið upp samningi við þá aðila sem sinnt hafa sérfræðiráðgjöf við skólann og er þeim Elmari og Ásþóri þakkað kærlega fyrir samstarfið. Meginmarkmið starfshópsins nú er að tryggja aðgengi að sérfræðiþjónustu sem hentar hverju tilviki fyrir sig þannig að ráðgjöf og eftirfylgni sé ávallt í höndum vel valinna sérfræðinga á viðkomandi sérsviði.


Skólanámskrá á vefsíðu skólans
Samkvæmt grunnskólalögum skal árlega gefa út skólanámskrá í hverjum skóla og er skólastjóri ábyrgur fyrir því að hún sé unnin og kynnt. Frá haustinu 2010 hefur staðið yfir endurskoðun á námskránni þar sem markmiðið hefur verið tvíþætt, annars vegar að uppfæra almennar upplýsingar í þá átt sem skólastarfið hefur verið að þróast á undanförnum árum og hinsvegar að gera upplýsingar um skólastarfið aðgengilegri fyrir alla hópa skólasamfélagsins. Skólanámskráin er mikilvæg fyrir þá sem taka þátt í og vilja fræðast um starfshætti innan Grunnskólans og skólastarfið almennt. Á síðasta skólaári unnu kennarar að ýmsum úttektum sem við koma námsmati, heimanámi, lestri og ritun. Of langt mál væri að fara yfir alla þessa þætti hér en þessu er flestu gerð góð skil í skólanámskránni sem innan skamms verður birt á vefsíðu Grunnskólans.


Starfsmannahópurinn veturinn 2011 - 2012
Í upphafi vetrar munu 22 frábærir starfsmenn starfa við Grunn- og Tónskólann á Hólmavík. Ég vil með stolti bjóða þá alla hjartanlega velkomna til starfa. Ég er afar ánægður með að Hildur Guðjónsdóttir var ráðin aðstoðarskólastjóri í byrjun júní en einnig höfum við fengið góða viðbót við þann frábæra starfsmannahóp sem fyrir er í skólanum. Þetta eru þau Alda Guðmundsdóttir stuðningsfulltrúi sem einnig starfar við Skólaskjólið, Borgar Þórarinsson tónlistarkennari og Dagrún Magnúsdóttir sem mun kenna listgreinar í 50 % starfi.


Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar tókst ekki að ráða í lausa stöðu tungumála- og umsjónarkennara í 9. og 10. bekk. Hildur Guðjóns mun því taka umsjón í 9. og 10. bekk en 1. nóvember mun síðan Árný Huld Haraldsdóttir bætast í hópinn þegar hún kemur í blandað starf við stuðning og stundakennslu í dönsku. Vonandi tekst okkur að ná til okkar góðu fólki á næstu dögum til að uppfylla þá þörf sem skólinn er í þegar kemur að stuðningúrræðum við nemendur. Þetta er gott tækifæri til að hvetja alla þá sem vantar vinnu í vetur að láta í sér heyra. Á starfsdögum í þessari viku hefur komið í ljós að starfsmannahópurinn sem nú er til staðar er þéttur og kraftmikill sem segir mér að veturinn framundan muni verða góður þrátt fyrir að skólastarfið hefjist undirmannað.


Heimsókn frá Danmörku
Segja má að skólastarfið hafi farið í fullan gang í upphafi þessarar viku þegar fimmtán drengir frá Danmörku og fimm farastjórar þeirra komu til landsins til að taka þátt í dagskrá sem skipulögð er af skólanum, nemendum í 10. bekk og útskriftarnemendum frá í vor og foreldrum þeirra. Með þessari heimsókn frá Danmörku líkur seinni áfanga í samstarfi skólanna vegna þessa hóps nemenda. Strax í haust munu nemendur í 8. og 9. bekk og foreldrar þeirra hefja undirbúning að næstu heimsókn til Danmörku sem við endurgjöldum síðan í hlutverki gestgjafa. Nemendur munu því eignast nýja pennavini til að skrifast á við í dönskutímum í vetur þar sem grunnur er lagður að því að nemendur kynnist og eigi í góðum samskiptum þegar þeir hittast að lokum í Danmörku. Þá eiga foreldrar og aðrir gestgjafar þakkir skyldar fyrir að sinna gestgjafahlutverkinu nú af alúð og natni. Það fyrirkomulag að gist sé á einkaheimilum og að fæði sé í boði gestgjafa er ein af þeim forsendum sem tryggja að verkefnið gangi upp fjárhagslega og geti haldið áfram. Ég vil líka nota tækifærið hér og þakka Jóhönnu Ásu Einarsdóttur kennara kærlega fyrir aðkomu hennar að verkefninu sem hún tók að sér fyrir hönd skólans og stýrði af röggsemi og áhuga með stuttum fyrirvara.


Upplýsingaflæði
Eins og oftast er á fyrstu dögum skólaársins er það margt sem þarf að gera og ýmislegt sem tekur á sig skýrari mynd á næstu dögum. Því vil ég hvetja foreldra, nemendur og aðra áhugsama til þess að vera duglegir að kíkja á heimasíðu skólans eða kíkja við í heimsókn ef eitthvað er óljóst. Við skólastjórnendur og kennarar munum einnig senda ykkur upplýsingar tölvupósti þegar það á við. Hér á eftir hitta nemendur umsjónarkennara sína í skólanum þar sem þeir afhenda þeim ýmis gögn og skráningarblöð og veita upplýsingar um skólastarfið sem hefst eftir stundaskrá næstkomandi mánudag.


Kæru nemendur, starfsfólk, foreldrar og aðrir gestir. Það er von mín og ósk,
okkur öllum til handa, að það skólastarf sem hér er að hefjast í dag standi undir
þeim væntingum sem við berum öll í brjósti í upphafi skólaársins. Að svo mæltu segi ég Grunnskólann á Hólmavík settan haustið 2011.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón