A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Íţrótta- og tómstundanefnd - 12. janúar 2011

Fundur í Íþrótta- og tómstundanefnd í Grunnskólanum á Hólmavík, miðvikudaginn 12. janúar 2011 kl. 17:00.


Mættir voru: Vala Friðriksdóttir, Jón Trausti Guðlaugsson, Kristjana Eysteinsdóttir og Hildur Guðjónsdóttir.


Rætt var um að ákveðið hefur verið að sameina Íþrótta- og tómstundanefnd og Menningarmálanefnd í einu og sömu nefndina og því er þetta síðasti fundur Íþrótta- og tómstundanefndar í þeirri mynd sem hún hefur verið.  Íþrótta- og tómstundanefnd styður þessa ákvörðun og telur að starf Menningar- og tómstundanefndar geti orðið hagstætt, árangursríkt og farsælt fyrir Strandabyggð. Skipað verður í nýja nefnd á sveitarstjórnarfundi þann 18. janúar n.k. Nefndarmenn þakka hvor öðrum samstarfið.

Rætt var um ráðningu tómstundafulltrúa í Strandabyggð í 70% starf. Nefndin fagnar ráðningunni og lýsir ánægju með þau fjölbreyttu og áhugaverðu verkefni sem hann mun sinna sem tengjast menningarmálum, tómstunda- og íþróttastarfi í sveitarfélaginu og hafa yfirumsjón með þeim málaflokkum. Nefndin hvetur íbúa til að snúa sér til tómstundafulltrúans með hugmyndir sem þeir kunna að hafa og vilja koma í framkvæmd.


1. Staðardagskrá 21 fyrir Strandabyggð - Útivist og lífstíll.


Nefndarmenn hafa kynnt sér Staðardagskrá 21 frá árinu 2007 og koma hér með ýmsar viðbætur. Okkur reyndist afar erfitt að afmarka viðfangsefnið Lífstíll og setjum því niður allt það sem var rætt þó að við gerum okkur grein fyrir að eitthvað tilheyri kannski öðrum málaflokkum.

Staðan:


Félag eldri borgara í Strandabyggð er virkur og góður félagsskapur. Handverk og föndur hefur verið ómissandi þáttur í þeirra starfi og eru þau með virkan gönguhóp sem gengur sér til heilsubótar. Á sumrin hafa svo eldri borgarar fjölmennt í ferðir á vegum félagsins og tekið þátt í Hamingjudögum með ýmsum hætti.


Leikvellir á Hólmavík hafa verið í lélegu ástandi og hefur lítið sem ekkert verið gert til þess að bæta úr því. Við Grunnskólann er gervigrasvöllur og hellur voru lagðar upp við skólann og hefur umhverfi skólans verið nýtt frekar mikið til útiiðkunar og býður upp á ýmsa möguleika. Hugmyndir hafa verið ræddar um útivistarsvæði eða útikennslustofu fyrir ofan skólann og farið var af stað með matjurtagarð ofan við skólann en starfið var ekki nógu árangursríkt þar sem ekki var neinn til að sjá um það.


Þátttaka fullorðinna í skipulögðum íþróttum er einhver en hefur farið minnkandi á undanförnum árum. Má helst nefna badminton, fótbolta og skíði. Nokkuð er um að menn stundi skokk og heilsubótargöngur. Gönguhópurinn Gunna fótalausa er virkur þar sem allir íbúar Strandabyggðar eru hvattir til að slást í för um umhverfi Strandabyggðar í hádeginu á þriðjudögum.


Geislinn hefur boðið upp á íþróttaæfingar í fótbolta, körfubolta, badminton og boðið upp á kynningu á ýmsum íþróttagreinum fyrir ungmenni á aldrinum 6-16 ára.


Skíðafélag Strandamanna hefur haldið skíðaæfingar á gönguskíðum yfir háveturinn.


Á Hólmavík er starfræktur golfklúbbur og er starfið þar blómlegt og vaxandi. Reistur var glæsilegur golfskáli í sjálfboðavinnu og hafa félagsmenn boðið upp á golfkynningu og leiðsögn í íþróttinni sem nýtist bæði ungum sem öldnum.


Heilsuklúbbar hafa verið starfandi þar sem fólk vinnur að bættu mataræði og aukinni hreyfingu. Hjúkrunarfræðingur Heilbrigðisstofnunarinnar hefur boðið upp á ráðgjöf og eftirfylgni.


Hestamennska stundið og reiðnámskeið hafa verið haldin hjá Strandahestum við Víðidalsá fyrir alla aldurshópa.


Skautasvell var útbúið og viðhaldið við Galdrasýninguna í sjálfboðavinnu einn veturinn. Einnig hefur Galdrasýningin boðið upp á bíósýningar fyrir yngri kynslóðina.


Leiklistarnámskeið hafa verið haldin á vegum Leikfélags Hólmavíkur fyrir unga sem aldna.


Ýmsir menningar- lista- og tómstundatengdir viðburðir eru haldnir í Grímeyjarhúsi, sem nú er kallað Skelin, í tengslum við fræði- og listamannadvöl í húsinu á vegum Þjóðfræðistofu á Ströndum. Þjóðfræðistofa hefur einnig staðið fyrir árlegu húmorsþingi sem hefur verið vel sótt af heimamönnum.


Grunnskólinn á Hólmavík flaggaði nú Grænfánanum í fyrsta sinn í vor. Grænfáninn er afhentur í tvö ár í senn en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skólinn vann ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla.


Grunnskólinn á Hólmavík tók þátt í verkefninu Göngum í skólann sem var átak í eina viku þar sem nemendur og starfsfólk gekk, hjólaði eða skokkaði á virkan til og frá skóla í eina viku. Endað var sameiginlegri gönguferð og heilbrigðum skemmtilegheitum.


Strandabyggð tók þátt í Vistvernd í verki sem er alþjóðlegt samfélagsverkefni sem leiðbeinir þátttakendum í leit þeirra að sjálfbærum lífsstíl og samfélagi. Boðið var upp á námskeiði Vistverndar í verki og þátttaka í visthópi sem er afar árangursrík leið til að taka upp vistvænni lífsstíl. Lögð er áhersla á einfaldar breytingar á lífsstíl og að þátttakendur velji aðgerðir og breytingar sem þeim finnst áhugaverðar. Þegar talað er um að verkefnið snúist um sjálfbæran lífsstíl er meðal annars vísað til þess að unnið er að betri nýtingu auðlinda og minni mengun en einnig til þess að, á sama tíma er horft til fjármála heimilisins, heilsu, vellíðan og virkri þátttöku í samfélaginu.


Í Sævangi og í nágrenni hans hefur farið fram margvíslegt starf sem kemur að útivist og lífstíl. Þar er stór íþróttavöllur og hefur HSS haldið sín héraðsmót þar. Einnig hefur Sauðfjársetur á Ströndum haldið hina ýmsu viðburði eins og gönguferðir, hreiðurgöngu um Orrustutanga þar sem merkt voru æðarhreiður og lífríki fjörunnar skoðað og fjörudag í samstarfi við ferðaþjónustuna á Kirkjubóli. Einnig má nefna furðuleikana sem er íþróttahátíð fyrir alla fjölskylduna þar sem keppt er í ýmsum furðugreinum, dráttavélahátíð og töðugjöld og Íslandsmeistaramót í hrútadómum.


Boðið hefur verið uppá bátsferðir og sjóstöng og einhverjir hafa stundað sjósund.


Þökur voru lagðar á völlinn í Brandskjólum.


Útbúinn var göngustígur út á Grundir.


Útbúið var kort af svæðinu, bæði sett á stórt skilti við komu inn í bæinn og á kort fyrir ferðamenn (dreifildi).


Haldið var námskeið fyrir starfsmenn stofnana og fyrirtækja um umhverfisvænni starfshætti.


Strandamenn fóru að flokka rusl og skila til endurvinnslu Sorpsamlagsins á Skeiði og kemur nú ruslabíll til að taka heimilissorp á hálfs mánaðar fresti í stað vikulega. Gefinn var út bæklingur til að upplýsa íbúa um endurvinnslu og leiðir við hana.

 

Stefna:

Íbúar og gestir séu hvattir til að nýta fallegt umhverfi í sveitarfélaginu til útivistar, sér til ánægju og heilsubótar. Sveitarfélagið verði þekkt fyrir góða aðstöðu til útivistar og heilbrigðan lífstíl íbúanna.

Verkefni:


Halda áfram framkvæmdum við Brandskjól.


Leikvellir sveitarfélagsins verði endurbættir, þannig að öryggi barna sé tryggt.


Göngustígar og gönguleiðir verði byggðar upp og haldið við og hugað sé að góðri lýsingu á þeim.


Merkja gönguleiðir vel og koma fyrir söguskiltum um leiðirnar og ýmis kennileiti.


Unnið sé markvisst í því að útbúa og skipuleggja útivistarsvæði fyrir ofan Grunnskólann.

Hugmynd um að merki sem vísar á gönguleiðina að minnismerki um Stefán frá Hvítadal, verði sett upp hjá söluskála.

Boðið verði upp á fjölbreyttari íþróttir og líkamsrækt fyrir alla aldurshópa t.d. leikjanámskeið, krakkasprikl, skauta, línuskauta, hjólabretti, hokkí og að farið verði í átaksverkefni sem stuðlar að því að fólk nýti betur þá frábæru aðstöðu sem við höfum með sundlaug og Íþróttamiðstöð.


Átak verði gert í að fá fólk til að drepa á bílum milli ferða.


Leggja okkur fram um að skoða möguleika á að að bæta gæði og þjónustu stranda og smábátahafna og stuðla að verndun umhverfis. Skoða verkefni í kringum Bláfánann en það er alþjóðlegt umhverfismerki sem hefur þann tilgang að stuðla að verndun umhverfis hafna og baðstranda. Bláfánann hljóta þeir einir sem leggja sig fram um Bláfáninn er tákn um að umhverfismál, öryggismál og umhverfisfræðslumál eru í hávegum höfð hjá handhöfum fánans.


Hvatt verði til þess að fólk gangi meira milli staða, t.d. börnin séu ekki keyrð í skólann ef veður er þokkalegt.


Hvatt verði til almennrar, daglegrar hreyfingar barna og íbúar sameinist í að kenna börnum útileiki.


Tekin verði upp vistvæn innkaup á vegum sveitarfélagsins.


Styðja við þáttöku Grunnskólans í Grænfánanum og stefna að því að Leikskólinn Lækjarbrekka taki þátt einnig þátt í Grænfánanum.


Unnið verði markvisst í því að fegra ásýnd bæjarins.


Tekið sé til á og við Skeiði þar sem komið er inn í bæinn.


Búið verði til þökulagt torg á svæðinu við Galdrasýninguna sem getur verið nokkurs konar hjarta bæjarins með fallegum blómum, bekkjum og t.d. útilistaverki Einars Hákonarsonar eða afsteypu af risaskjaldbökunni sem veiddist í Steingrímsfirði.


Að nýttar séu þær náttúruauðlindir sem Strandabyggð hefur upp á að bjóða.


Fegra og skipuleggja gámasvæði við smábátahöfn.

 

Fleira var ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 18.45.

Vala Friðriksdóttir (sign)
Jón Trausti Guðlaugsson (sign)
Kristjana Eysteinsdóttir (sign)
Hildur Guðjónsdóttir (sign)

ATH: Fundargerðin var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar 18. janúar 2011

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón