A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1339 í Strandabyggđ 13.desember 2022

Sveitarstjórnarfundur nr. 1339 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 13. desember kl. 16:00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson, Jón Sigmundsson, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:
1. Breyttar áherslur á framkvæmd sveitarstjórnarfunda
2. Fjárhagsáætlun Strandabyggðar 2023 og þriggja áætlun 2024-2026, seinni umræða lögð fram til afgreiðslu
3. Gjaldskrár Strandabyggðar, lagðar fram til afgreiðslu
4. Viðauki VI, lagður fram til afgreiðslu
5. Minnisblað v. Grunnskólans á Hólmavík, niðurstöður Eflu og staða skólahúsnæðis, lagt fram til afgreiðslu
6. Minnisblað v. mötuneytisgjalds grunn- og leikskóla í desember, lagt fram til afgreiðslu
7. Tilboð í Skólabraut 20, lagt fram til afgreiðslu
8. Samband sveitarfélaga, álit siðanefndar um meint brot á siðareglum Strandabyggðar, lagt fram til kynningar
9. Svar Innviðaráðuneytis varðandi meinta ólögmæta stjórnsýslu sveitarfélagsins við ráðningu sveitarstjóra, lagt fram til kynningar
10. Erindi frá Hafdísi Sturlaugsdóttur varðandi fundarsköp Strandabyggðar, lagt fram til kynningar
11. Erindi frá A-lista varðandi frístundastyrki, lagt fram til afgreiðslu
12. Sorpsamlag Strandasýslu, stjórnarfundir 7. september og 24. október 2022. Lagt fram til afgreiðslu
13. Sorpsamlag Strandasýslu, samþykki sveitarfélags v. lántöku, lagt fram til afgreiðslu
14. Minnisblað, breytt fyrirkomulag skipulags- og byggingarmála, lagt fram til afgreiðslu
15. Skíðafélag Strandamanna, erindi vegna vegar að skíðasvæði, lagt fram til afgreiðslu
16. Skíðafélag Strandamanna, ársr. 2021, lagður fram til afgreiðslu styrktarsamnings 2022
17. Fjórðungssamband Vestfirðinga kostnaðarrammi v. gerðar svæðisskipulags, lagður fram til afgreiðslu
18. Skipan fulltrúa í Vatnasvæðanefnd, lagt fram til afgreiðslu
19. Erindi frá Byggðasafninu á Reykjum varðandi samning um rekstur, lagt fram til afgreiðslu
20. Forstöðumannaskýrslur, lagðar fram til kynningar
21. Vinnuskýrsla sveitarstjóra, lögð fram til kynningar
22. Tómstunda, íþrótta- og menningarnefnd fundargerð 14. nóvember 2022, lögð fram til afgreiðslu
23. Velferðarnefnd fundargerð 23.nóvember 2022, lögð fram til afgreiðslu
24. Atvinnu, dreifbýlis- og hafnarnefnd fundargerð 5. desember 2022, lögð fram til afgreiðslu
25. Umhverfis- og skipulagsnefnd fundargerð 12. desember 2022, lögð fram til afgreiðslu
26. Brunavarnir Dala, Reykhóla- og Stranda bs frá 10. nóvember 2022, lögð fram til kynningar
27. Samband sveitarfélaga fundargerð nr. 915 frá 25. nóvember 2022, lögð fram til kynningar
28. Samband sveitarfélaga erindi varðandi breytingar í barnaverndarþjónustu sveitarfélaga, lagt fram til kynningar
29. Náttúrustofa Vestfjarða fundargerð nr. 138 frá 25. nóvember 2022, lögð fram til kynningar
30. Hafnarsamband Íslands fundargerð nr 447 frá 18. nóvember 2022, lögð fram til kynningar


Fundurinn hófst 16.10 vegna vandamála við útsendingu.


Þorgeir Pálsson oddviti bauð fundarmenn velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið og engin athugasemd var gerð við boðun fundarins.


Þorgeir lagði til að tekið væri fyrir afbrigði á fundinum sem er erindi verkefnastjórnar Sterkra Stranda vegna Strandir.is. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að taka erindið inn á dagskrá fundarins sem verður þá liður númer 31.


Þá var tekið til dagskrárstarfa:


1. Breyttar áherslur á framkvæmd sveitarstjórnarfunda. Greinargerð frá oddvita: Með vísan í sveitarstjórnarlög, sérstaklega III kafla og þá sérstaklega gr. 19 og IV kafla, og einnig samþykktir um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins Strandabyggðar, sérstaklega gr. 16, tilkynnist hér með að aukin áhersla verður lögð á að fundarsköp á sveitarstjórnarfundum í
Strandabyggð taki mið af áðurnefndum lögum og samþykktum, frá og með sveitarstjórnarfundi 1339, þann 13.12.2022.


2. Fjárhagsáætlun Strandabyggðar 2023 og þriggja áætlun 2024-2026, seinni umræða lögð fram til afgreiðslu.
Lögð fram fjárhagsáætlun ársins 2023. Niðurstöðutölur hennar eru að rekstrarafkoma A hluta er áætluð jákvæð um kr. 26.405.000.- Samanlögð afkoma A og B hluta er áætluð jákvæð um kr. 21.660.000.-

Farið var yfir helstu atriði fjárhagsáætlunar 2023-2026. Miklu munar um þær hagræðingar-aðgerðir sem ráðist hefur verið í undanfarin 2 ár í samræmi við ráðgjöf frá fyrirtækinu Ráðrík ehf og með samningi um sértækan stuðning sveitarstjórnarráðuneytisins við sveitarfélagið en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum verður sértækur stuðningur ráðuneytisins að upphæð 18 milljónir árið 2023. Fjárhagsáætlun 2023 sýnir innviðaskuld og fjárfestingarþörf, en mikil óvissa er vegna húsnæðis grunnskóla. Samráð var haft við endurskoðendur sveitarfélagsins og Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga við gerð fjárhagsáætlunar.

Greinargerð verður lögð fram til kynningar á heimasíðu eftir sveitarstjórnarfund.

Heildarkostnaður vegna framkvæmda á árinu 2023 er áætlaður kr. 197.500.000.-
Gert er ráð fyrir lántöku að upphæð kr. 120.000.000.- á árinu 2023, hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem verður nýtt til framkvæmda.


A-listinn leggur fram eftirfarandi bókun vegna fjárhagsáætlunar:

Í þeirri fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram koma fram áherslur meirihluta sveitarstjórnar Strandabyggðar. Sveitarstjórnarmenn A-lista taka undir með meirihlutanum það meginmarkmið sem fram kemur í fjárhagsáætlun, að sýna raunverulega framkvæmdarþörf í sveitarfélaginu. Við tökum einnig undir það sem kemur fram í greinargerð oddvita að það er órökrétt og óraunsætt að gera ráð fyrir því í þriggja ára áætlun að framkvæmdarþörf eða endurbætur og viðhald innviða minnki með árunum. Þvert á móti er þörf á frekari fjárfestingum sem óhjákvæmilega muni hafa áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og greiðslugetu til framtíðar.

Hins vegar er ljóst að það er verulegur ágreiningur milli meirihlutans og A-lista um áherslur. Í fjárhagsáætluninni kemur skýrt fram skilningsleysi meirihlutans á gildi félags- og menningarmála og heiðarlegra samskipta í samfélaginu til að gera Strandabyggð að vænlegum búsetukosti.
A-listinn harmar þá stefnu meirihlutans að hafna því að endurnýja styrktarsamninga við menningarstarfssemi í Strandabyggð. Með því að hafna áframhaldandi styrktarsamningum skapast ójafnvægi milli þeirra sem geta nýtt sér húsnæði Strandabyggðar, sér að kostnaðarlausu, fyrir starfssemi sína og fá þannig styrki í formi afnota af húsnæði, og hinna sem eru með starfssemi sína í eigin húsnæði. Styrktarsamningar hafa hjálpað til að halda úti starfssemi yfir vetrartímann og getur því niðurfelling þeirra leitt til fækkunar starfa í Strandabyggð.

Lagt er til að fjárhagsáætlun 2023 verði samþykkt með fyrirvara um samþykki eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga. Sveitarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun 2023 með þremur atkvæðum T-lista en fulltrúar A-lista sitja hjá.


Lagt er til að fjárhagsáætlun 2024-2026 verði samþykkt með fyrirvara um samþykki eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga. Sveitarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun 2024-2026 með þremur atkvæðum T-lista en fulltrúar A-lista sitja hjá.


3. Gjaldskrár Strandabyggðar, lagðar fram til afgreiðslu.

Lagðar fram gjaldskrár fyrir Áhaldahús, Hafnarsjóð Strandabyggðar, Sorphirðu og sorpeyðingu, Íþróttamiðstöð og tjaldsvæði, Fræðslustofnanir í Strandabyggð tilaga 1 og 2, Gæludýraleyfi og Ýmis önnur gjöld og útleigu eigna. Einnig er lagðar fram reglur og útreikningur um afslátt fasteignaskatts.
Gjaldskrár vegna byggingarleyfa og byggingarheimilda, fráveitu, vatnsveitu og gáma- og geymslusvæðis eru ýmist miðaðar við fasteignamat eða bundnar við vísitölu og breytast í samræmi við það frá og með 1. Janúar 2023.
Framlagðar gjaldskrár eru samþykktar samhljóða í sveitarstjórn og skrifstofu sveitarfélagsins falið að birta þær á vef sveitarfélagsins og senda til birtingar eftir því sem við á.

Lagt er til að framlagðar gjaldskrár verði samþykktar, gjaldskrá fræðslustofnana útg. 2 er samþykkt sérstaklega. Samþykkt samhljóða.


4. Viðauki VI, lagður fram til afgreiðslu
Með breytingu á 20. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 var kveðið á um að byggðasamlög, sameignarfélög, sameignarfyrirtæki og önnur félagaform sem eru með ótakmarkaðri ábyrgð sveitarfélags, skuli færð inn í samantekin reikningsskil sveitarfélags miðað við hlutfallslega ábyrgð sveitarfélags, þ.e. sveitarfélag skal færa hlutdeild þess í einstökum liðum rekstrar og efnahags, óháð stærð eignarhluta.

Í meðfylgjandi viðauka er búið að færa hlutdeild Strandabyggðar í áætlun Byggðasaml.vestfj.Mál fatl., Félagsþjón.Stranda og Reykhólahrepps og Fjórðungssamband Vestfirðinga fyrir árið 2022 í upphaflega samþykkta áætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2022. Í yfirlitunum eru sýnd áhrif sem breytt ákvæði reglugerðar hafa á samþykkta áætlun 2022 fyrir Strandabyggð.

Fyrirvari er á framsetningu á þessum viðauka sem byggir á samþykktri áætlun samstarfsverkefnis.

Fyrirvari er um að mögulega verði annað hlutfall ábyrgðar ákvarðað þegar nánari upplýsingar og leiðbeiningar liggja fyrir.

Fyrirvari er um að mögulega falli fleiri samstarfsverkefni undir ákvæði reglugerðarinnar.

Um er að ræða v. A-hluta, tekjur kr. 41.277.000, laun og launatengd gjöld kr. 26.296.000. rekstarkostnað kr. 14.936 og annan fjármagnskostnað kr. 45.000. Samtals eru áhrif í A-hluta kr. 0.

Vegna B-hluta eru tekjur kr. 13.717.000, laun og launatengd gjöld kr. 571.000 og rekstarkostnaður kr. 13.427.000. Samtals áhrif í B-hluta eru neikvæð um kr. 280.000.


Framkvæmdir:
Vegna breyttra aðstæðna við kennslu er lagt til að fjármagn vegna kaupa á búnaði verði fært á grunnskóla. Eftirstöðvar af framkvæmdafé grunnskóla eru kr. 8.400.000 en kaupa þarf kennslubúnað fyrir kr. 5.700.000 og kaupa þjónustu frá Eflu vegna sýnatöku og úttektar. Áætlaður heildarkostnaður ársins verður því áætlaður 10.400.000 en kostnaður nú stendur í kr. 3.341.000 lagt er því til að gerður sé viðauki og framlag hækkað til grunnskólans um kr. 2.000.000. Fjármagn er tekið af framkvæmdum við leikskólalóð annars vegar kr. 1.000.000, þar sem ekki varð af framkvæmd og af Hólmavíkurhöfn kr. 1.000.000, þar sem framkvæmd við krana var lægri en áætlað var. Eingöngu er verið að færa fjárheimildir milli deilda en ekki breyta þeim.


Lagt er til að viðauki VI verði samþykktur. Viðaukinn er samþykktur samhljóða


5. Minnisblað v. Grunnskólans á Hólmavík, niðurstöður Eflu og staða skólahúsnæðis, lagt fram til afgreiðslu. Lögð er fram greinargerð um stöðu húsnæðis grunnskólans á Hólmavík en Efla hefur greint sýni sem tekin voru í nóvember og er um myglu að ræða í húsinu. Starfsmenn og nemendur brugðust við breyttum högum og er nú kennsla á þremur stöðum á Hólmavík. Lagt er til að sveitarstjórn samþykki það ferli sem málið er í. Samþykkt samhljóða.

6. Minnisblað v. mötuneytisgjalds grunn- og leikskóla í desember, lagt fram til afgreiðslu. Vegna breytinga í skólahaldi samþykkir sveitarstjórn að leggja til niðurfellingu mötuneytisgjalds í grunnskóla í desember og hálft hádegisverðargjald í leikskóla. Samþykkt samhljóða.


7. Tilboð í Skólabraut 20, lagt fram til afgreiðslu. Tilboð hefur borist í skólahúsnæði Strandabyggðar að Skólabraut 20. Lagt er til að tilboðsgjafa sé þakkað fyrir tilboðið, en að frekari ákvörðun verði að bíða þar til umfang skemmda liggi fyrir. Samþykkt samhljóða


8. Samband sveitarfélaga, álit siðanefndar um meint brot á siðareglum Strandabyggðar, lagt fram til kynningar.

Oddviti felur varaoddvita fundarstjórn og víkur af fundi. Matthías óskar eftir að svar siðanefndar verði aðgengilegt á heimasíðu sveitarfélagsins.


9. Svar Innviðaráðuneytis varðandi meinta ólögmæta stjórnsýslu sveitarfélagsins við ráðningu sveitarstjóra, lagt fram til kynningar.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að ekki séu uppi vísbendingar um að ákvörðun sveitarstjórnar Strandabyggðar um ráðningu og ráðningarsamning framkvæmdastjóra sveitarfélagsins stangist á við lög eða samþykkt um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar og er því ekki tilefni til að taka lagaleg álitaefni þess til frekari umfjöllunar á grundvelli 112. gr. sveitastjórnarlaga að öðru leyti en hér hefur verið gert. Er máli þessu því lokið af hálfu innviðaráðuneytisins.

Matthías Lýðsson óskar eftir að svarið verði birt á heimasíðu sveitarfélagsins fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar.


10. Erindi frá Hafdísi Sturlaugsdóttur varðandi fundarsköp Strandabyggðar, lagt fram til kynningar.

Matthías Sævar Lýðsson víkur af fundinum.

Hlíf Hrólfsdóttir leggur til að spurningum á bls. 2 í bréfinu verði svarað af þeim þremur sveitarstjórnarmönnum sem sitja þennan lið þ.e. Hlíf Hrólfsdóttur, Sigríði G. Jónsdóttur og Jóni Sigmundssyni.

Fulltrúar T-lista telja ekki þörf á því, þar sem hver liður er borinn undir atkvæðagreiðslu og farið er yfir fundargerð í lok fundar. Ef bókun er ekki mótmælt telst hún samþykkt. Tillaga Hlífar er felld með tveimur atkvæðum gegn einu.

Matthías Sævar Lýðsson og Þorgeir Pálsson koma aftur til fundarins.
Oddviti tekur aftur við stjórn fundarins.


11. Erindi frá A-lista varðandi frístundastyrki, lagt fram til afgreiðslu.

A-listinn leggur til að teknir verði upp íþrótta og virknistyrkir í Strandabyggð. Markmið styrkjanna er að hvetja ungmenni á aldrinum frá 6 og að 18 ára aldri til að stunda íþróttir
og/eða annað frístundastarf.

Lagt er til að vísa umræðu um íþrótta- og virknistyrki til næsta árs. Samþykkt samhljóða


12. Sorpsamlag Strandasýslu, stjórnarfundir 7. september og 24. október 2022. Lagt fram til afgreiðslu.

Hlíf gerir athugasemd við hversu seint fundargerðirnar berast og stjórnarformaður biðst afsökunar á mistökunum. Lagt er til að fundargerðinar séu samþykktar. Samþykkt samhljóða.


13. Sorpsamlag Strandasýslu, samþykki sveitarfélags v. lántöku, lagt fram til afgreiðslu.

Ákvörðun sveitarstjórnar um að veita Sorpsamlagi Strandasýslu sem sveitarfélagið á í samvinnu við önnur sveitarfélög, einfalda ábyrgð vegna lántöku þess hjá Lánasjóði sveitarfélaga og hún tryggð með tekjum sveitarfélagsins:
Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Sorpsamlagi Strandasýslu hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 45.000.000 kr. til 10 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum.
Er ábyrgð þessi veitt sbr. heimild í 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og er hún óskipt (in solidum) gagnvart kröfuhafa, en innbyrðis skiptist hún í hlutfalli við eignarhluti í Sorpsamlagi Strandasýslu. Sveitarstjórnin veitir lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum.
Er lánið tekið til fjármögnunar á kaupum á sorpbíl og tækjum, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Sveitarstjórnin skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Sorpsamlags Strandasýslu til að breyta ekki ákvæði samþykkta Sorpsamlagsins sem leggur hömlur á eignarhald að félaginu að því leyti að félagið megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila.
Fari svo að sveitarfélagið selji eignarhlut í Sorpsamlagi Strandasýslu til annarra opinberra aðila, skuldbindur sveitarfélagið sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta.
Jafnframt er Þorgeiri Pálssyni oddvita, kt. 100463-5989 veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að staðfesta f.h. Strandabyggðar veitingu ofangreindrar ábyrgðar með áritun á lánssamninginn.


Matthías Lýðsson óskar eftir útskýringum á þörf Sorpsamlagsins á þessari lántöku og Jón Sigmundsson sem er jafnframt starfsmaður Sorpsamlagsins útskýrði stuttlega hvað framundan er. Þorgeir Pálsson stjórnarformaður Sorpsamlagsins útskýrði að fljótlega verður framtíðarskipulag Sorpsamlagsins kynnt.


Sveitarstjórn samþykkir samhljóða lántökuna.

14. Minnisblað, breytt fyrirkomulag skipulags- og byggingarmála, lagt fram til afgreiðslu.

Á sameiginlegum fundi sveitarfélaganna þann 8.12.2022, þar sem saman komu sveitarstjórar og formenn Umhverfis-, skipulags- og byggingarnefnda í Reykhóla og Strandabyggðar og sveitarstjóri Dalabyggðar, var rætt um kosti þess að sameina nefndir sveitarfélaganna í eina nefnd. Var jafnframt ræddur sá kostur að ein sameiginleg nefnd hefði starfsmann/ritara í allt að 50% starfi við undirbúning funda, skjölun og utanumhald verkefna.

Sveitarstjórn fagnar erindinu og vilja til samstarfs og felur sveitarstjóra að halda áfram viðræðum við sveitarstjóra hinna sveitarfélaganna. Samþykkt samhljóða.


15. Skíðafélag Strandamanna, erindi vegna vegar að skíðasvæði, lagt fram til afgreiðslu.
Lagt er til að fela forstöðumanni áhaldahúss og sveitarstjóra að vinna að styrkumsókn til ríkisins um styrkvegi. Samþykkt samhljóða.

16. Skíðafélag Strandamanna, ársr. 2021, lagður fram til afgreiðslu styrktarsamnings 2022.

Ársreikningur lagður fram og samþykkt að greiða styrktarsamning 2022 en kalla um leið eftir ársskýrslu til birtingar á heimasíðu Strandabyggðar. Samþykkt samhljóða.


17. Fjórðungssamband Vestfirðinga kostnaðarrammi v. gerðar svæðisskipulags, lagður fram til afgreiðslu.

Sveitarstjórn telur verkefnið áhugavert en þarf að skoða hvort og þá hvernig þátttaka sveitarfélagsins samrýmist þátttöku þess í svæðisskipulagi Dala, Reykhóla og Stranda. Sveitarfélagið getur ekki tekist á hendur fjárhagslegar skuldbindingar að svo stöddu. Málinu vísað til frekari skoðunar á næsta ári. Samþykkt samhljóða.


18. Skipan fulltrúa í Vatnasvæðanefnd, lagt fram til afgreiðslu.
Samþykkt að skipa Guðfinnu Láru Hávarðardóttur sem fulltrúa Strandabyggðar í Vatnasvæðanefnd. Samþykkt samhljóða.

19. Erindi frá Byggðasafninu á Reykjum varðandi samning um rekstur, lagt fram til afgreiðslu.

Lagt er til að sveitarstjórn vísi málinu áfram til næsta árs til frekari skoðunar og feli sveitarstjóra og oddvita A-lista að fylgja málinu eftir og undirbúa nýtt erindi fyrir sveitarstjórn. Samþykkt samhljóða.


20. Forstöðumannaskýrslur, lagðar fram til kynningar.

Skýrslur verða birtar á heimasíðu.


21. Vinnuskýrsla sveitarstjóra, lögð fram til kynningar.

Skýrsla verður birt á heimasíðu.


22. Tómstunda, íþrótta- og menningarnefnd fundargerð 14. nóvember 2022, lögð fram til
afgreiðslu.
Formaður fór yfir efni fundargerðarinnar og skýrði nokkra liði. Fundargerðin samþykkt samhljóða.


23. Velferðarnefnd fundargerð 23. nóvember 2022, lögð fram til afgreiðslu.

Formaður fer yfir efni fundargerðarinnar. Fundargerðin samþykkt samhljóða.


24. Atvinnu, dreifbýlis- og hafnarnefnd fundargerð 5. desember 2022, lögð fram til afgreiðslu.

Formaður fer yfir efni fundargerðarinnar. Fundargerðin samþykkt samhljóða.


25. Umhverfis- og skipulagsnefnd fundargerð 12. desember 2022, lögð fram til afgreiðslu

Formaður fer yfir efni fundargerðarinnar.

Varðandi lið nr. 1 í fundargerðinni er lagt til að sveitarstjórn samþykki erindið. Sveitarstjórn samþykkir erindið og felur sveitarstjóra að hafa samband við Minjastofnun og óska eftir fresti. Samþykkt samhljóða.

Varðandi lið nr. 3 hefur nefndinni ekki borist endurnýjuð umsókn um framkvæmdaleyfi vegna borholu frá Háafelli. Lagt er til að fela sveitarstjóra og formanni nefndarinnar að ljúka málinu í samvinnu við skipulagsfulltrúa. Samþykkt samhljóða.

Varðandi lið nr. 4. er lagt til að efri leið verði valin við við gerð göngustígar. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að vinna að mótun og gera kostnaðaráætlun með Vegagerð ríkisins og starfsmönnum sveitarfélagsins. Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin samþykkt að öðru leiti með handauppréttingu.


26. Brunavarnir Dala, Reykhóla- og Stranda bs frá 10. nóvember 2022, lögð fram til kynningar.

Fundargerð lögð fram til kynningar.


27. Samband sveitarfélaga fundargerð nr. 915 frá 25. nóvember 2022, lögð fram til kynningar


28. Samband sveitarfélaga erindi varðandi breytingar í barnaverndarþjónustu sveitarfélaga,
lagt fram til kynningar.

Fram kom ábending að sveitarfélagið þyrfti að sækja um undanþágu fyrir áramót til Velferðaráðuneytisins og er sveitarstjóra falið að ganga frá málinu í samráði við KPMG sem vinnur að málinu varðandi Félagsþjónustu Vestfjarða. Samþykkt samhljóða.


29. Náttúrustofa Vestfjarða fundargerð nr. 138 frá 25. nóvember 2022, lögð fram til kynningar


30. Hafnarsamband Íslands fundargerð nr 447 frá 18. nóvember 2022, lögð fram til kynningar


31. Ályktun verkefnastjórnar Sterkra Stranda varðandi strandir.is. Í ályktuninni kemur fram að verkefnastjórnin hafi áhyggjur af verkefninu sem styrkt hafi verið af sjóðnum og hefur verið í samstarfi við sveitarfélagið. Oddviti T-lista telur það ekki vera á ábyrgð sveitarfélagsins að styrkja vefinn í ljósi fjárhagsstöðu þess og hvetur um leið eigendur vefjarins að leita allra leiða til að tryggja rekstur. Að öðru leiti er vísað í greinargerð sem birt verður á vef sveitarfélagsins.


A-listi leggur fram eftirfarandi bókun:
A-listinn furðar sig á þeirri stefnu meirihluta T-lista að vilja ekki framlengja þjónustusamning við Sýslið vegna upplýsinga-og fréttavefsins Strandir.is. Það er ótrúleg skammsýni að vilja byggja upp aukna ferðaþjónustu á svæðinu, hótelbyggingu og komu skemmtiferðaskipa ásamt að auka nýtingu á tjaldsvæði og sundlaugar sem sveitarfélagið rekur, en taka ekki þátt í að veita upplýsingar um afþreyingu og möguleika á Ströndum. Það er styrkur samfélaga að standa saman og afþreying í Árneshreppi skapar þjónustuþörf í Strandabyggð. Sú staðhæfing á sveitarstjórnarfundi að vefur Strandabyggðar eigi að taka við þessu hlutverki stendst ekki þar sem vefur Strandabyggðar er óöruggur og ekki er gert ráð fyrir að endurnýjun á vefnum á næsta ári.


Fleira ekki fyrirtekið, fundargerð lesin upp og fundi slitið kl. 18.56


Þorgeir Pálsson (sign)
Jón Sigmundsson (sign)
Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir (sign)
Matthías Sævar Lýðsson (sign)
Hlíf Hrólfsdóttir (sign)

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón