A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Ný sveitarstjórn Strandabyggðar tekin við

| 16. júní 2010
Við höfnina á Hólmavík
Við höfnina á Hólmavík

Ný sveitarstjórn Strandabyggðar er tekin við stjórnartaumum og hélt sinn fyrsta fund þriðjudaginn 15. júní 2010. Fundinn sátu Jón Gísli Jónsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Sverrir Guðbrandsson fyrir J-lista og Jón Jónsson og Katla Kjartansdóttir fyrir V-lista. Á fundinum var lögð fram sameiginleg yfirlýsing listanna um samstarf á því kjörtímabili sem nú er að hefjast. Í framhaldi af því var Jón Gísli Jónsson kjörinn oddviti Strandabyggðar og Jón Jónsson varaoddviti. Yfirlýsing listanna um samstarfið er birt hér að neðan:   
 

Yfirlýsing um samstarf J-lista og V-lista í Strandabyggð

 

Í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum voru tveir listar í kjöri í Strandabyggð, J-listi sem fékk 129 atkvæði og 3 fulltrúa kjörna og V-listi sem fékk 125 atkvæði og 2 fulltrúa kjörna. Listarnir hafa nú við upphaf kjörtímabilsins ákveðið að taka höndum saman við stjórn sveitarfélagsins og leggja saman krafta sína í baráttunni fyrir hagsmunamálum íbúa Strandabyggðar. Framboðslistarnir munu þó að sjálfsögðu starfa áfram hvor í sínu lagi,  en ekki verður um hefðbundinn meirihluta og minnihluta að ræða í sveitarstjórn.

 

Framboðslistarnir eru sammála um að leggja áherslu á að hafa fagleg vinnubrögð í heiðri og sýna ábyrgð við fjármálastjórn sveitarfélagsins. Listarnir eru samtaka um að efla stjórnsýslu sveitarfélagsins og finna leiðir til að gera hana skilvirkari, auk þess sem ætlunin er að bæta upplýsingaflæði til íbúa. Hlúð verður að atvinnulífi, menningu og mannlífi í sveitarfélaginu, mennta- og umhverfismálum. Áhersla verður lögð á að þrýsta á stjórnvöld og stofnanir á landsvísu um margvísleg málefni sem snúa að jafnræði íbúa Strandabyggðar og annarra íbúa landsins.

 

Þrátt fyrir samstarf listanna í sveitarstjórninni verða lýðræðisleg vinnubrögð í heiðri höfð og einstaka sveitarstjórnarmenn eða listana sjálfa getur auðvitað greint á um einstök mál. Sveitarstjórnarmenn munu þó kappkosta að láta slík mál ekki trufla samvinnu á öðrum sviðum.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón