A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Covid-19 - Nú reynir á

| 02. apríl 2020
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Um leið og við sendum hlýjar batakveðjur til vina okkar í Bolungarvík, Ísafirði og Hnífsdal, en þar hafa nú greinst smit, er rétt að skerpa á okkar eigin aðgerðum og fara aðeins yfir það sem við getum gert til að hindra enn frekar smit hér.

Hreinlæti.
Handþvottur er ein mikilvægasta smitvörnin.  Á vefnum www.covid.is má fnna þessar leiðbeiningar um handþvott: "Þvoðu hendur þínar reglulega með vatni og sápu, minnst 20 sekúndur í hvert skipti. Ef vatn og sápa eru utan seilingar er gott að nota handspritt, til dæmis þegar þú hefur notað greiðslukort eða komið við fleti sem margir snerta, svo sem hurðarhúna".

Þetta er einfalt; þvoum okkur eða notum spritt oft og vel.

Virðum fjarlægðir milli manna
Það er mikilvægt að fylgja ráðleggingum um fjarlægðir milli manna.  Þær ráðleggingar eru ekki settar fram af tilefnislausu. Í Krambúðinni hér á Hólmavík eru nú komnar merkingar til að hjálpa okkur að finna hæfilega fjarlægð frá næsta manni.  Virðum þær merkingar.  Þar eru líka sprittbrúsar sem við eigum að nota þegar við tökum körfu eða kerru eða sláum inn pin númerið okkar. 

Virðum reglur um sóttkví
Það gilda skýrar reglur um sóttkví og þær má lesa hér: https://www.covid.is/flokkar/sottkvi

Við erum öll ábyrg!
Öll viljum við standa okkur vel í okkar aðgerðum.  Mikil og góð vinna hefur verið unnin í sveitarfélaginu af fjölda fólks við að móta viðbragðsáætlanir, verklagsreglur, skipuleggja vinnufyrirkomulag og vaktaáætlanir o.s.frv.  Það er rétt að hrósa öllum þeim sem hafa mótað ramman fyrir okkar daglega líf og öllum þeim sem virða þennan nýja ramma. 

Það er líka mikilkvægt að allir sem hingað koma, hvort sem þeir eiga leið hjá, koma í heimsókn til ættingja og vina (sem þó ætti að takmarka eins og hægt er) eða koma hingað í sóttkví (sem þá þarf að skrá til heilbrigðisstofnunarinnar hér), fari einnig að þessum reglum.  Lítið samfélag eins og okkar má ekki við því að undantekningar séu gerðar frá þessum reglum um hreinlæti, sóttkví og annað sem lagt er upp með til að draga úr smithættu.

Sameinumst um að virða reglur og benda þeim á sem hugsanlega gleyma sér.  Við erum öll ábyrg.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
sveitarstjóri Strandabyggðar

Gagnlegar heimasíður:

www.covid.is

https://www.landlaeknir.is/

https://www.samband.is/um-okkur/upplysingasida-vegna-covid-19

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón