A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd - 19. ágúst 2010

Fundur var haldinn í Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Strandabyggðar fimmtudaginn 19. ágúst 2010 kl. 20:00 í Þróunarsetrinu á Hólmavík. Jón Jónsson varaoddviti setti fundinn og stjórnaði honum fram yfir kosningu formanns, en aðrir fundarmenn voru Ásta Þórisdóttir, Lýður Jónsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Sigurður Atlason og Viðar Guðmundsson. Jón Jónsson ritaði fundargerð.

 

Eftirfarandi dagskrá lá fyrir fundinum:

 

  • 1. Kosning formanns, varaformanns og ritara
  • 2. Umræður um störf nefndarinnar
  • 3. Umhverfisvottun Vestfjarða
  • 4. Deiliskipulag fyrir urðunarstað
  • 5. Önnur mál.

 

Þá var gengið til dagskrár:

 

1. Kosning formanns, varaformanns og ritara

Fram kom tillaga um að Sigurður Atlason verði formaður nefndarinnar, Ásta Þórisdóttir varaformaður og Lýður Jónsson ritari og var það samþykkt samhljóða. Sigurður Atlason formaður tók við stjórn fundarins.

 

2. Umræður um störf nefndarinnar

Lagt var fram til kynningar erindisbréf Umhverfisnefndar frá 2007, sem samið var af nefndinni í upphafi síðasta kjörtímabils, og jafnframt upplýsingar um störf náttúruverndarnefnda af vef Umhverfisstofnunar.

 

Nefndin er sammála um að standa þurfi vörð um Staðardagskrá 21 sem samþykkt var af sveitastjórn Strandabyggðar 2. júlí 2008 og tryggja að hún sé lifandi og síbreytilegt plagg sem sé sveitarfélaginu til heilla. Nefndin beinir því til sveitarstjórnar að vinna jafnt og þétt að kynningu á Staðardagskrá sveitarfélagsins og að því að fá fram hugmyndir og skoðanir íbúa í þessu samhengi. Bent er á að væntanlegur hugmyndapottur á vefsíðu sveitarfélagsins gæti nýst vel í þessu sambandi. Jafnframt beinir nefndin því til annarra fastanefnda sveitarfélagsins að taka viðeigandi kafla í Staðardagskrá 21 til reglulegrar umfjöllunar og endurskoðunar. Nefndin óskar eftir að slík endurskoðun liggi fyrir innan þriggja mánaða og lýsir sig reiðubúna til að aðstoða sveitarstjórn og aðrar nefndir við þessa vinnu.

 

3. Umhverfisvottun Vestfjarða

Sigurður Atlason kynnti hugmynd og tillögu um umhverfisvottaða Vestfirði og lagði fram heftið Umhverfisvottaðir Vestfirðir sem Ferðamálasamtök Vestfjarða gáfu út í tengslum við ráðstefnu á Núpi í Dýrafirði 17. apríl 2010. Einnig minnisblað um Earth Check vottun Vestfjarða dags. 12. ágúst 2010 sem Stefán Gíslason hjá UMÍS ehf tók saman.

 

Lögð var fram svohljóðandi tillaga og greinargerð og henni vísað samhljóða til sveitarstjórnar, ásamt fylgigögnum:

 
Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Strandabyggðar samþykkir að Strandabyggð beiti sér fyrir sameiginlegri vottun Vestfjarða í heild samkvæmt staðli Earth Check eða öðrum sambærilegum staðli fyrir sjálfbær samfélög í samræmi við áherslur sem fram komu á ráðstefnu um umhverfisvottaða Vestfirði á vegum Ferðamálasamtaka Vestfjarða sl. vor. Nefndin beinir því til sveitarstjórnar að leggja fram tillögu í þessa veru á Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið verður á Hólmavík dagana 3.-4. september nk. Jafnframt hvetur nefndin til að samráð verði haft við aðrar sveitarstjórnir á Vestfjörðum um mótun tillögunnar. Þá lýsir nefndin sig reiðubúna til að aðstoða sveitarstjórn á alla lund við undirbúning málsins.

 

Greinargerð með tillögunni:

 

Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa undanfarið misseri unnið að stefnumótun vestfirskrar ferðaþjónustu og haldið stefnumótunarfundi um allan fjórðunginn í þeim tilgangi að ná fram sjónarmiðum flestra þeirra sem tengjast greininni. Vel á annað hundrað manns lögðu vinnunni lið með hvers kyns hugmyndum og innleggi í umræðuna. Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem hefur mikil og jákvæð áhrif inn í samfélagið en það eru oft óljós mörk á því hvar landamæri hennar liggja. Ef ekki væri fyrir öfluga ferðaþjónustu þá byggju íbúarnir ekki endilega við þau fjölbreyttu lífskjör sem raunin er.

 

Rekstur sundlauga, matvöruverslana, veitingastaða og hvers kyns afþreyingar, auk margvíslegrar annarrar þjónustu sem þykir sjálfsögð í öllum byggðum, væri vart svipur hjá sjón ef ekki hefði verið unnið markvisst við uppbyggingu ferðaþjónustu.

 

Á stefnumótunarfundunum þar sem farið var um víðan völl greinarinnar kom það berlega í ljós að Vestfirðingar eru tilbúnir til að hefja umræðu af fullri alvöru um alla þætti umhverfismála og raunar kom fram skýr krafa um að sá málaflokkur yrði tekinn sérstaklega fyrir við allt skipulag ferðaþjónustu á Vestfjörðum.

 

Vottunarferlið felur í sér úttekt óháðs aðila, sem tryggir gæðastjórnun, aðhald og eftirfylgni og eykur því líkur á árangri. Aðkoma óháðs aðila eykur einnig á trúverðleika þess sem gert er og getur umhverfisvottun, þar sem veitt er umhverfismerki, því verið öflugt tól til kynningar og markaðssetningar. Auk beins ávinnings fyrir umhverfið getur umhverfisvottun þannig snert fjölmörg svið samfélagsins með því að bæta ímynd okkar, veita okkur samkeppnisforskot í ferðaþjónustu- og öðrum útflutningsgreinum og stuðla að sparnaði.

 

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Strandabyggðar vill leggja sitt að mörkum svo hugmyndin um umhverfisvottun Vestfjarða geti orðið að veruleika með þessari tillögu.

 

4. Deiliskipulag fyrir urðunarstað

Lagt fram til kynningar deiliskipulag sem er í vinnslu fyrir urðunarstaðinn í landi Skeljavíkur, ásamt athugasemdum sem Bygginga-, umferðar- og skipulagsnefnd hafði gert við plaggið. Nefndin leggur áherslu á að tryggt verði að sjónmengun af urðunarstaðnum verði sem minnst. Fram kom hugmynd um hvort hægt væri að nýta timburbretti í jarðvegsmanir, sem nefndin veltir fyrir sér hvað eigi að vera háar og telur að þurfi að loka sem mest sjónlínu inn á urðunarstaðinn. Skýrt þarf að vera hvernig gengið verður frá þeim úrgangi sem fyrir er á staðnum þegar skipulaginu er breytt og að ekki sé hreyft við svæði þar sem sláturúrgangur var urðaður.

 

Jafnframt hvetur nefndin Sorpsamlag Strandasýslu til að kanna möguleika á söfnun á lífrænum úrgangi og gerð moltu úr honum og hvetur til að slíkt verði skoðað í fullri alvöru.

 

5. Önnur mál

a) Nefndin samþykkir að óska eftir fundi með framkvæmdastjóra Sorpsamlags Strandasýslu þar sem rætt verði um starfsemina, möguleika og tækifæri varðandi bætta þjónustu, og farið yfir þann árangur sem náðst hefur varðandi flokkun sorps eftir að sú vinna hófst.

 

Ekki voru tekin fyrir fleiri mál. Ákveðið að stefna að reglulegum fundum í nefndinni um það bil mánaðarlega, næst miðvikudaginn 15. september kl. 18:00. Fundargerð lesin upp og samþykkt samhljóða. Fundi slitið kl. 22:10.

 

Ásta Þórisdóttir (sign)

Lýður Jónsson (sign)

Ingibjörg Benediktsdóttir (sign)

Sigurður Atlason (sign)
Viðar Guðmundsson (sign)

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón