A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Niðurstöður ungmennaþings

| 07. mars 2017
Svanur Eðvald, Díana Jórunn, Alma Lind og Helgi
Svanur Eðvald, Díana Jórunn, Alma Lind og Helgi
Annað ungmennaþing Strandabyggðar fór fram í hádeginu miðvikudaginn 22. febrúar. Ungmennaráð skipulagði vinnu- og skemmtistöðvar og bauð upp á heimabakaða pizzu. Á fjórða tug ungmenna tóku þátt í þinginu.

Markmið þingsins var að finna leiðir til að efla tómstundastarf ungs fólks og móta starfsemina í Félagsheimilinu, en gert er ráð fyrir að félagsmiðstöðin Ozon og ungmennahúsið Fjósið flytji þangað ásamt Skólaskjóli á næstu misserum. Margar góðar hugmyndir komu fram á þinginu, meðal annars að inn í rými starfsins í kjallara Félagsheimilisins væri gott að fá poolborð, play station 4, flatskjá, borðtennisborð og skemmtilegt drasl, eins og það var orðað. Gott væri að mála og skreyta og gera lógó á vegginn. Sófi, speglarými, boltaland og frystikista fyrir ís og sun lolly voru jafnframt á óskalistanum, sem og spilaaðstaða.

Þátttakendur voru sammála um að gott væri að flytja bæði Ozon og Fjósið í kjallara Félagsheimilisins en að mikilvægt væri að hafa ekki opnanir á sama tíma. Óskað var eftir því að hafa opnanir á daginn jafnt sem á kvöldin auk þess sem opið væri tvö kvöld í viku í félagsmiðstöð. Í ungmennahúsi var þó litið svo á að best væri að fara þá leið að ungmenni fengu frjálsan aðgang og lyklavöld þegar rýmið væri laust, gegn því að skrá sig í gestabók.

Þegar kemur að viðburðum vilja mjög margir hafa frían mat, pizzur og snakk. Upp komu hugmyndir um pókerkvöld, að fara út að gera útihluti, keppnir og hópavinnu, fjallgöngur og að gista í tjöldum, hjólaferð á Drangsnes og að safna áheitum til styrktar ungmennahúsinu. Þrífa mætti allar rollur, hafa skemmtilega viðburði, þrautaleiki, fitnesskvöld í ræktinni, dýrakvöld, leiki, dans, bakstur, eldamennsku, fara í íþróttahúsið eða í útileguferð, utanlandsferð eða blackjack. Búa ætti til hugmyndabanka og hvetja til þess að hann væri notaður og eins halda hóptölvuleikjakvöld, hoppa í hringi, halda hænuólympíuleika, fótboltamót og virkja félagsíiðf með mismunandi viðburðum. Rætt var að ekki væri alltaf hægt að gera það sama og sniðugt væri að hafa til dæmis viðgerðakvöld og útileiki og hittast eftir skóla eða vinnu. Halda mætti spilakvöld, horfa á bíó, hafa vinahópa, halda partý og gistikvöld. Ljóst er að áhugi er fyrir aukinni útivist og hreyfingu sem er sannarlega gleðilegt.


Á einni vinnustöðinni var fjallað sérstaklega um Hamingjudaga og hvað unga fólkið vildi gera þar. Paintball var langvinsælast, gokart, lan og átkeppni hlutu einnig mörg atkvæði. Ball, sundlaugarpartý, Nerf byssustríð í íþróttahúsinu, vatnsrennibraut, sápubolti, trampólín, bátsferðir, hjólakeppni, selir, hestaferðir, hoppukastalar, fótboltamót, djúpsteiktar rækjur og bubblefótbolti voru jafnramt vinsælir kostir. Tveir aðilar sögðu að halda ætti Hamingjudaga á tveggja ára fresti.

 

Á þinginu voru stofnaðir tveir vinnuhópar; boltalandshópur og Hamingjudagahópur sem munu vinna áfram að viðkomandi hugmyndum. Ungmennaráðið mun sömuleiðis vinna áfram með niðurstöður þingsins sem var ansi afkastamikið.

Við þökkum öllum sem tóku þátt í þinginu. Næsta ungmennaþing Strandabyggðar verður í apríl og mun fjalla um fíkn.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón