A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Breytingar á sorphirðu á árinu 2023

Þorgeir Pálsson | 30. desember 2022

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Gleðilega hátíð!  Vonandi hafa allir haft það sem best undanfarna daga.  Við viljum þakka íbúum fyrir vel unnið verk í flokkun á sorpi í gegnum tíðina og hvetjum ykkur til að halda áfram á þeirri braut. 

Framundan eru breytingar á framkvæmd sorphirðu í Strandabyggð, sem og um allt land.  Ný lög taka gildi um áramót og fela þau lög í sér breytingar, sem við viljum tæpa á hér í þessum pistli.  Nánari kynning með dreifibréfi inn á heimili, kemur síðan fljótlega á nýju ári.  Það má reikna með að innleiðing þessara breytinga taki nokkra mánuði og því leggjum við hjá Sorpsamlagi Strandasýslu áherslu á að vanda vel til verka og nýta tímann vel, í stað þess að keyra í gegn breytingar með hraði. 

  • Flokkun verður einfaldari!  Plast er td. ekki lengur flokkað í 3 flokka (hart, litað og glært) heldur fer allt plast saman í einn flokk.  Sama gildir um pappír, sem nú fer í einn flokk, en ekki 3 (fernur, bylgjupappi og annar pappír) líkt og áður
  • Fleiri tunnur.  Tunnum verður fjölgað.  Það verða 3-4 tunnur við hvert heimili og stærri ruslagámar við fjölbýli,  þannig að flokkunin á sér í raun stað utanhúss, beint í tunnurnar.  Það þarf því ekki lengur að flokka eins mikið innanhúss
  • Lífrænn úrgangur.  Lífrænn úrgangur fer í eina tunnu eða sérstakt hólf í tunnu, eftir því hvaða tunnugerð verður valin
  • Almennt sorp.  Það sem ekki flokkast sem plast, pappír eða lífrænt sorp, fer í almenna ruslatunnu.  Innheimt verður eftir magni eða rúmmáli í tunnu þegar sorpið er sótt.  Hafið í huga;  þeim mun betur sem allt er flokkað í plast, pappír, lífrænt eða annað, þeim mun minna verður eftir í almenna ruslinu og þar með minna að borga! Þess vegna skiptir markviss flokkun öllu máli.
  • Annað rusl.  Spilliefnum, gleri og málmum, skal áfram skilað í móttökustöðina á Skeiði.
  • Móttökustöðin á Skeiði.  Móttökustöðin verður óbreytt um sinn, en það verða breytinga hvað varðar aðgengi og opnunartíma.  Nánari tímarammi tilkynntur síðar
  • Sorphirðudagar.  Sorphirða verður óbreytt um sinn, þ.e. sorp er sótt annan hvern mánudag, en nánara dagatal verður kynnt síðar. Við biðjum íbúa að moka frá tunnum og auðvelda aðgengi.

Stjórn og starfsmenn Sorpsamlagsins vinna nú að undirbúningi innleiðingu þessara laga og er verið að skoða hvaða leiðir er best að fara.  Það þarf td. að kaupa inn mikið magn af ruslatunnum og minni ruslagámum, gera þarf ráð fyrir góðu aðgengi að ruslapokum og eins er verið að skoða opnunartíma og aðgengi að móttökustöðinni á Skeiði.  Þetta verður allt kynnt á næstu vikum og mánuðum.

Hér eru slóðir á nýju lögin og sérstaka handbók Umhverfisstofnunar, sem fer vel yfir þessar breytingar.  Við hvetjum íbúa til að kynna sér þessar breytingar og hika ekki við að hafa samband við Sorpsamlagið ef spurningar vakna.  Hægt er að hringja í Sigurð Marinó í síma: 894-4806, netfang siggimarri@strandabyggd.is eða Þorgeir í síma 899-0020, netfang thorgeir@strandabyggd.is

Hvað fyrirtæki varðar, verður byrjað að innheimta fyrir sorphirðu strax eftir áramót.

Þessar breytingar hafa marga kosti í för með sér og því er mikilvægt að við náum saman um að gera þetta rétt og vel frá byrjun.  Samvinna Sorpsamlags, íbúa og fyrirtækja er því lykilatriði.  Þetta skiptir okkur öll máli og við erum í þessu verkefni saman!

Kveðja

Stjórn og starfsmenn Sorpsamlags Strandasýslu

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón