A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Góð þátttaka á íbúafundi um skólastefnu

| 12. maí 2015

 

Þriðjudaginn 5. maí síðastliðinn var efnt til íbúafundar um skólastefnu Strandabyggðar. Vel var mætt til fundarins sem haldinn var í félagsheimilinu á Hólmavík. Í hléi var boðið upp á kaffi og vöfflur með rjóma en nemendur úr 10. bekk grunnskólans sáu um kaffið.

Fyrir fundinum lágu drög að nýrri skólastefnu þar sem áhugasamir gátu kynnt sér efni hennar en á fundinum sjálfum var farið í vinnu þar sem þátttakendum var skipað í hópa og lagðar eftirfarandi spurningar fyrir hópana:

 

  1. Hvað eruð þið helst ánægð með í skólunum?

  2. Hvað má helst betur fara?

  3. Hvernig sjáið þið skólana fyrir ykkur eftir 10 ár?

  4. Annað sem þið viljið koma á framfæri?

 

Hóparnir fengu um 20 mínútur til að svara þessum spurningum og munu svörin m.a. vera notuð til að draga fram einstök atriði og ákveðna sérstöðu í skólastefnunni sjálfri. Áhersla var lögð á að allir fengju tækifæri til að tjá sig.

Næst voru þátttakendur, hver fyrir sig, beðnir um að rita niður á blað tvö atriði sem viðkomandi fannst skipta mestu máli til að skapa megi góða skóla. Þessum miðum var svo safnað saman og í kaffihléi meðan þátttakendur gæddu sér á vöfflum og kaffi var unnið úr þeim og efnið dregið saman í einn lista. Eftir hlé var farið yfir listann og hverju atriði gefið stig, ýmist ekkert stig, 1 stig eða tvö stig í því skyni að gefa hverju atriði vægi til forgangsröðunar. Þennan lista má sjá hér. Vinnuhópur um skólastefnu mun bera þennan lista saman við fyrirliggjandi drög að skólastefnu til að draga enn frekar fram þau áhersluatriði sem þykja mikilvæg.

Við undirbúning og gerð skólastefnu Strandabyggðar var leitað efnis og hugmynda hjá hópum sem tengjast skólasamfélaginu, s.s.  foreldrafélaga grunn- og  leikskóla, starfsmanna beggja skólanna, fulltrúa nemenda og til sveitarstjórnar Strandabyggðar. Mikilvægt er að sem flest sjónarmið komist að við vinnu sem þessa og því var einnig blásið til þessa opna íbúafundar svo enn fleiri gætu tekið þátt og lagt sitt af mörkum áður en lokahönd verður lögð á þessa vinnu við fyrstu útgáfu af skólastefnu Strandabyggðar. Mjög góðar og þarfar ábendingar hafa komið fram sem nú verður tekið tillit til og erum við þakklát fyrir mikinn áhuga allra í samfélaginu og þátttöku allra í að gera skólastefnuna að veruleika.

Í ljósi góðra athugasemda og hugmynda sem meðal annars komu fram á íbúafundinum hefur verið ákveðið að bæta örlítið í vinnutímann og í stað þess að gefa skólastefnuna út nú við skólaslit grunnskólans í vor þá er markið sett á skólasetningu síðla sumars.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón