A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur nr. 1357 í Strandabyggđ, 13.febrúar 2024

Sveitarstjórnarfundur nr. 1357 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 13. febrúar kl. 16.00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson oddviti, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir varaoddviti, Óskar Hafsteinn Halldórsson varamaður fyrir Jón Sigmundsson, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.


Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Innviðaráðuneytið, álit vegna kvörtunar Jóns Jónssonar vegna skipunar sveitarstjórnar á nefndarfulltrúum og veitingu tímabundinnar lausnar frá nefndarstörfum
2. Greinargerð Strandabyggðar vegna stjórnsýslukæru Jóns Gísla Jónssonar vegna leikskólalóðar
3. Greinargerð Strandabyggðar vegna álits A lista á stjórnsýslukæru Jóns Gísla Jónssonar vegna leikskólalóðar
4. Vinnufundur sveitarstjórnar, minnisblað oddvita
5. Breytingar T-lista á kjörnum fulltrúum, afgreiðsla kjörbréfs fyrir Þröst Áskelson
6. Forstöðumannaskýrslur fyrir janúar
7. Verkefni sveitarstjóra í janúar
8. Fundargerð TÍM nefndar frá 22.janúar
9. Fundargerð US nefndar frá 8. febrúar
10. Fundargerð FRÆ nefndar frá 8. febrúar
11. Fundargerð Sorpsamlags Strandasýslu frá 9. febrúar 2024, ásamt rekstraráætlun og gjaldskrá
12. Verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði, beiðni Mennta- og barnamálaráðuneytis um mótframlag sveitarfélaga á Vestfjörðum
13. Umsögn Strandabyggðar um drög að reglugerð um sjálfbæra nýtingu
14. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, staðfesting starfsreglna svæðisskipulagsnefndar Vestfjarða
15. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, staðfesting á afgreiðslu á beiðni um framlag til svæðisskipulagsgerðar
16. Vestfjarðarstofa og Fjórðungssamband Vestfjarða, fundargerðir nr. 55 frá 30. ágúst 2023, nr. 56 frá 27. september 2023 og nr. 58 frá 17. nóvember 2023
17. Samband Íslenskra sveitarfélaga, fundargerð 941 frá 12. janúar 2024 og 942 frá 26. janúar 2024
18. Samband sveitarfélaga, boðun á XXXIX. landsþing sambandsins 14. mars 2024
19. Hafnarsamband Íslands, fundargerð nr. 460 frá 15. janúar
20. Hafnarsamband Íslands, boðun á Hafnarþing, 24.-25. október 2024 í Hofi á Akureyri
21. Innviðaráðuneytið, upplýsingar til sveitarstjórna varðandi endurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðs frá 9. janúar 2024
22. Innviðaráðuneytið, beiðni um upplýsinga varðandi innheimtu innviðagjalda
23. Umverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, úttekt á starfsemi og framtíðarfyrirkomulagi náttúrustofa
24. Umhverfisstofnun, tilnefning í vatnasvæðanefnd
25. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, samstarfsyfirlýsing verkefnisins; Vestfirðir saman gegn ofbeldi og öðrum afbrotum.
26. Foreldrafélag leik-, grunn- og tónskóla, erindi til sveitarstjórnar


Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Engin athugasemd er gerð við fundarboðið.

Þá var gengið til umræðu.

1. Innviðaráðuneytið, álit vegna kvörtunar Jóns Jónssonar vegna skipunar sveitarstjórnar á nefndarfulltrúum og veitingu tímabundinnar lausnar frá nefndarstörfum.

Innviðaráðuneytið svarar erindi Jóns Jónssonar og telur ekki ástæðu til að skoða stjórnsýslu Strandabyggðar. Alltaf má gera betur í niðurröðun í nefndir, en því miður bitnar fámennið oft á okkur og erfitt reyndist að manna þessa nefnd karlmönnum á sínum tíma. Eins má draga þann lærdóm af þessu máli, að segja ítarlegar frá ákvörðunum í fundargerð. Að öðru leyti er þessu máli lokið.

Matthías Lýðsson tók til máls og telur þetta ágætis áminningu um að vanda betur til verka. Honum þykir athyglisvert að ráðuneytið hafi horft á upptöku og séð að málið hafi verið rétt afgreitt hjá sveitarstjórn.

Oddviti bendir á að álitið verði birt á vef Strandabyggðar


2. Greinargerð Strandabyggðar vegna stjórnsýslukæru Jóns Gísla Jónssonar vegna leikskólalóðar.


Greinargerðin hefur verið sent til innviðaráðuneytisins og því rétt að bíða með umræðu þar til svar ráðuneytisins liggur fyrir. Íbúar eru hins vegar hvattir til að kynna sér bæði stjórnsýslukæruna og greinargerðina, en hvoru tveggja má finna á veg Strandabyggðar á þessari slóð: Stjórnsýslukæra Jóns Gísla og greinargerð.

Matthías Lýðsson vill taka fram að greinargerðin er fyrst og fremst álit meirihluta sveitarstjórnar.


3. Greinargerð Strandabyggðar vegna álits A-lista á stjórnsýslukæru Jóns Gísla Jónssonar vegna leikskólalóðar


Greinargerðin sem er fyrst og fremst álit meirihluta sveitarstjórnar hefur verið send til ráðuneytisins og frekari umræða bíður því þar til ráðuneytið hefur komist að niðurstöðu. Hins vegar vill T-listinn leggja fram eftirfarandi bókun:

„Í áliti A lista er vegið harkalega að heilindum fulltrúa meirihlutans og þeir sakaðir um að beina viljandi verkefnum og fjármunum út úr sveitarfélaginu. Þessar ásakanir eru það alvarlegar að T listinn mun leita eftir áliti ráðuneytisins við þeim. Allt frá því þessi sveitarstjórn tók við, hefur verið leitast við að auglýsa öll verkefni og heimamenn hvattir til að leggja inn tilboð. Í umræddu máli um leikskólalóðina, var meira að segja gengið svo langt, að sérstakt boð var sent til Trésmiðjunnar Höfða um viðræður, eftir að seinni tilboðsfrestur rann úr í maí 2023. Trésmiðjan Höfði svaraði ekki því boði og lagði ekki inn tilboð. Trésmiðjan Höfði hefur reyndar aldrei lagt inn tilboð í neitt verkefni í tíð núverandi sveitarstjórnar. Það er óskandi að fulltrúar A lista hugleiði afleiðingar orða sinna og merkingu þeirra, áður en þau eru sögð. Það er alvarlegt að bera þessar sakir á samstarfsfélaga sína í sveitarstjórn, líkt og A listinn gerir í þessu máli. Og það má minna á að fulltrúar A lista hafa samþykkt aðkomu fjölda fyrirtækja utan sveitarfélagsins, vegna vinnu við grunnskólann, enda þekking, mannafli og tími heimamanna þá ekki til staðar. Að veitast síðan að meirihlutanum í þessu máli með leikskólalóðina, þar sem heimamenn nýttu sér ekki tækifæri til að leggja inn tilboð og enginn annar kostur var augljós en að leita út fyrir sveitarfélagið, er tækifærismennska og sérlega lítilmannleg framkoma A lista“.

Matthías Lýðsson tók til máls og telur sjálfsagt að öllum skoðunum sé komið á framfæri.


4. Vinnufundur sveitarstjórnar, minnisblað oddvita


Oddviti kallar eftir ákvörðun um tímasetningu vinnufundar. Ræddar voru ýmsar dagsetningar og ákveðið að halda fund þann 21. febrúar frá kl.12-16.

Oddviti tók fram að umræður um samning við Innviðaráðuneytið verði ræddar á fundinum ásamt fleiri málum.

Matthías Lýðsson tekur undir með oddvita og leggur til að hann kanni hjá Innviðaráðuneytinu hvaða málefni séu líkleg til að njóta stuðnings.


5. Breytingar T-lista á kjörnum fulltrúum, afgreiðsla kjörbréfs fyrir Þröst Áskelsson


Oddviti fór yfir innihald minnisblaðs og kallaði síðan eftir staðfestingu sveitarstjórnar á þessum breytingum. Þröstur Áskelsson telst nú þriðji varamaður T-lista.

Oddviti óskaði eftir samþykki sveitarstjórnar. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

6. Forstöðumannaskýrslur fyrir janúar


Orðið gefið laust.


Matthías Lýðsson vill taka fram að samkvæmt forstöðumannaskýrslum er ljóst að nóg er um að vera í sveitarfélaginu og sveitarstjórn vill þakka starfsmönnum fyrir þeirra mikilvæga framlag.


7. Verkefni sveitarstjóra í janúar


Orðið gefið laust.


Matthías Lýðsson spyr út í störf Strandanefndarinnar sem hefur fundað í janúar.


Oddviti fór yfir umræður á fundunum og hvaða verklag verði viðhaft í vinnu nefndarinnar. Áhersla er lögð á að vinna nefndarinnar skili árangri og að staðið verði við úrlausn verkefna sem hafa verið í umræðunni í áraraðir. Nefndin stefnir að íbúafundi fljótlega í ferlinu.


Undir þessum dagskrárlið spannst umræða um umsóknir um sértækan byggðakvóta. Sveitarstjórn bíður upplýsinga frá Byggðastofnun.


Hlíf Hrólfsdóttir spyr hvort vinna sveitarstjóra við innri vinnu T-lista sé á verkefnalista hans. Sveitarstjóri tekur undir með Hlíf að þetta þurfi ekki að koma fram.


8. Fundargerð Tómstunda, íþrótta- og menningarnefndar frá 22. janúar 2024


Oddviti gaf formanni orðið.


Sigríður G. Jónsdóttir fór yfir fundargerðina og tekur fram að afhending verðlauna íþróttamanneskju ársins og hvatningarverðlauna verði á lokadegi lífshlaupsins á viðburði sem haldinn verður í tilefni af því.


Varðandi lið nr. 3 sem er Frístundastyrkur þá samþykkir sveitarstjórn samhljóða tillögu nefndarinnar.


Oddviti vill taka fram að hann fagni tillögum nefndarinnar sem bæði heldur í óbreytta styrki með húsaleigu til íþróttafélaganna en um leið verði nú styrkir veittir til foreldra.


Varðandi lið nr. 5 sem er opnunartími Íþróttamiðstöðvar þá staðfestir sveitarstjórn áður gefið samþykki fyrir breyttum opnunartíma á laugardögum. Samþykkt samhljóða.


Varðandi lið nr. 8 sem er erindi frá foreldrafélagi leik- grunn-, og tónskóla er sveitarstjóra og formanni TÍM nefndar falið að svara bréfinu.


Fundargerð lögð fram til kynningar að öðru leiti.


9. Fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar frá 8. febrúar 2024


Oddviti gaf formanni orðið.


Matthías Lýðsson formaður fór yfir fundargerðina.


Varðandi lið 1 sem er staðsetning færanlegrar hleðslustöðvar Orkubús Vestfjarða við Galdrasafnið á Hólmavík, samþykkir sveitarstjórn tillögu formanns US nefndar um staðsetningu við austurenda bílastæðis við Galdrasafnið. Við nánari skoðun á staðsetningu hleðslustöðvarinnar, sem var samþykkt í fundargerð US nefndar þá kemur í ljós að ekki er pláss fyrir bíla. Formaður mun útskýra fyrir nefndinni breytingar á samþykkt fundarins. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

Varðandi lið 2 sem er umsókn um byggingarleyfi fyrir Björgunarsveitina Dagrenningu að Skeiði 6. Björgunarsveitin óskar jafnframt eftir niðurfellingu gjalda vegna byggingar hússins. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að veita byggingarleyfið og að gjöld vegna framkvæmdarinnar verði felld niður.

Varðandi lið 3 þá kynnti formaður efni skýrslunnar. Oddviti leggur til að skýrslan verði nýtt í vinnu við endurskoðun aðalskipulags.

Varðandi lið 4 þá samþykkir sveitarstjórn tillögu nefndarinnar. Samþykkt samhljóða

Varðandi lið 6 þá samþykkir sveitarstjórn tillögu nefndarinnar og felur skipulagsfulltrúa að senda afgreiðsluna til staðfestingar hjá Skipulagsstofnun. Samþykkt samhljóða.

Varðandi lið 7 þá samþykkir sveitarstjórn tillögu nefndarinnar og felur skipulagsfulltrúa að senda afgreiðsluna til staðfestingar hjá Skipulagsstofnun. Samþykkt samhljóða.

Oddviti mun taka saman stöðu mála vegna gáma á tanganum fyrir næsta fund nefndarinnar.


Að öðru leiti er fundargerðin lögð fram til kynningar


10. Fundargerð Fræðslunefndar frá 8. febrúar 2024


Oddviti fór yfir efni og umræðu fundarins.

Varðandi lið 3, er sveitarstjóra falið að svara bréfi foreldrafélagsins í samráði við skólastjóra og nefndarmenn FRÆ nefndar.
Hlíf spurði um minnisblað um framkvæmdir í grunnskólanum sem fylgdi ekki sem fundargagn. Það verður sent á sveitarstjórn til kynningar.

Matthías spyr um samning við Ásgarð. Samningur verður lagður fram á næsta fundi sveitarstjórnar.

Að öðru leiti er fundargerðin lögð fram til kynningar.

11. Fundargerð Sorpsamlags Strandasýslu frá 9. febrúar 2024, ásamt rekstraráætlun og gjaldskrá.


Oddviti rakti efni fundarins. Fundargerð og gögn lögð fram til kynningar.


12. Verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði, beiðni Mennta- og barnamálaráðuneytis um mótframlag sveitarfélaga á Vestfjörðum


Oddviti rakti forsendur erindisins og gaf orðið laust.

Oddviti tekur fram að samgöngutakmarkanir hamli verulega aðgengi nemenda að Menntaskólanum á Ísafirði og leggur til að erindinu verði hafnað. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.

13. Umsögn sveitarstjórnar Strandabyggðar um drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu


Oddviti gaf oddvita A-lista orðið.


Matthías Lýðsson fór yfir athugasemdir og umsagnardrög sem verða birt á efirfarandi slóð:


Sveitarstjórn samþykkir tillögur Matthíasar að umsögn. Samþykkt samhljóða.


14. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, staðfesting starfsreglna svæðisskipulagsnefndar Vestfjarða


Oddviti vísaði í sveitarstjórnarfund nr. 1348, lið nr. 16 „ en þar var samþykkt eftirfarandi bókun: „16. skipan fulltrúa Strandabyggðar í Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, að beiðni Fjórðungssambands Vestfirðinga, til afgreiðslu.Oddviti leggur til að Matthías Sævar Lýðsson og Jón Sigmundsson verði fulltrúar Strandabyggðar í svæðisskipulagsnefndinni. Samþykkt samhljóða.“

Sveitarstjórn þarf hér að staðfesta starfsreglur svæðisskipulagsnefndar, sem lesa má um í fundargögnum. Hlutverk nefndarinnar er í stuttu máli: „Hlutverk svæðisskipulagsnefndar er að annast vinnslu, kynningu og afgreiðslu svæðisskipulagsins og umhverfismats áætlunarinnar undir yfirstjórn viðkomandi sveitarstjórna. Hins vegar, eftir staðfestingu svæðisskipulagsins, er hlutverk nefndarinnar að sjá um framfylgd og breytingar á svæðisskipulaginu. Í starfi sínu tekur svæðisskipulagsnefnd mið af Landsskipulagsstefnu auk markmiða svæðisskipulagsins sjálfs og þróunar í sveitarfélögunum.“

Oddviti leggur til að sveitarstjórn samþykki starfsreglur nefndarinnar. Borið undir atkvæði og samþykkt samhljóða.


15. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, staðfesting á afgreiðslu á beiðni um framlag til svæðisskipulagsgerðar


Með vísan í umræðu og fundargögn varðandi lið 14, leggur oddviti til að sveitarstjórn samþykki framlag Strandabyggðar til þessarar vinnu, sem áætlaður um kr 300.000.-

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða framlag til svæðisskipulagsnefndar og sveitarstjóra falið að tilkynna til Vestfjarðarstofu.


16. Vestfjarðarstofa og Fjórðungssamband Vestfjarða, fundargerðir nr. 55 frá 30. ágúst 2023, nr. 56 frá 27. september 2023 og nr. 58 frá 17. nóvember 2023


Orðið gefið laust. Sveitarstjórn er sammála um að fundargerðir berist alltof seint.


17. Samband Íslenskra sveitarfélaga, fundargerð 941 frá 12. janúar 2024 og 942 frá 26. janúar 2024


Orðið gefið laust. Oddviti benti á jákvæða umfjöllun um frumvarp stjórnvalda um vindmillugarða.


18. Samband sveitarfélaga, boðun á XXXIX. landsþing sambandsins 14. mars 2024


Oddviti staðfesti að hann færi á landsþingið sem framkvæmdarstjóri sveitarfélagsins. Hlíf Hrólfsdóttir mætir sem kjörinn fulltrúi Strandabyggðar.


19. Hafnarsamband Íslands, fundargerð nr. 460 frá 15. Janúar 2024


Orðið gefið laust. Enginn kveður sér hljóðs.


20. Hafnarsamband Íslands, boðun á Hafnarþing, 24.-25. október 2024 í Hofi á Akureyri


Oddviti sagði frá því að hann og hafnarvörður, Sigurður Marinó Þorvaldsson hyggjast sækja þingið.


21. Innviðaráðuneytið, upplýsingar til sveitarstjórna varðandi endurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðs frá 9. janúar 2024


Oddviti reifaði málið og telur það þýða, að sú tekjuskerðing sem Strandabyggð hafði reiknað með komi ekki til framkvæmda í ár, rétt er þó að hafa fyrirvara á þessu vegna ummæla ráðherra um hugsanlegra breytingar.


22. Innviðaráðuneytið, beiðni um upplýsingar varðandi innheimtu innviðagjalda


Oddviti tók fram að byggingafulltrúi muni svara erindinu.


23. Umverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, úttekt á starfsemi og framtíðarfyrirkomulagi náttúrustofa


Oddviti gefur oddvita A lista orðið sem rakti fyrirhugaða úttekt og kynnti fyrir sveitarstjórn. Einnig nefndi Matthías að umræður hafa verið milli Strandabyggðar og Náttúrustofu Vestfjarða varðandi stöðugildi á Hólmavík.


24. Umhverfisstofnun, tilnefning í vatnasvæðanefnd


Hlíf Hrólfsdóttir bendir á að skipað hafi verið í nefndina á fundi sveitarstjórnar 13. desember 2022. Sveitarstjóra falið að tilkynna skipan nefndarmanns til Umhverfisstofnunar.


25. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, samstarfsyfirlýsing verkefnisins; Vestfirðir saman gegn ofbeldi og öðrum afbrotum.


Oddviti gefur oddvita A lista orðið. Matthías sagði frá því að undirsskrift hafi verið frestað til 9. apríl í tengslum við Fjórðungsþing að vori.


26. Foreldrafélag leik-, grunn- og tónskóla, erindi til sveitarstjórnar


Oddviti þakkar foreldrafélaginu fyrir bréfið og verður því svarað formlega af sveitarstjóra.

T- listinn leggur fram eftirfarandi bókun:

„ Meirihluti sveitarstjórnar hafnar því að framsýni skorti við gerð auglýsingar um afleysingastarf í stöðu íþrótta- og tómstundafulltrúa. Sveitarfélagið auglýsir meðvitað eftir starfskrafti þar sem menntunarkröfur eru víðar og því haldið opnu hvaða bakgrunns sé óskað. Fyrir liggi að ráðningin sé tímabundin og að megin verkefni þessa starfstíma sé utanumhald reksturs, mannahald, skipulag sumarstarfs og innleiðing framkvæmda. Með engu er vegið að tómstundafræðimenntun, heldur er einfaldlega verið að ráða í þau verkefni sem liggja fyrir. Sveitarfélagið hefur sterka og hæfa einstaklinga sem sinna störfum umsjónarmanna íþróttamannvirkis, félagsmiðstöðvar og félagsstarfs aldraðra og fyrir liggi nú þegar áherslur og verkaskipan er varða uppbyggingu á frístundastarfi í sveitarfélaginu.

Þá er alls ekki verið að draga úr hlutfalli starfsins, enda er starfandi í 100% starfi íþrótta- og tómstundafulltrúi sem sinnir uppbyggingu frístundastarfs. Hér er verið að ráða í afleysingu til að sinna vissum verkþáttum. Það er því alls ekki svo að þessi ráðning ógni á nokkurn hátt tækifærum barna í Strandabyggð til þátttöku í faglegu frístundastarfi. Séu aðstæður barna í Strandabyggð skoðaðar, má sjá að í dag eiga þau kost á óteljandi íþrótta- og tómstundamöguleikum. Nægir að nefna: tómstundastarf Ozon, námskeiðahald, samvinnu við önnur sveitarfélög á sviði tómstundamála, skíðaiðkun, fótbolta, línuskauta, frjálsar íþróttir, bogfimi, styrktaræfingar, svo dæmi séu tekin. Að þessum málum koma íþróttafélögin og sveitarfélagið og fjöldi fólks auk starfsmanna íþróttamiðstöðvar Strandabyggðar og allir leggja sig fram um að sinna börnunum okkar vel og á uppbyggilegan hátt. Mikilvægt er að halda því öllu til haga í umræðunni og þakka þessu fólki fyrir vel unnin störf.


Það vekur athygli, að foreldrafélagið hefur ekki beitt sér af sama áhuga varðandi aðrar stöður sem eru ómannaðar í sveitarfélaginu og er þar átt við t.d. stöðu þroskaþjálfa. Einnig þarf að ráða tónlistarkennara og deildarstjóra í leikskóla eða aðstoðarleikskólastjóra. Það er mikilkvægt að við sameinumst um það að manna hvað best allar stöður í sveitarfélaginu og til þess þurfa allir að vinna saman.“


Að öðru leyti lýsir oddviti yfir ánægju með virkni foreldrafélagsins og telur mikilvægt að foreldrafélagið og sveitarstjórn séu samstíga og sammála í málum er varða uppbyggingu samfélagsins.


Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin yfir. Fundi slitið kl. 19.22

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón