A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Kveðja frá sveitarstjóra

| 08. apríl 2020

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Mars mánuður fer ekki í bækurnar sem hefðbundinn mánuður í neinum skilningi. Við vitum öll að þetta eru óvanalegir tímar þar sem ný og óþekkt vandamál og viðfangsefni fylla verkefnalistana.  Covid-19 umræðan hefur nánast einokað þennan mánuð, þó svo auðvitað verði fastir liðir í rekstri sveitarfélags að fá sína athygli.


Sameining leik-, grunn- og tónskóla

Vinna við sameininguna er í fullum gangi þó svo fyrirkomulag funda sé gerbreytt.  Unnið er að því m.a. á vegum verkefnastjórnar að skilgreina starfslýsingar og útbúa nýtt skipurit fyrir sameinaðan skóla.  Þá er nafnsamakeppni í gangi ofl. 

Hitaveita í Hveravík

Það er marga farið að lengja eftir niðurstöðu í þetta mál og er það skiljanlegt.  Það er þó hægt að segja að málsaðilar þokast sífellt nær endanlegum samningi og vonir standa til að hægt verði að hefja álagsprófun innan skamms.  Hitt er svo annað, sem kannski er erfitt að útskýra á þessu stigi, að uppbygging hitaveitu er viðamikið og kostnaðarsamt verkefni og þó svo bætt lífsgæði af hitaveitu séu augljós, þarf að skoða allar hliðar og sjá framúr fjármögnun og rekstrarlegu hæfi hitaveitunnar. 

Tenging ljósleiðara

Í mars var unnið að því að tengja ljósleiðara innanhúss í Þróunarsetrinu og var það langþráð lausn á erfiðu netsambandi sem hefur verið þar lengi.  Framundan eru síðan frekari tengingar í stofnanir sveitarfélagsins.

Önnur mál

Unnið var í svokallaðri Stjórnsýsluskoðun sem endurskoðendur sveitarfélagsins, KPMG setja okkur fyrir, en þar er farið yfir ferla og hvernig við stöndum okkur í almennum rekstri sveitarfélagsins, haldið var námskeið í skjalavistunarkerfinu One System, sem ætti að auðvelda okkur utanumhald verkefna og samskipta tengdum þeim, fundarhöld í Brunavörnum Dala, Reykhóla og Stranda, fundur í svæðisráði vegna Strandsvæðaskipulags Vestfjarða, samráðsfundur með sveitarstjórum Dalabyggðar og Reykhólahrepps (fjarfundur), fjarfundir í málefnum BS Vest (Byggðasamlags um málefni fatlaðra á Vestfjörðum) og margt fleira.

Covid-19

Eins og áður segir, snérist þessi mánuður samt fyrst og fremst um mótun aðgerða vegna Covid-19.  Mikið magn upplýsinga kemur á hverjum degi og í hverri viku frá Almannavörnum, Landlækni, Sóttvarnarlækni, Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga, Lögreglunni á Vestfjörðum ofl.  og er mikilvægt að miðla þessum upplýsingum strax til réttra aðila.  Ég hef einnig unnið að því að safna upplýsingum um stöðu atvinnulífsins hér á svæðinu, farið yfir tilmæli stjórnvalda um hugsanlegar aðgerðir sveitarfélaga til að draga úr neikvæðum áhrifum Covid-19 á atvinnulíf og einstaklinga og upplýst sveitarstjórn um stöðu mála.  Unnið hefur verið að því að móta viðbragðsáætlun fyrir félagsþjónustuna og var m.a. auglýst eftir Bakvarðasveit Strandabyggðar í því skyni. Þá var auglýst eftir sjálfboðaliðum til að taka að sér ýmis erindi og verkefni fyrir íbúa sem eiga erfitt um vik sjálfir og komu strax góð viðbrögð við þessum tilmælum og þökkum við öllum hlutaðeigandi kærlega fyrir.  Mörg önnur verkefni hafa verið unnin innan sveitarfélagsins í mánuðinum til að mæta þeim kröfum og tilmælum sem Covid-19 hefur kallað yfir okkur.  Starfsfólk sveitarfélagsins hefur unnið vel úr þeirri stöðu sem við erum í og ber að hrósa öllum fyrir vel unnin störf. 

Íbúar Strandabyggðar hafa brugðist vel við þeim breytingum á okkar daglega lífi sem Covid-19 hefur framkallað.  Allir eru meðvitaðir um þessa ógn og þó svo við sem samfélag höfum „sloppið“ hingað til, held ég að við gerum okkur grein fyrir því að hér munu greinast smit.  Það er bara tímaspursmál hvenær það gerist.  Við gerum því allt til að seinka því og draga úr smithættu.  Ógnin er raunveruleg og minnstu frávik í vörnum geta laskað lítið samfélag eins og okkar verulega.  Við verðum að geta sagt við okkur sjálf þegar þetta er afstaðið; „við reyndum allt“.  Meira er ekki hægt að gera. 


Um leið og ég óska ykkur öllum gleðilegra páska, hvet ég alla til að halda áfram stífum reglum um hreinlæti, handþvott og sprittnotkun í hvívetna,  halda fjarlægð frá næsta manni, sérstaklega þeim sem hafa verið annars staðar á landinu og virða allar reglur um sóttkví og vera heima! Þetta er tímabil sem gengur yfir.  Stöndum saman, verum ábyrg og gerum þetta rétt!

 

Höldum gleðilega páska heima!


Kveðja

Þorgeir Pálsson

Sveitarstjóri Strandabyggðar

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón