A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Menningarmálanefnd - 14. júlí 2010

Fundur var haldinn í Menningarmálanefnd Strandabyggðar þann 14. júlí og hófst hann kl. 17.00 á skrifstofu sveitarfélagsins. Mættir eru Salbjörg Engilbertsdóttir, Lýður Jónsson, Ester Sigfúsdóttir, Steina Þorsteinsdóttir og Jón Alfreðsson varamaður.
Dagskrá fundarins:
  • 1. Kosning formanns, varaformanns og ritara.
  • 2. Umsóknir um þátttöku á vinabæjarmót í Tanum Svíþjóð.
  • 3. Hamingjudagar, uppgjör og niðurstaða.
  • 4. Önnur mál
1. Kosning formanns, varaformanns og ritara.
Nefndarmenn voru sammála um að mæla með Salbjörgu Engilbertsdóttir sem formanni og Rúnu Stínu Ásgrímsdóttur sem varaformanni. Lýður Jónsson var einróma samþykktur sem ritari.

2. Umsóknir um þátttöku á vinabæjarmóti í Tanum Svíþjóð.
Salbjörg vék af fundi. Sveitarstjórn hefur ákveðið að styrkja 3 ferðarinnar en umsækjendunum 5 verður boðið að skipta styrknum á milli sín, þar sem þeir hafa allir tekið þátt í að skipuleggja vinabæjarmót Strandabyggðar. Umsækjendur eru Lára Guðrún Agnarsdóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir, Kristín S. Einarsdóttir, Victor Örn Victorsson og Rúna Stína Ásgrímsdóttir. Salbjörg kom aftur inn á fundinn.


3. Hamingjudagar, uppgjör og niðurstaða.

Kristín Einarsdóttir kom á fundinn og kynnti skýrslu sína um hátíðina. Fram kom í umræðum að ekki telur nefndin þörf á að fara í markvissara auglýsingaátak þar sem kostnaður er gífurlegur og þetta er auglýst vel í nágrannasveitarfélögum og hjá heimamönnum og gestum þeirra. Nokkur umræða var um dagskrá og skipulag hátíðarinnar. Eins gerir framkvæmdastjóri þá tillögu að ráðinn sé framkvæmdastjóri strax að hausti í einhvers konar hlutastarf, frekar en að hann sé ráðinn að vori.

 

Umræður voru um að auka sjálfboðaliðastarf og deila jafnvel verkefnum niður á hverfin. Rætt var um að auka framboð í sölubásum og hvetja heimamenn til að selja vörur sínar líkt og á bændamörkuðum. Allnokkrar umræður voru um dagskráratriði og fyrirkomulag á kökuhlaðborði sem og viðburðum á laugardagskvöldi. Verður þetta allt tekið til nánari skoðunar með næsta framkvæmdastjóra. Menningarmálanefnd þakkar framkvæmdastjóra vel unnin störf og jafnframt þakkar framkvæmdarstjóri menningarmálanefnd fyrir samstarfið.

 

Í framhaldi af umræðum um starfstíma framkvæmdarstjóra vill menningarmálanefnd koma með eftirfarandi tillögu: "Menningarmálanefnd mælir með því að framkvæmdastjóri Hamingjudaga verði ráðinn í hlutastarf, að lágmarki í 9 mánuði, þannig að hann hefji störf í september og laun dreifist þar með á lengri tíma."

 

Eftir nokkrar umræður var ákveðið að halda Hamingjudaga á næsta ári í 26. viku sumars eða á tímabilinu 30. júní – 3. júlí.


4. Önnur mál.
Nú í haust verður 100 ára afmæli skólahalds á Hólmavík og hefur komið upp sú hugmynd að setja upp ljósmyndasýningu í tilefni þess. Menningarmálanefnd langar að hvetja sveitarstjórn til að koma uppsetningu á sýningu um sögu skólans í máli og myndum í réttan farveg.

 

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða. Fleira ekki fyrir tekið og fundi slitið kl. 20.00.

 

Salbjörg Engilbertsdóttir (sign)

Jón Alfreðsson (sign)

Lýður Jónsson (sign)

Steinunn Þorsteinsdóttir (sign)

Ester Sigfúsdóttir (sign)

 

ATH: Fundargerðin var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar 27. júlí 2010.

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón