A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Ársreikningur Strandabyggðar 2019, horfur 2020

| 17. júní 2020
Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nú liggur ársreikningur 2019 fyrir.  Hann sýnir talsverðan taprekstur á sveitarfélaginu sem rétt er að útskýra.  Í þessum pistli verður því gerð grein fyrir helstu ástæðum þessa tapreksturs sem og horfum fyrir 2020.

Niðurstaða 2019

  • Skerðing á tekjum Jöfnunarsjóðs var 9% eða um 21.3 milljón.  Útsvar og fateignaskattar skerðast um 1% eða kr. hátt í 2 milljónir.  Þetta þýðir heildar tekjutap m.v. áætlun upp á kr. 23 milljónir
  • Rekstur fræðslusviðs fór 15 milljónir framúr áætlun vegna kostnaðar við mönnun
  • Í Eignasjóði og B-hluta voru áætlaðar sölutekjur af eignum sem skiluðu sér ekki; samtals um 8-9 milljónir
  • Sorpsamlag Strandasýslu (Strandabyggð á rúmlega 70% hlut þar) var rekið með tapi upp á 6 milljónir.  Hlutur Strandabyggðar í tapinu 4.6 milljónir.

Samtals var tap á rekstri Strandabyggðar, A og B hluta um 47 milljónir.


Horfur 2020

Erfitt er að áætla tekjur Jöfnunarsjóðs og koma áætlanir þeirra gjarnan eftir að fyrri umræða fjárhagsáætlunar er búin.  Upphafleg áætlun Strandabyggðar fyrir 2020 var 244 milljónir í tekjur, en áætlun Jöfnunarsjóðs var síðan 236 milljónir.  Gert er ráð fyrir 15% niðurskurði í tekjum Jöfnunarsjóðs og er sá niðurskurður reiknaður frá 236 milljónum.  Heildartekjur á árinu verða því nær 200 milljónum.

 

Búið er að gera breytingar á áætlun 2020 sem gera ráð fyrir niðurskurði í flestum deildum og stofnunum, á bilinu 5-10% að jafnaði.  Búið er að gera tillögur um niðurskurð í framkvæmdum úr 59 milljónum í 23 milljónir. 

 

Það er í raun ekki hægt að tala um neitt svigrúm í rekstri Strandabyggðar umfram þetta.  Þessar áætlanir hafa verið samþykktar af sveitarstjórn og bornar undir endurskoðendur Strandabyggðar hjá KPMG.  Ljóst er að tekjur munu skerðast og búið er að bregðast við því með niðurskurðartillögum. Þetta mun hugsanlega kalla á skerðingu þjónustu og opnunartíma o.fl.  Við getum, eins og önnur sveitarfélög, tekist á við kostnaðarhliðina að vissu marki, en við getum lítið gert varðandi tekjuhliðina, a.m.k ekki til skamms tíma.

 

Sjóðstreymi

Okkar vandi liggur síðan í því, að vegna tekjuskerðingar skilar reksturinn ekki því fjármagni sem þarf til að standa skil á almennri starfsemi, afborgunum af lánum o.s.frv., a.m.k ekki að jafnaði.  Við erum því núna að skoða leiðir sem geta bætt þarna úr; skapað auknar tekjur og dregið úr beinum kostnaði.  Sala eigna, frestun verkefna sem kalla á aðkeypta þjónustu, frestun mannaráðninga, breytingar á lánum, nýjar lántökur ofl, er því til skoðunar.

 

Samhliða þessum aðgerðum, sem eru fyrst og fremst gerðar til að loka árinu, þarf sveitarstjórn að ræða ítarlega, stærri breytingar í rekstri. Sú umræða þarf líka að ná til tekjuhliðarinnar.  Það er ljóst að hagræðing í kostnaði er takmörkuð, nema breyta þeirri samfélagsmynd og þjónustustigi sem byggst hefur upp á undanförnum árum.  Slík breyting er ekki auðsótt.

 

Tekjur Sveitarfélagsins byggjast á tekjum Jöfnunarsjóðs og skattheimtu.  Hægt er að spá fyrir um útsvarstekjur með meiri vissu en tekjur Jöfnunarsjóðs.  Samdráttur í tekjum Jöfnunarsjóðs árið 2019 var 9% og spáð er 15% 2020.  Líklegt er að þær muni dragast saman enn frekar á árinu 2021.  Hér er um tugmilljóna tekjuskerðingu að ræða á hverju ári.

 

En, það er hægt að sporna við og markaðsetja Strandabyggð í þeirri von að það fjölgi ferðamönnum og skapi auknar tekjur í sveitarfélagið.  Til skoðunar er að setja fjármagn í markaðsátak nú í sumar.  Það þarf líka að ráðast í átak og laða að fleiri íbúa, sem myndi auka skatttekjur sveitarfélagsins til lengri tíma.  Hingað vantar iðnaðarmenn, íþróttakennara, tómstundafulltrúa o.s.frv. þannig að tilefnið er til staðar.

 

Það er ljóst að það er erfitt árferði núna og eitthvað inn í framtíðina.  Covid-19 og afleiðingar faraldursins hafa sett fjárhag og forsendur flestra sveitarfélaga úr skorðum.  Skerðing á tekjum Jöfnunarsjóðs er mikið högg og erfitt að fylla upp í þann tekjumissi nema hugsanlega til lengri tíma.  Og við verðum einfaldlega að  horfa til framtíðar og trúa á þau tækifæri sem við höfum.  Ferðaþjónusta, haftengd afþreying, þjóðtrú, galdrar og annað í sögunni, sem laðar hingað fólk, eru tækifæri sem við verðum að nýta.  Strandabyggð er mikilvægur þjónustukjarni og á þeim grunni verðum við að byggja.

 

Sterkar Strandir - áfram Strandabyggð!

 

 

Þorgeir Pálsson

Sveitarstjóri Strandabyggðar

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón