A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

2021 - ár sóknar!

| 30. desember 2020

Kæru íbúar Strandabyggðar.

Skrýtið ár að baki.  Sjálfsagt byrja margir áramótapistlar á þessum orðum þetta árið, enda hverju orði sannara.  Árið 2020 var skrýtið, erfitt ár og ófyrirsjáanlegt.  Sumir fagna þess vegna nú þegar árið er að kveðja. 


Engu að síður þurfum við að skoða vel það sem gerðist á árinu og draga lærdóm af því.  Það er ekki þannig að við byrjum með autt blað þann 1 janúar, heldur tökum við með okkur veganesti frá fyrra ári, bæði gott og vont veganesti. Í mínum huga er ýmislegt jákvætt sem hægt er að benda á frá þessu ári sem nú er að líða. 


Samstaða
.  Samstaða íbúa gagnvart Covid-19 er t.d. jákvætt veganesti að mínu mati.  Hér náðist samstaða um að virða sóttvarnir og sætta sig við stöðuna eins og hún var.  Það var ekki sjálfgefið, sérstaklega ekki þegar leið á. 


Skilningur
.  Ég held og vona, að sá mikli niðurskurður sem varð á framlögum Jöfnunarsjóðs til Strandabyggðar á árinu og þær aðgerðir sem sveitarstjórn ákvað að fara í til að mæta þeim niðurskurði, hafi aukið skilning okkar íbúa á því hversu viðkvæmur rekstur sveitarfélagsins í raun er.  Svigrúmið er nánast ekkert.  Við búum við vissa samfélagsmynd og þjónustustig sem við viljum halda í.  En það kostar sitt.  Og meðan við erum jafn háð þeim tekjustofnum sem við höfum, má ekkert út af bregða.

Sókn.  Ég lít svo á að næsta ár verið ár sóknar.  Við þurfum að sækja okkur lausnir, sækja okkur auknar tekjur og ný tækifæri. Horfa út fyrir rammann, eins og sagt er.  Strandabyggð á þrátt fyrir allt, mikla möguleika á að styrkja stöðu sína sem þjónustukjarni þessa svæðis.  Það er t.d. ekki sjálfgefið að það atvinnulíf sem í dag einkennir okkur sé það sem verði eftir 5, 10 eða 20 ár.  Það eru mörg dæmi um sveitarfélög sem hafa snúið við blaðinu með því að sækja í nýjar atvinnugreinar og eða einblínt á að efla og útvíkka þá starfsemi sem fyrir er.  Það er allt hægt, en það kallar á skýra stefnu og samstöðu um þá stefnu.

Ég óska íbúum Strandabyggðar gleðilegs árs og þakka góð samskipti á þessu ári.  Tökum nýju ári fagnandi, því þar eru ónýtt tækifæri.

Sterkar Strandir!

Kær kveðja
Þorgeir Pálsson
sveitarstjóri Strandabyggðar

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón