A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur í Strandabyggđ - 1331 10. maí 2022

Sveitarstjórnarfundur nr. 1331 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 10. maí 2022 í Hnyðju, Höfðagötu 3 á Hólmavík, og hófst fundurinn kl. 16:00. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Jón Gísli Jónsson oddviti, Guðfinna Lára Hávarðardóttir, Ásta Þórisdóttir, Pétur Matthíasson og Jón Jónsson sem jafnframt ritaði fundargerð. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri situr einnig fundinn.

Fundardagskrá er svohljóðandi:


1. Ársreikningur Strandabyggðar 2021 seinni umræða
2. Viðauki II
3. Minnisblað frá skrifstofustjóra staða 1. ársfjórðungs
4. Jafnlaunavottun Strandabyggðar
5. Brunavarnaráætlun Brunavarna Dala, Reykhóla og Stranda
6. Samningur við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Ströndum um verndarsvæði í byggð
7. Erindi Þorsteinn Sigfússon v. Miðtúns
8. Ráðning grenjaveiðiaðila á svæði 6
9. Forstöðumannaskýrslur
10. Samband sveitarfélaga fundargerð nr. 909, 27. apríl 2022
11. Hafnarsamband Íslands stjórnarfundur nr. 443, 1. apríl 2022


Oddviti bauð fundarmenn hjartanlega velkomna. Oddviti óskaði eftir að tekið væri fyrir sem afbrigði á fundinum, mál nr. 12: Fundargerð Velferðarnefndar Stranda og Reykhóla, 9. maí 2022, og mál nr. 13: Dómsmál nr. E-136/2021. Samþykkt samhljóða. Oddviti spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið, en þær voru engar.


Þá var gengið til dagskrár:


1. Ársreikningur Strandabyggðar 2021 seinni umræða

Ársreikningur Strandabyggðar fyrir árið 2021 lagður fram til seinni umræðu. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta var neikvæð um 39,5 millj. kr. en í A hluta var rekstrarniðurstaðan neikvæð um 28 millj. kr. Upphafleg fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 gerði ráð fyrir að neikvæðri niðurstöðu að upphæð 62,3 millj.

Skuldir og skuldbindingar A og B hluta nema samtals 862,5 millj. kr. skv. efnahagsreikningi.


Handbært fé frá rekstri í A og B hluta samanlögðum er 36,7 millj. kr. sem er mjög jákvæð breyting og viðsnúningur miðað við síðustu ár, en árið áður var handbært fé frá rekstri neikvætt um 47,6 millj. Rekstur sveitarfélagsins skilar þannig afgangi til að greiða af lánum og í framkvæmdir. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2022 nam 226,9 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 326,5 millj. kr.


Farið var yfir niðurstöður ársreiknings og þær ræddar. Helstu ástæður fyrir mun á fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 með samþykktum viðaukum og niðurstöðu ársreikningsins felast í uppreiknuðum lífeyriskuldbindingum og vaxtagjöldum sem eru töluvert hærri en áætlað var. Þá voru gerð mistök við samþykkt fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021 um áhrif af sölu Veitustofnunar sveitarfélagsins á ljósleiðara sem eru leiðrétt í reikningnum.

Ársreikningurinn samþykktur samhljóða og verður birtur á vef sveitarfélagsins, ásamt Endurskoðunarskýrslu fyrir 2021.


2. Viðauki II
Lagður fram svohljóðandi viðauki II við fjárhagsáætlun Strandabyggðar vegna ársins 2022.

„Tekjur:
a) Gatnagerðargjöld vegna nýbyggingar í Miðtúni, áætlaðar tekjur 3.200.000.-

Gjöld:
a) Kostnaður við færslu lagna vegna lóðaframkvæmda í Miðtúni kr. 2.000.000.-

Tekjuaukning í rekstri er þá í heild kr. 1.200.000.-

Framkvæmdir:
a) Endurbætur á klefum í Íþróttamiðstöð verða meiri en áætlaðar voru, m.a. vegna
skemmda frá lögnum og vilja til að úrbætur verði varanlegri. Gerð er tillaga um hækkun á fjárheimild til viðgerðanna um kr. 5.000.000.- á árinu 2022. Upphafleg áætlun fyrir þetta verkefni var upp á kr. 4.100.000.- en hækkar í kr. 9.100.000.-

b) Kaup á trjákurlara fyrir áhaldahús sem nýtist m.a. til að kurla timbur og greinar í
göngustígagerð, kr. 700.000.-

Útgjöld til framkvæmda hækka af þessum sökum um 5.700.000.- á árinu 2022 sem kemur
til lækkunar á eigin fé.“


Viðauki II samþykkur samhljóða.


3. Minnisblað frá skrifstofustjóra staða 1. ársfjórðungs
Lagt fram minnisblað frá skrifstofustjóra um stöðu verkefna og framkvæmda. Sveitarstjórn þakkar fyrir upplýsingarnar. Lagt fram til kynningar.


4. Jafnlaunavottun Strandabyggðar
Lagt fram til kynningar minnisblað frá skrifstofustjóra um vinnu við að fá jafnlaunavottun fyrir sveitarfélagið sem nú er á lokastigi. Samvinna er við Reykhólahrepp um að vinna verklagsreglur og skjöl þessu tengd. Forúttekt er þann 12. maí og vottunarúttekt 31. maí. Sveitarstjórn telur þennan áfanga afar mikilvægan og fagnar því að vinnunni sé að ljúka.

 

5. Brunavarnaráætlun Brunavarna Dala, Reykhóla og Stranda
Lögð fram Brunavarnaáætlun fyrir starfssvæði byggðasamlagsins Brunavarna Dala, Reykhóla og Stranda samkvæmt ákvæði í lögum um brunavarnir nr. 75/2000 sem tóku gildi 1. janúar 2001. Gildistími áætlunarinnar er frá 2022-2026. Sveitarstjórn samþykkir áætlunina samhljóða.


6. Samningur við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Ströndum um verndarsvæði í byggð
Lagður fram samningur Strandabyggðar við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum um vinnu við verkefnið Verndarsvæði í byggð sem er fullfjármagnað með styrk frá Húsafriðunarsjóði. Jón Jónsson og Jón Gísli Jónsson víkja af fundi. Salbjörg Engilbertsdóttir tekur við fundarritun. Sveitarstjórn samþykkir samninginn samhljóða. Sveitarstjórn fagnar því að mögulegt sé, að gera svo viðamikinn samning við stofnun í heimabyggð. Oddvita falið að skrifa undir samninginn. Jón Gísli Jónsson og Jón Jónsson taka aftur sæti á fundinum og sá síðarnefndi tekur aftur við fundarritun.


7. Erindi Þorsteinn Sigfússon v. Miðtúns
Lagt fyrir sveitarstjórn erindi frá Þorsteini Sigfússyni dags. 18. apríl 2022, um slæma umgengni, geymsludót, ökutæki og vinnuvélar í íbúagötunni Miðtúni á Hólmavík. Sveitarstjórn tekur eindregið undir með Þorsteini um mikilvægi þess að ganga vel um og gæta þess að slík ökutæki og lausamunir safnist ekki upp í íbúagötum. Bent er á að samkvæmt núgildandi umferðasamþykkt Strandabyggðar frá 1999 er óheimilt að leggja vöruflutninga- og hópferðabifreiðum, svo og þungavinnuvélum, í íbúagötum. Sveitarstjórn skorar á íbúa sem eiga slík ökutæki og vinnuvélar í Miðtúni og annars staðar í þorpinu að bæta ráð sitt og koma þeim fyrir á viðeigandi stað. Skrifstofustjóra og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins er falið að leita leiða til að fylgja málinu eftir.


8. Ráðning grenjaveiðiaðila á svæði 6
Tvær umsóknir bárust um grenjavinnslu á svæði 6 í Strandabyggð sem auglýst var í apríl. Samþykkt var samhljóða að fela oddvita að ganga frá ráðningu í starfið.


9. Forstöðumannaskýrslur
Lagðar fram til kynningar. Sveitarstjórn þakkar forstöðumönnum fyrir skýrslurnar.


10. Samband sveitarfélaga fundargerð nr. 909, 27. apríl 2022
Fundargerð, lögð fram til kynningar.


11. Hafnarsamband Íslands stjórnarfundur nr. 443, 1. apríl 2022
Fundargerð, lögð fram til kynningar.


12. Fundargerð Velferðarnefndar Stranda og Reykhóla, 9. maí 2022
Lögð fram fundargerð frá 49. fundi í Velferðarnefnd Stranda og Reykhóla sem haldinn var mánudaginn 9. maí 2022. Sveitarstjórn samþykkir fundargerðina samhljóða.

 

13. Dómsmál nr. E-136/2021
Oddviti greinir frá því að í samráði við sveitarstjórn og með fullu samþykki hennar hafi verið sótt um leyfi til áfrýjunar til Landsréttar á dómi Héraðsdóms Vestfjarða í dómsmáli E-136/2021, sem höfðað var gegn sveitarfélaginu. Sveitarstjórn staðfestir þessa ákvörðun einum rómi og samþykkir eftirfarandi bókun:


“Sveitarstjórn telur, að fenginni ráðgjöf, að dómafordæmi úr Hæstarétti sýni að dómur Héraðsdóms um miskabætur sé rangur. Óeðlilegt sé að dæma miskabætur þegar uppsögnin sjálf sé lögleg og enginn vafi leiki á því að svo sé í þessu tilviki. Uppsögnin var í fullu samræmi við ráðningarsamning og þær aðferðir sem tíðkast í sambærilegum tilvikum. Eins telur sveitarstjórn eðlilegt að verja hagsmuni sveitarfélagsins gagnvart því að þurfa að greiða málskostnað, þegar um sé að ræða tilhæfulausar málssóknir. Mikilvægt sé að fá úr þessu skorið vegna fordæmisgildis dómsins.”


Sveitarstjórn vill að lokum þakka starfsfólki sveitarfélagsins og nefndarmönnum, sem hafa unnið með henni að margvíslegum krefjandi verkefnum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, með heill og framtíð byggðalagsins í huga, kærlega fyrir gott samstarf.


Fundargerðin yfirfarin og samþykkt.

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 17:42.


Jón Gísli Jónsson
Guðfinna Lára Hávarðardóttir
Ásta Þórisdóttir
Pétur Matthíasson
Jón Jónsson

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón