A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur nr. 1350 í Strandabyggđ 12.09.2023

Sveitarstjórnarfundur nr. 1350 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 12. september kl. 16.00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson, Jón Sigmundsson, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Viðauki III við fjárhagsáætlun 2023 – til afgreiðslu
2. Fjárhagsáætlun 2024-2027, skipulag – til afgreiðslu
3. Breyting á fyrirkomulagi skólamötuneytis – til afgreiðslu
4. Staða í framkvæmdum við grunnskóla ásamt aðaluppdrætti– til afgreiðslu
5. Endurgerð leikskólalóðar – til afgreiðslu
6. Erindi frá slökkviliðsstjóra, ósk um aukið fjárframlag til slökkviliðs – til afgreiðslu
7. Erindi frá Steinunni Magney Eysteinsdóttur f. hönd foreldra varðandi flutning Lillaróló – til afgreiðslu
8. Sameiningarviðræður – til afgreiðslu
9. Sterkar Strandir, umsókn um áframhald – til afgreiðslu
10. Breytingar á nefndarskipan – til afgreiðslu
11. Fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar frá 7. september 2023 – til afgreiðslu
12. Minnisblað Orkubú Vestfjarðar v. hleðsluinnviða 6.september 2023 – til afgreiðslu
13. Hornsteinar, ársreikningur ásamt fundargerð aðalfundar 14. ágúst 2023 – til kynningar
14. Erindi frá Óbyggðanefnd um niðurstöður þjóðlendumála í Ísafjarðarsýslum – til kynningar
15. Skipulagsstofnun, álit um matsáætlun Kvíslatunguvirkjunar – til kynningar
16. Erindi frá Samkeppniseftirliti, rannsókn á alvarlegu samráði á flutningamarkaði – til kynningar
17. Forstöðumannaskýrslur – til kynningar
18. Vinnuskýrsla sveitarstjóra í ágúst– til kynningar og umræðu
19. Fjórðungsþing nr. 68 haldið í Bolungarvík 6.-7. október 2023 – til kynningar
20. Innviðaráðuneytið, hvatning um mótun málstefnu 5.september 2023
21. Stjórn Hafnasambands Íslands fundargerð nr. 454 frá 18. ágúst 2023 –til kynningar
22. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð nr. 144 frá 7. september 2023 ásamt fjárhagsáætlun 2024 og drögum að gjaldskrá – til kynningar


Þorgeir Pálsson oddviti bauð fundarmenn velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið. Matthías Lýðsson gerir athugasemd við fundarboðið og tekur fram að orðalag á nokkrum fundargögnum sé á þann hátt að um sé að ræða minnisblað sveitarstjórnar en hann vill taka fram að um sé að ræða minnisblað sveitarstjóra.


Oddviti leggur til afbrigði við fundinn, þar er erindi sem barst í dag frá fulltrúa A lista, Hlífar Hrólfsdóttur og snýr að áhyggjum hennar yfir stöðu barna og barnafjölskyldna í sveitarfélaginu.


Oddviti leggur til að afbrigið verði samþykkt og að það verði nr. 23 í dagskrá og beri heitið Erindi frá Hlíf Hrólfsdóttur varðandi stöðu í málum barna og barnafjölskyldna


Þá var gengið til dagskrár:


1. Viðauki III við fjárhagsáætlun 2023 – til afgreiðslu


Oddviti fór lauslega yfir forsendur þessa viðauka.


Lagður er fram svohljóðandi viðauki III við fjárhagsáætlun Strandabyggðar vegna ársins 2023:


Gjöld: Framkvæmdir við grunnskólann kalla á umframkostnað og má þar nefna; klæðningu í loft, dúk á gólf, málun húsnæðis, frágang drenlagna, millihurðir, nýjan ljósabúnað, innanstokksmuni ofl. Þessi kostnaður er áætlaður kr. 70 milljónir til áramóta.


Hækkun fjárfestingakostnaðar við grunnskóla kr. 20.000.000 og fer úr 50.000.000 í 70.000.000 sem tekið verður af eigin fé sveitarfélagsins.


Matthías nefnir aðrar framkvæmdir sem voru á áætlun ársins 2023 en er ekki lokið.


Bókun A-lista:
„Í svari við fyrirspurn Guðfinnu Láru Hávarðardóttur vegna réttarbyggingar í Kollafirði segir oddviti: „Þetta verkefni, eins og svo mörg önnur sem voru á fjárhagsáætlun 2023, frestast til næsta árs, vegna áherslu á uppbyggingu og viðgerða á grunnskólanum.“ Ekki hefa verið teknar ákvarðanir í sveitarstjórn um frestun réttarsmíði né tekin afstaða til „margra annara ónefndra verkefna“. Slíkar ákvarðanir eru teknar á sveitarstjórnarfundum. Ekki hefur ennþá verið gerður viðauki í fjárhagsáætlun þar sem fjármagn er tekið úr verkefnum og sett í grunnskólann eða önnur verk.“
Þorgeir svaraði og sagði að ef breytingar væru á framkvæmdum þarf að gera viðauka. Jafnframt tók hann fram að í þessum miklu framkvæmdum við grunnskólann þætti gott ef kostnaður yrði ekki hærri en sem komið er.

Oddviti lagði til að viðaukinn yrði samþykktur. Samþykktur samhljóða.


2. Fjárhagsáætlun 2024-2027, skipulag – til afgreiðslu


Oddviti fór yfir fyrirkomulag fjárhagsáætlanagerðar og lagði áherslu á mikilvægi þess að forstöðumenn kæmu virkir inn í þá vinnu, sem og að sveitarsjórn gæfi sér tilætlaðan tíma í vinnufundi og heimavinnu vegna þessa. Eins undirstrikaði oddviti að nú yrðu sett skýr, fjárhagsleg markmið, undir handleiðslu Haraldar Líndal Haraldssonar. Að venju verður stuðst við aðstoð endurskoðenda sveitarfélagsins frá KPMG.


Oddviti lagði til að þetta fyrirkomulag yrði samþykkt. Matthías leggur til að kallað verði eftir tillögum frá íbúum varðandi sparnað eða útgjöld. Samþykkt samhljóða.

3. Breyting á fyrirkomulagi skólamötuneytis – til afgreiðslu


Oddviti rakti tilurð þessa máls. Vegna fækkunar skráninga í mötuneyti hefur verktaki sagt sig frá samningi. Brugðist var við og starfsmenn á hvorum stað tóku að sér tímabundið að sjá um mötuneytið. Sveitarstjórn vill taka fram þakkir fyrir skjót viðbrögð og tekur fram að ábendingum skal beina til skrifstofuhalds frekar en einstakra starfsmanna.
Strandabandalagið leggur til að samið verði við starfsmenn skólans um stöðu matráða fram til áramóta, til reynslu, og staðan endurmetin þá. Gerðar verði viðeigandi breytingar á starfslýsingu þeirra og aðrir verkþættir leystir.

Samþykkt samhljóða.


4. Staða í framkvæmdum við grunnskóla ásamt aðaluppdrætti– til afgreiðslu


Oddviti rakti stöðu mála við grunnskólann. All flestir verkþættir hafa verið skilgreindir og fyrir liggja kostnaðartölur þar að lútandi.
Strandabandalagið leggur til að sveitarstjóra verði falið að koma öllum eftirstandandi verkþáttum í framkvæmd, með því að:
• Staðfesta öll framkomin tilboð frá verktökum, í samráði við verkefnastjóra á vegum VERKÍS
• Gera verðfyrirspurn varðandi lagningu gólfdúks í yngri hluta skólans.

Mikilvægt er að koma öllum verkþáttum í lokaferli framkvæmda. Matthías tekur fram að útlitsbreytingar hússins verði lagðar fram í Umhverfis- og skipulagsnefnd. Jón lýsir yfir ánægju sinni á nýtingu hússins.

Samþykkt samhljóða.


5. Endurgerð leikskólalóðar – til afgreiðslu


Oddviti rakti tilurð þess að fyrirtækið Litli Klettur gerði tilboð í frágang á lóðinni. Þar er um að ræða frágang sem tekur mið af þeim gögnum sem fyrir lágu og byggja á hugmyndavinnu krakkana, kennara, foreldra og sveitarstjórnar, auk gagna frá Landmótun.

Hlíf spyr út í magnskrá og hvers vegna hún hafi ekki verið gerð fyrr. Þorgeir tekur fram að ekki hafi verið kallað eftir henni en Landmótun hafi unnið hana fyrir sveitarfélagið skv. beiðni. Verðfyrirspurnir bárust frá aðilum en tilboð bárust ekki. Matthías fór yfir magnskrána og kynnti sér samanburð úr líkaninu Hannarr og telur ólíklegt að miklu magni efnis þurfi að keyra úr og í lóðina eins og magnskráin gefur til kynna og líka geti verið erfitt að hafa starfssemi í leikskólanum í gangi á meðan.

Matthías Sævar Lýðsson leggur fram eftirfarandi bókun:

„Endurbætur á leikskólalóðinni eru mjög mikilvægar þar sem hún er í slæmu ástandi. Auglýst var eftir verðhugmynd 15. maí. Einungis var gefin vika í að koma með verðhugmynd. Þeir sem leituðu eftir gögnum fengu ófullnægjandi gögn og óskuðu eftir betri gögnum sem þeir fengu ekki. Reyndar fengu ekki allir gögn sem leituðu eftir því. Það kemur svo í ljós að ítarlegri gögn voru unnin í lok ágúst og einn aðili fékk þau gögn til að gera tilboð.
Þegar óskað er eftir verðfyrirspurn er gert ráð fyrir allir fái sömu gögn og geti því komið með verðtilboð eftir þeim gögnum. Með því að taka einn aðila fram yfir aðra er verið að mismuna aðilum eitthvað sem sveitarfélag á ekki að gera. Með því að velja aðkomufélag til að gera þetta „heildartilboð“ og ganga framhjá heimamönnum er sveitarfélagið að hafa af sér skatttekjur og flytja atvinnu og tugmilljóna króna tekjur út úr sveitarfélaginu.
Ég lýsi fullri ábyrgð á þessum málatilbúnaði á hendur meirihluta sveitarstjórnar.“

Þorgeir hafnar þessu alfarið og segir þetta rangt og hægt hefði verið að kalla eftir frekari gögnum á þeim tíma þegar upphaflega var auglýst eftir tilboðum.

Strandabandalagið leggur fram eftirfarandi bókun:

„Strandabandalagið hafnar alfarið þessum málatilbúnaði og vísar í upptöku á sveitarstjórnarfundi sem nú er til. Það að tengja saman verðkönnun sem gerð var snemma sumars og viðræðum við verktaka sem fara fram í ágúst gengur einfaldlega ekki upp og er ekki sannleikanum samkvæmt. Strandabandalagið vísar öllum þessum ásökunum á bug og hvetur Matthías til þess að horfa á þá lausn sem nú liggur fyrir í þessu mikilvæga máli í stað þess að grafa undan stöðunni eins og gert er með þessari bókun Matthíasar“.

Jón leggur til að leitað verði til verkefnastjóra Verkís varðandi frekari útfærslu.

Strandabandalagið leggur til að samið verði við Litla Klett um þá framkvæmd sem rúmast innan fjárhagsáætlunar, eða allt að kr. 15 milljónir. Lagt er upp með að þeir verkþættir verði unnir nú á haustmánuðum. Þar er um að ræða jarðvegsvinnu og uppsetningu girðingar og steyptra veggja. Nánari og ítarlegri útfærsla verði unnin af fulltrúum Litla Kletts, sveitarstjóra, starfsmönnum áhaldahúss og verkefnastjóra Verkís.

Jafnframt er lagt til að gengið verði til samninga um þá verkþætti sem eftir verða. Samningsdrög verða lögð fyrir sveitarstjórn hið fyrsta.

Samþykkt með þremur atkvæðum Strandabandalagsins, fulltrúar A-lista sitja hjá.


6. Erindi frá slökkviliðsstjóra, ósk um aukið fjárframlag til slökkviliðs – til afgreiðslu


Sveitarstjórn þakkar slökkviliðsstjóra erindið en óskar á móti eftir nákvæmari sundurliðun varðandi kostnað við hugsanleg útköll til áramóta. Ekki er svigrúm til að mæta ósk um aukinn kostnað vegna frekari æfinga fram til áramóta.

Samþykkt samhljóða.


7. Erindi frá Steinunni Magney Eysteinsdóttur f. hönd foreldra varðandi flutning Lillaróló – til afgreiðslu


Sveitarstjórn fagnar erindinu og þakkar bréfritara fyrir áhugann. Það er ljóst að Lilla róló þarf að víkja fyrir íbúðabyggingu og því þarf að finna nýjan stað fyrir leikvöll með sama nafni. Tvær staðsetningar hafa verið ræddar; við matsal Krambúðarinnar og við ærslabelginn. Rétt er að bera málið undir stjórn Hornsteina, sem lóðarhafa Krambúðarinnar.
Sveitarstjórn staðfestir að hún muni taka jákvætt í að aðstoða við uppsetningu leiktækja, þegar þar að kemur.
Sveitarstjóra er falið að ræða við fulltrúa Hornsteina og undirbúa mat á þessum tveimur staðsetningum, kostum og göllum.
Matthías nefnir að fleiri staðsetningar hafi verið nefndar og leggur til að erindinu sé vísað til Umhverfis- og skipulagsnefndar til umfjöllunar.

Samþykkt samhljóða.

8. Sameiningarviðræður – til afgreiðslu

Strandabandalagið leggur til að sveitarstjórn sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu:


“Sveitarstjórn Strandabyggðar staðfestir hér með áhuga sinn á viðræðum við áhugasöm sveitarfélög um vænleika sameiningar og lýsir sig reiðubúna til viðræðna við fyrsta hentugleika”.


Lagt er til að sveitarstjórn hittist á vinnufundi og ræði sameiningarmál. Unnin var valkostagreining haustið 2021 sem eðlilegt er að taka tillit til.


Samþykkt samhljóða.


9. Sterkar Strandir, umsókn um áframhald – til afgreiðslu


Oddviti rakti tilurð málsins og gaf síðan oddvita A lista orðið.

Tillaga A-lista: Byggðaþróunarverkefninu Sterkar Strandir, sem er hluti af verkefninu Brothættar byggðir og unnið á vegum Byggðastofnunar og Vestfjarðastofu í samvinnu við sveitarfélagið Strandabyggð, lýkur í lok árs. Víðast þar sem verkefnið hefur verið í gangi, hefur það verið framlengt um eitt ár, enda er um að ræða mikilvæga aðstoð frá ríkisvaldinu til sveitarfélaga sem eiga í vök að verjast og standa höllum fæti vegna fólksfækkunar eða breytinga á aldurssamsetningu. Í Strandabyggð hefur verkefnið haft jákvæð áhrif á nýsköpun, atvinnulíf og mannlíf, eins og annars staðar þar sem það hefur verið í gangi.
Því er lagt til að Strandabyggð sæki hið fyrsta um framlengingu verkefnisins til eins árs og sveitarstjóra falið að að koma þeirri beiðni á framfæri til Byggðastofnunar.

Samþykkt samhljóða.

10. Breytingar á nefndarskipan – til afgreiðslu


Oddviti rakti fyrirhugaðar breytingar.

Eftir breytingar verður TÍM nefnd skipuð eftirfarandi:

Aðalmenn:
Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir formaður T
Þórdís Karlsdóttir T
Jóhann Björn Arngrímsson T
Magnea Dröfn Hlynsdóttir A
Jóhanna Guðbjörg Rósmundsdóttir A


Varamenn:
Magnús Steingrímsson T
Ótilnefndur fulltrúi T
Kristín Anna Oddsdóttir A
Esther Ösp Valdimarsdóttir A
Heiðrún Helga Hjörleifsdóttir fyrir íbúa


Sveitarstjórn ræddi beiðni Guðfinnu Magneyjar Sævarsdóttur um lausn frá setu í fræðslunefnd. Sveitarstjórn staðfestir beiðni Guðfinnu Magneyjar Sævarsdóttur og er hún þar með leyst frá setu í nefndinni út kjörtímabilið.


Samþykkt samhljóða.


Eftir breytingar verður Fræðslunefnd skipuð eftirfarandi:


Aðalmenn:
Þorgeir Pálsson formaður T
Heiðrún Harðardóttir T
Vignir Rúnar Vignisson T
Guðfinna Lára Hávarðardóttir A
Steinunn Magney Eysteinsdóttir A


Varamenn:
Ótilnefndur varamaður T
Guðjón Heiðar Sigurgeirsson T
Valgeir Örn Kristjánsson A
Steinunn Jóhanna Þorsteinsdóttir A
Hjördís Inga Hjörleifsdóttir fyrir íbúa


Eftir breytingar verður ADH nefnd skipuð eftirfarandi:


Aðalmenn:
Jón Sigmundsson formaður T
Óskar Hafsteinn Halldórsson T
Henrike Stuheff T
Björk Ingvarsdóttir A
Þórður Halldórsson A


Varamenn:
Marta Sigvaldadóttir T
Már Ólafsson T
Ragnheiður Ingimundardóttir A
Gunnar Númi Hjartarson A
Barbara Ósk Guðbjartsdóttir f. íbúa


Oddviti leggur til að sveitarstjórn samþykki nýja skipan þessara nefnda með vísan í sveitarstjórnarlög.
Samþykkt með þremur atkvæðum T-lista og Hlífar, Matthías situr hjá. Jón samþykkir með fyrirvara um að endanleg nefndarskipan verði lögð fyrir á næsta fundi.


11. Fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar frá 7. september 2023 – til afgreiðslu


Oddviti gaf formanni US nefndar orðið. Formaður rakti umræður fundarins.

Varðandi lið nr. 1 um Frisbígolfvöll. Tillögum um staðsetningu verði beint til US og TÍM nefnda, skrifstofustjóra falið að auglýsa eftir tillögum.


Varðandi lið nr. 2 erindi frá íbúum Kópnesbrautar. Sveitarstjórn samþykkir tillögur nefndarinnar en lagt er til að tengja úrvinnslu á endurbótum við áður framkomið erindi um breytingar á Bröttugötu. Samþykkt samhljóða.


Varðandi lið nr. 3 umsókn um byggingarleyfi fyrir spennustöð á Nauteyri. Samþykkt samhljóða.


Varðandi lið nr. 4 deiliskipulag í Skeljavík. Jón tekur fram að fara þurfi varlega á vatnsverndarsvæðum við skipulag sumarbústaðalóða. Samþykkt samhljóða.


Varðandi lið nr. 5 um óleyfilegan rekstur í ferðaþjónustu í Strandabyggð. Strandabandalagið telur að nú þegar sé eftirlit með ferðaþjónustu og það er ekki á vegum sveitarfélagsins.


Varðandi lið nr. 7 umsókn um rekstarleyfi frá Galdur brugghús. Samþykkt samhljóða.


Að öðru leiti er fundargerðin lögð fram til kynningar.


12. Minnisblað Orkubú Vestfjarðar v. hleðsluinnviða 6. september 2023 – til afgreiðslu


Oddviti gaf formanni US nefndar orðið. Matthías rakti að erindið hafi verið tekið fyrir á síðasta fundi sveitarstjórnar en þá hafi afgreiðsla fundarins verið sú að óskað hafi verið frekari gagna. Nú hefur borist svar frá Orkubúi Vestfjarða með nánari útfærslu og leggur formaður til að teikning verði kynnt fyrir íbúum og eigendum íbúða í Miðtúni 15 – 19 sem og fasteignafélaginu Hornsteinum ehf. og leigjendum þess. Byggingarfulltrúa er falið að útbúa kynninguna. Lagt er til að flýta þessu ferli eins og hægt er og að erindið verði fullafgreitt á næsta sveitarstjórnarfundi.


Samþykkt samhljóða.


13. Hornsteinar, ársreikningur ásamt fundargerð aðalfundar 14. ágúst 2023 – til kynningar


Lagt fram til kynningar


14. Erindi frá Óbyggðanefnd um niðurstöður þjóðlendumála í Ísafjarðarsýslum – til kynningar


Lagt fram til kynningar. Matthías tekur til máls og telur þetta ekki hafa áhrif á landnýtingu í Strandabyggð.


15. Skipulagsstofnun, álit um matsáætlun Kvíslatunguvirkjunar – til kynningar


Lagt fram til kynningar


16. Erindi frá Samkeppniseftirliti, rannsókn á alvarlegu samráði á flutningamarkaði – til kynningar


Lagt fram til kynningar


17. Forstöðumannaskýrslur – til kynningar


Lagðar fram til kynningar


18. Vinnuskýrsla sveitarstjóra í ágúst– til kynningar og umræðu


Lögð fram til kynningar og umræðu. Oddviti gaf orðið laust. Matthías óskaði eftir minnisblaði um heimsókn sveitarstjóra til matvælaráðherra, upplýsingum um stöðuyfirlit stýrihóps um viðbrögð við lokun Hólmadrangs og stöðu á vinnu við sameiginlega byggingarnefnd. Þorgeir fór yfir umrædd verkefni og tók fram að rætt hefði td. verið um skjalaskönnun og sértækan byggðakvóta. Þorgeir fór sömuleiðis yfir umræður við matvælaráðherra og samræður við nágrannasveitarfélögin um sameigninlega umhverfis, skipulags- og byggingarnefnd.


19. Fjórðungsþing nr. 68 haldið í Bolungarvík 6.-7. október 2023 – til kynningar


Lagt fram til kynningar. Oddviti kannaði mætingu fulltrúa sveitarstjórnar á þingið.
Reiknað er með þátttöku sveitarstjórnar Strandabyggðar.


20. Innviðaráðuneytið, hvatning um mótun málstefnu 5. september 2023


Lagt fram til kynningar.


21. Stjórn Hafnasambands Íslands fundargerð nr. 454 frá 18. ágúst 2023 –til kynningar.


Lagt fram til kynningar.


22. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð nr. 144 frá 7. september 2023 ásamt fjárhagsáætlun 2024 og drögum að gjaldskrá – til kynningar.


Lagt fram til kynningar. Þorgeir tekur fram áhyggjur sínar af niðurskurði í embætti Heilbrigðiseftirlitsins.


23. Erindi frá Hlíf Hrólfsdóttur varðandi stöðu í málum barna og barnafjölskyldna


Oddviti gaf Hlíf Hrólfsdóttur orðið.

Hlíf rakti innihald bréfsins og lýsti áhyggjum sínum yfir stöðu mála varðandi hag barna og barnafjölskyldna í sveitarfélaginu.

Jón tekur til máls og deilir þessum áhyggjum en reiknar með að þegar sé verið að leggja til endurbætur á starfsumhverfi sé það hvetjandi og að fýsilegur kostur að sækja um laus störf og fyrir fólk að setjast hér að. Hann tekur einnig fram að ósanngjörn umræða um neikvætt andrúmsloft sé ekki hvetjandi. Við þurfum að vinna saman að lausn.

Sigríður deilir þessum áhyggjum en tekur fram að margt í þessu erindi sé í vinnslu og ýmislegt langt komið.

Þorgeir deilir þessum áhyggjum sömuleiðis en þykir miður neikvæð nálgun í erindinu og telur að allir hafi lagst á eitt að vinna í ýmsum úrlausnum og að þær séu í farvegi. Reynt sé að fylla upp í allar stöður en mögulega þurfi að bregðast við með tímabundinni þjónustuskerðingu. Við þurfum hins vegar að vera jákvæð og undirstrika þær lausnir og úrræði sem eru í farvegi.

Hlíf tekur fram að þetta sé ekki lagt fram í neikvæðum tilgangi heldur hvernig hægt sé að bregðast við með tillögum frá nefndum og foreldrasamfélaginu.

Matthías telur að til sé fullt af fólki sem vilji búa í okkar samfélagi og að þetta sé tímabundið ástand. Hér sé góður staður til að ala upp börn, stutt í náttúru og hér er gott samfélag.

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 19.07


Þorgeir Pálsson
Jón Sigmundsson
Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir
Matthías Sævar Lýðsson
Hlíf Hrólfsdóttir

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón