A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Skákhátíđ á Ströndum um helgina - hefst í Hnyđju

| 21. júní 2012
Allir ađ mćta á fjöltefli föstudaginn 22. júní!
Allir ađ mćta á fjöltefli föstudaginn 22. júní!

Skákhátíð á Ströndum 2012 verður haldin nú um helgina. Efnt er til fjölteflis á Hólmavík og skákmóta í Djúpavík, Trékyllisvík og Norðurfirði. Von er á stórmeisturunum Helga Ólafssyni, Jóhanni Hjartarsyni og Þresti Þórhallssyni, auk skákáhugamanna víða að. Þá munu mörg af efnilegustu skákbörnum landsins taka þátt í hátíðinni, sem er öllum opin. Fjöldi viðurkenninga og verðlauna eru í boði, m.a. munir eftir tvo af kunnustu handverksmönnum Strandasýslu, flugfarseðlar, sérsmíðaðir silfurhringir, silki frá Samarkand, bækur og peningaverðlaun.

 
Hátíðin hefst  á Hólmavík klukkan 16:00 föstudaginn 22. júní. Þá mun Róbert Lagerman, heiðursgestur hátíðarinnar, tefla fjöltefli við alla sem vilja í Hnyðju, neðstu hæð Þróunarsetursins að Höfðagötu 3 á Hólmavík. Róbert sem verður fimmtugur nú í sumar er sá skákmeistari sem tekið hefur þátt í flestum skákviðburðum á Ströndum sl. ár. Fjölteflið er öllum opið og þátttaka er ókeypis.

 
Klukkan 20 á föstudagskvöld verður tvískákarmót í Hótel Djúpavík og á laugardag klukkan 13 hefst Afmælismót Róberts Lagerman í samkomuhúsinu í Trékyllisvík. Heildarverðlaun á mótinu verða rúmlega 100 þúsund krónur, en að auki gefa fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar verðlaun. Á sunnudag kl. 13 verður svo hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði, sem markar lok Skákhátíðar á Ströndum 2012.

 
Til mikils er að vinna á hátíðinni. Sigurvegarar í Trékyllisvík og Norðurfirði fá muni eftir Guðjón Kristinsson frá Dröngum og Valgeir Benediktsson í Árnesi. Þá mun sigurvegarinn á Afmælismóti Róberts fá sérsmíðaðan silfurhring, smíðaðan af Úlfari Daníelssyni gullsmið. Á hringinn er greypt með rúnaletri kjörorð skákhreyfingarinnar: Við erum ein fjölskylda.

Útlit er fyrir góða þátttöku í hátíðinni, sem hefur unnið sér sess sem einhver skemmtilegasti skákviðburður ársins. Ýmsir kunnir skákáhugamenn hafa boðað komu sína, og má nefna Halldór Blöndal fv. forseta Alþingis, Magnús Matthíasson formann Vinafélagsins, Stefán Bergsson framkvæmdastjóra Skákakademíu Reykjavíkur, Ingibjörgu Eddu Birgisdóttur fv. Íslandsmeistara kvenna, Gunnar Finnsson fv. skólastjóra í Trékyllisvík og Gunnar Björnsson forseta Skáksambandsins. Þá munu heimamenn að vanda taka virkan þátt í skákhátíðinni.

 
Helstu bakhjarlar Skákhátíðar á Ströndum 2012 eru Brim hf. menntamálaráðuneytið, Skáksamband Íslands, Flugfélagið Ernir, Kaupfélag Steingrímsfjarðar, Sögur útgáfa, forlagið, Securitas, Jóhanna Travel o.fl.

 
Allir eru velkomnir, og verður efnt til ýmissa viðburða fyrir utan skákina, m.a. haldin grillveisla í Trékyllisvík og ,,landsleikur" í fótbolta milli gesta og heimamanna í UMF Leifi heppna. Það er von mótshaldara að sem flestir leggi leið sína á hátíðina um helgina, og komist í snertingu við stórbrotna náttúru og auðugt mannlíf Strandasýslu.

 
Skákhátíð á Ströndum hefur stofnað Facebook-síðu, en einnig er hægt að skrá sig hjá Hrafni hrafnjokuls@hotmail.com , Róbert í chesslion@chesslion.com Andreu andreamg@ruv.is, sem einnig veita frekari upplýsingar um ævintýraferð á Strandir.

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón