A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Alheimshreinsunardagurinn 15.september

Salbjörg Engilbertsdóttir | 14. september 2018

Þann 15. september nk. verður haldinn Alheimshreinsunardagurinn þar sem fólk um allt land og öll lönd, horfir í kringum sig og tekur til í nærumhverfinu. Víða er pottur brotinn í þeim efnum og ekki að ástæðulausu sem fólk er hvatt til að sameinast og halda heimsins mesta hreinsunarátak enda hlýtur það að vera sameiginlegt markmið okkar að hlúa vel að móður náttúru og sjá til þess að hún hafi það bærilegt „í ellinni“.

Í tilefni þessa dags erum við öll sem vettlingi getum valdið hvött til að taka vel til í kringum okkur, hafa með okkur poka og hreinsa upp allt það rusl sem á vegi okkar verður. Hægt er að ganga upp í Borgir með poka, upp á Sjónvarpshæð með poka, fara í fjöruferð með poka, fara í berjamó (með fötu) og poka o.s.frv. Svo er gott að nota tækifærið að ganga heimreiðar, göngustíga, eftir girðingum eða einfaldlega í kringum húsin sín og sjá hvort ekki uppgötvist einn og einn sígarettustubbur, smáplast eða umbúðir: allt þetta telur og allt þetta viljum taka úr umferð og út úr náttúrunni.

Um helgina munu fjölmargir fara í leitir víða á Ströndum og er leitarfólk sérstaklega hvatt til þess að vera vakandi fyrir því að taka allt rusl með sér tilbaka og sömuleiðis taka allt slíkt sem á vegi þeirra verður.

Við búum svo vel að því hér í Strandabyggð að hafa Sorpsamlagið þar sem hægt er að setja afraksturinn í lúgurnar og setja ruslið í rétta flokka í raun hvenær sem er sólarhringsins. Það er um að gera að nota þá þjónustu vel um helgina enda viljum við að ruslið fari rétta leið.

Nýtum nú helgina vel við störf og leik, og leggjum sérstaka áherslu á að hreinsa vel til í kringum okkur. ​"

 

Með kveðju

Eiríkur Valdimarsson formaður Umhverfis- og skipulagsnefndar

 

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón