A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1333 í Strandabyggð 14.júní 2022

Sveitarstjórnarfundur nr. 1333 var haldinn þriðjudaginn 14. júní 2022 í Hnyðju, Höfðagötu 3 á Hólmavík, og hófst fundurinn kl. 16:00. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Matthías Lýðsson, Þorgeir Pálsson, Jón Sigmundsson, Sigríður Jónsdóttir, Hlíf Hrólfsdóttir og Guðfinna Magney Sævarsdóttir vegna liða nr. 1. og 2. á fundinum. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat fundinn og ritaði fundargerð.


Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Áfrýjunarbeiðni í dómsmáli Þorgeirs Pálssonar gegn Strandabyggð
2. Ráðning sveitarstjóra
3. Kynning endurskoðanda á stöðu Strandabyggðar
4. Erindi frá fyrrum sveitarstjórn, krafa um svör, dags. 31.maí 2022
5. Staðfesting á skipan í fastanefndir Strandabyggðar
6. Tilboð í smíði inngangs í félagsmiðstöðina Ozon í kjallara félagsheimilis
7. Samningur um umsjón girðinga
8. Launastefna Strandabyggðar útgáfa 2.
9. Skipan fulltrúa í nefndir og ráð
a. Byggðasamlag um málefni fatlaðra
b. Fulltrúaráð Vestfjarðastofu
c. Sterkar Strandir
10. Ársreikningur Náttúrustofu
11. Menntun til sjálfbærni, lagt fram til kynningar
12. Félag atvinnurekanda, áskorun vegna fasteignaskatts, lagt fram til kynningar


Þorgeir Pálsson oddviti bauð fundarmenn velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið. Hlíf Hrólfsdóttir gerir athugasemd við fundarboðið og við lið nr. 2 sem er að engin gögn varðandi þann lið hafi borist með fundarboðinu.

Oddvitið vék því næst af fundi og Guðfinna Magney Sævarsdóttir tekur hans sæti sem 1. varamaður T-lista. Sigríður G. Jónsdóttir varaoddviti tekur við stjórn fundarins.

1. Áfrýjunarbeiðni í dómsmáli Þorgeirs Pálssonar gegn Strandabyggð. Lögð eru fram gögn frá Birni Jóhannessyni lögmanni sveitarfélagsins er varðar beiðni um leyfi til áfrýjunar á dómi Héraðsdóms Vestfjarða í máli nr. E-136/2021 til Landsréttar. Landsréttur hefur fallist á áfrýjunarbeiðnina þar sem úrslit málsins hefur verulegt almennt gildi auk þess að ekki er útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dómi héraðsdóms kunni að vera breytt sem einhverju nemi.


Niðurstaða sveitarstjórnar Strandabyggðar er á þessa leið: A-listi leggur til að dómsmálið verði lagt fram til áfrýjunar í Landsrétti og telja það mikilvægt að fá úr því skorið á æðra dómstigi fyrir báða málsaðila vegna fordæmisgefandi úrskurðar.


T-listi leggur til eftirfarandi bókun: “Lagt er til að sveitarfélagið falli frá áfrýjun til Landsréttar á dómi héraðsdóms Vestfjarða í héraðsdómsmálinu nr. E-136/2021; Þorgeir Pálsson gegn Strandabyggð. Með fyrrgreindum dómi héraðsdóms var sveitarfélagið alfarið sýknað af kröfu Þorgeirs vegna greiðslu biðlauna vegna starfsloka hans hjá sveitarfélaginu í apríl 2021 en gert að greiða honum kr. 500.000.- í miskabætur vegna framkvæmdar uppsagnarinnar. 

Frá því að fyrri sveitarstjórn Strandabyggðar tók ákvörðun um að óska eftir leyfi Landsréttar til áfrýjunar á fyrrgreindum dómi hafa orðið breytingar á skipan sveitarstjórnar, m.a. er fyrrverandi sveitarstjóri nú oddviti nýrrar sveitarstjórnar. Framhjá þessari staðreynd verður ekki litið en telja verður það afar óeðlilegt að sveitarfélagið standi í kostnaðarsömum málaferlum við kjörna fulltrúa sína.

Þá er einnig til þess að líta að þeir fjárhagslegu hagsmunir sem undir eru í málinu eru í sjálfu sér óverulegir og réttlæta einir og sér ekki áfrýjun málsins. Viðbúið er, óháð hugsanlegri niðurstöðu málsins fyrir Landsrétti, að kostnaður sveitarfélagsins af frekari málaferlum geti orðið hærri en dæmd krafa í málinu.

Með ákvörðun um að una niðurstöðu héraðsdóms í málinu og láta þar með staðar numið varðandi fyrrgreindan ágreining fyrrverandi sveitarstjóra og fráfarandi sveitarstjórnar er jafnframt horft til mikilvægis þess að ákvörðunin stuðli að sátt og einingu í sveitarfélaginu. Öllum má vera ljóst að mikilvægt er að eining og gott samstarf ríki við stjórn sveitarfélagsins og að horft verði til framtíðar í stað þess að dvelja við ágreining fortíðar.“


A-listinn óskar eftir að eftirfarandi bókun sé gerð: “Við teljum mjög mikilvægt fyrir báða aðila máls, sem Þorgeir Pálsson höfðaði gegn Strandabyggð, að fá endanlegan úrskurð á æðra dómstigi. Sá dómur kynni einnig að hafa fordæmisgildi til að skýra réttarstöðu stjórnenda sveitarfélaga gagnvart vinnuveitenda sínum. Við teljum að afstaða meirihlutans fari í bága við siðareglur fyrir kjörna fulltrúa í Strandabyggð, þ.e. 2. og 5. grein, og við áskiljum okkur rétt til að leita álits nefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga samkvæmt 4. m.g.r 29. gr. sveitarstjórnarlaga 138/2011.”


Gengið var til kosninga og fór atkvæðagreiðsla þannig að 3 atkvæði T-lista féllu með því að falla frá dómsmáli gegn 2 atkvæðum A-lista.


2. Ráðning sveitarstjóra. Tillaga frá T-lista Strandabandalagsins er að ráða Þorgeir Pálsson sem sveitarstjóra í stað þess að hann verði launaður oddviti í fullu starfi. Lagt fram til kynningar.


Guðfinna Magney Sævarsdóttir víkur nú af fundi og oddviti Þorgeir Pálsson tekur aftur sæti á fundinum og tekur við stjórn fundarins.


3. Kynning endurskoðanda á stöðu Strandabyggðar. Kristján Jónasson endurskoðandi sveitarfélagsins tengist nú fundinum í gegnum Teams kl. 16.33 og útskýrir fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins. Kristján útskýrir ársreikning 2021 í stuttu máli, stöðu fjármála og horfur í nánustu framtíð. Einnig útskýrði Kristján Jónasson hvað gert sé í stjórnsýsluskoðun KPMG sem er fara yfir gildandi gjaldskrár, innheimtu og samþykktir.


Matthías spyr Kristján út í stjórnsýsluskoðun og spyr hvort eitthvað hafi óeðlilegt komið fram í henni sem varði ábendingar núverandi oddvita um gjörninga fyrri sveitarstjórnar. Kristján segir að það hafi ekki komið fram hjá þeim við úrtaksskoðun.


Þorgeir segir að stjórnsýsluskoðun sé mjög öflugt tæki til skoðunar og nefnir að í stjórnsýsluskoðun v. 2020 hafi komið fram athugasemd varðandi gjöf sveitarstjórnar á hlut Hvatar í Sævangi.

Þorgeir segir að ljóst sé að staðan sé erfið og að horfa þurfi vel í áætlanir og ársreikning 2021 við áætlunarvinnu næstu ára.

Kristjáni er þakkað fyrir erindi sitt og víkur af fundi


4. Erindi frá fyrrum sveitarstjórn, krafa um svör, dags. 31.maí 2022. Lagt er fram bréf frá sveitarstjórn Strandabyggðar 2018-2022 varðandi ásakanir oddvita Strandabyggðar um brot á samþykktum sveitarfélagsins.


Þorgeir Pálsson leggur fram eftirfarandi bókun: “Ágreiningsefni mín og fyrrverandi sveitarstjórnar ná aftur til þess tíma sem ég var sveitarstjóri, 2018-2021. Þessi mál voru rædd þá og eru því ekki ný af nálinni. Í því ljósi og vegna trúnaðarskyldu, vísa ég í yfirlýsingu mína frá 21. apríl 2021, sem birtist á heimasíðu Strandabyggðar og síðar á strandir.is“.


Til viðbótar þessari bókun vill Þorgeir nefna að hann sé tilbúinn að hitta fyrirverandi sveitarstjórn á fundi til að ræða þessi mál og leiða þau til lykta, til að koma á sátt og ró í samfélaginu.


Hlíf tekur til máls og spyr hver þessi ágreiningsefni séu og hvort það sé eitthvað sem hafi verið rætt á sveitarstjórnarfundum. Þorgeir vísar í yfirlýsingu sína frá 21. apríl 2021 og það sem hún gefur til kynna.


Þorgeir telur sig þar með hafa svarað bréfinu til fyrrum sveitarstjórnar.


A-listi leggur til eftirfarandi bókun: „Í bréfi fyrrverandi sveitarstjórnarmanna er beðið um að hverjum og einum sé svarað um ætluð brot sem þeir hafi framið. Þar sem bréfritarar eru bundnir sama trúnaði og núverandi oddviti Strandabyggðar ætti ekki að vera vandi fyrir hann að senda þeim persónulega hverjum og einum svar við bréfinu. Við óskum eftir að oddviti Strandabyggðar geri það.“


A-listi leggur enn fremur til eftirfarandi bókun: „Við teljum að ekkert hafi komið fram sem styðji fullyrðingar Þorgeirs Pálssonar um brot fyrrverandi sveitarstjórnarmanna á Siðareglum fyrir kjörna fulltrúa í Strandabyggð, samþykktum Strandabyggðar og sveitarstjórnarlögum. Í stjórnsýsluskoðunarskýrslum KPMG síðustu ára eru engar athugasemdir við starfshætti eða ákvarðanir síðustu sveitarstjórnar. Þar til sannanir fyrir þessum ávirðingum koma fram, verður að líta svo á að þær eigi ekki við rök að styðjast.“


5. Staðfesting á skipan í fastanefndir Strandabyggðar.


a. Atvinnu, dreifbýlis- og hafnarnefnd ADH
Þorgeir Pálsson formaður T
Óskar Hafsteinn Halldórsson T
Henrike Stuheff T
Björk Ingvarsdóttir A
Þórður Halldórsson A


Varamenn:
Marta Sigvaldadóttir T
Már Ólafsson T
Ragnheiður Ingimundardóttir A
Gunnar Númi Hjartarson A
Barbara Ósk Guðbjartsdóttir f. íbúa


b. Umhverfis- og skipulagsnefnd US
Matthías Sævar Lýðsson formaður A
Ragnheiður Hanna Gunnarsdóttir T
Þröstur Áskelsson T
Atli Már Atlason T
Guðrún Elínborg Þorvaldsdóttir A


Varamenn:
Börkur Vilhjálmsson T
Árni Magnús Björnsson T
Júlíana Ágústsdóttir T
Valgeir Örn Kristjánsson A
Ragnheiður Ingimundardóttir A


c. Tómstunda, íþrótta- og menningarnefnd TÍM
Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir formaður T
Þórdís Karlsdóttir T
Íris Björg Guðbjartsdóttir T
Magnea Dröfn Hlynsdóttir A
Jóhanna Guðbjörg Rósmundsdóttir A

Varamenn:
Jóhann Björn Arngrímsson T
Magnús Steingrímsson T
Kristín Anna Oddsdóttir A
Esther Ösp Valdimarsdóttir A
Heiðrún Helga Hjörleifsdóttir fyrir íbúa


d. Fræðslunefnd FRÆ
Jón Sigmundsson formaður T
Guðfinna Magney Sævarsdóttir T
Vignir Rúnar Vignisson T
Guðfinna Lára Hávarðardóttir A
Steinunn Magney Eysteinsdóttir A


Varamenn:
Heiðrún Harðardóttir T
Guðjón Heiðar Sigurgeirsson T
Valgeir Örn Kristjánsson A
Steinunn Jóhanna Þorsteinsdóttir A
Hjördís Inga Hjörleifsdóttir fyrir íbúa


e. Velferðarnefnd VEL (sameiginleg nefnd með Árneshreppi, Kaldrananeshreppi og Reykhólum)
Hlíf Hrólfsdóttir formaður A
Ingibjörg Birna Sigurðardóttir T

Varamenn:
Matthías Sævar Lýðsson A
Júlíana Ágústsdóttir T


Matthías nefnir að erindisbréf séu til fyrir flestar nefndir nema fræðslunefnd, eins að allir nefndarmenn þurfi að undirrita trúnaðaryfirlýsingu. Sveitarstjórn samþykkir skipan ofantalinna nefndarmanna samhljóða.

6. Tilboð í smíði inngangs í félagsmiðstöðina Ozon í kjallara félagsheimilis. Lagt fram tilboð frá Valgeiri Erni Kristjánssyni í smíði inngangs félagssmiðstöðvar í kjallara félagsheimilis en verkið er hluti af því að gera aðgengi fyrir fólk með skerta hreifigetu að félagsmiðstöðinni. Gert er ráð fyrir að hægt verði að setja stólalyftu við innganginn seinna meir. Lagt er til að visa þessum samningi við Valgeir Örn ásamt viðbótartilboði vegna hitalagnar í tröppurnar áfram til US nefndar til umfjöllunar. Samþykkt samhljóða


7. Samningur um umsjón girðinga. Lagður fyrir samningur um umsjón fjárgirðinga frá Grjótá að Hrófá við Ágúst Helga Sigurðsson. Samþykkt samhljóða og oddvita falið að ganga frá samningnum.


8. Launastefna Strandabyggðar útgáfa 2. Lögð er fram til samþykktar, uppfærð launastefna Strandabyggðar sem fær nú heitið Jafnlaunastefna Strandabyggðar. Jafnlaunastefna Strandabyggðar er samþykkt samhljóða.


9. Skipan fulltrúa í nefndir og ráð

a. Byggðasamlag um málefni fatlaðra. Lagt er til að Þorgeir Pálsson verði fulltrúi Strandabyggðar. Fulltrúar T-lista samþykkja tillöguna en fulltrúar A-lista sitja hjá.

b. Fulltrúaráð Vestfjarðastofu. Lagt er til að Jón Sigmundsson og Matthías Lýðsson verði fulltrúar Strandabyggðar. Samþykkt samhljóða.

c. Sterkar Strandir. Lagt er til að Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir verði fulltrúi Strandabyggðar. Samþykkt samhljóða.


10. Ársreikningur Náttúrustofu. Lagður er fram ársreikningur Náttúrustofu Vestfjarða 2021. Oddviti fagnar viðsnúningi í ársreikningi Náttúrustofu og hvetur til áframhaldandi stuðnings. Nú erum við með starfsmann úr Strandabyggð í 50% starfi. Matthías Lýðsson minnir á að fyrir tveimur árum hafi starfsmenn úr okkar sveitarfélagi verið tveir í fullu starfi. Sveitarstjórn þarf að minna á mikilvægi þessara starfa og okkar staðsetningu.


11. Menntun til sjálfbærni. Lagt fram til kynningar.


12. Félag atvinnurekanda, áskorun vegna fasteignaskatts. Lagt fram til kynningar.

 

Fundargerð lesin upp og samþykkt og fundi slitið kl. 17:54


Þorgeir Pálsson
Jón Sigmundsson
Sigríður Jónsdóttir
Matthías Lýðsson
Hlíf Hrólfsdóttir
Guðfinna Magney Sævarsdóttir

 

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón