A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1326 í Strandabyggð 14. desember 2021

Sveitarstjórnarfundur nr.  1326 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 14. desember 2021 í Hnyðju, Höfðagötu 3 á Hólmavík, og hófst fundurinn kl. 16:00. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Jón Gísli Jónsson oddviti, Guðfinna Lára Hávarðardóttir, Ásta Þórisdóttir, Pétur Matthíasson og Jón Jónsson sem jafnframt ritaði fundargerð. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri Strandabyggðar sat einnig fundinn.

Fundardagskrá er svohljóðandi:

 

  1. Fjárhagsáætlun ársins 2022 og 3ja ára áætlun 2023-2025, síðari umræða
  2. Gjaldskrár 2022
  3. Viðauki IV
  4. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga vegna endurfjármögnunar á lánum
  5. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga vegna afborgana ársins
  6. Erindi frá Hlyni Snorrasyni v. almannavarnarnefndar
  7. Erindi frá Tálknafjarðarhreppi varðandi sameiningarkosti
  8. Erindi frá Árneshreppi, svar um sameiningarkosti
  9. Umsókn um greiðslu skólagöngukostnaðar utan lögheimilissveitarfélags
  10. Reglur um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar, seinni umræða
  11. Reglur um viðaukagerð hjá Strandabyggð
  12. Innkaupareglur Strandabyggðar
  13. Launastefna Strandabyggðar
  14. Velferðarnefndarfundur 17. nóvember 2021
  15. Velferðarnefndarfundur 29. nóvember 2021
  16. Ungmennaráðsfundur 29. nóvember
  17. Tómstundanefndarfundur 1. desember
  18. Fræðslunefndarfundur 29. nóvember
  19. Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefndarfundur 1. desember 2021
  20. Umhverfis- og skipulagsnefndarfundur 1. desember 2021
  21. Umhverfis- og skipulagsnefndarfundur 13. desember 2021
  22. Fjórðungssamband Vestfjarða, áætlun ársins 2022
  23. Fjórðungssamband Vestfjarða, skipun áheyrnarfulltrúa Strandabyggðar
  24. Samband sveitarfélaga, fundargerð 903
  25. Samband sveitarfélaga, tilkynning um breytt skipulag barnaverndar
  26. Samband sveitarfélaga, uppfærsla svæðisáætlana vegna breytinga
  27. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð nr. 136 

 

Oddviti bauð fundarmenn hjartanlega velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið. Bent var á að dagsetning á tveimur nefndarfundum í fundardagskrá hefði víxlast og var það leiðrétt. Oddviti óskar eftir að tekið verði fyrir eitt mál sem afbrigði á fundinum og var samþykkt að tekið yrði fyrir mál nr. 28, erindi frá Reykhólahreppi, svar um sameiningarvalkosti.

 

Þá var gengið til dagskrár:

 

  1. Fjárhagsáætlun ársins 2022 og 3ja ára áætlun 2023-2025, síðari umræða

Lögð fram fjárhagsáætlun ársins 2022. Niðurstöðutölur hennar eru að rekstrarafkoma A hluta er áætluð jákvæð um kr. 25.563.000.-  Samanlögð afkoma A og B hluta er áætluð jákvæð um kr. 22.779.000.-

 

Miklu munar um þær hagræðingaraðgerðir sem ráðist hefur verið í á árinu 2021 í samræmi við ráðgjöf frá fyrirtækinu Ráðrík ehf og vill sveitarstjórn þakka fyrirtækinu sérstaklega fyrir samstarfið á árinu. Einnig skiptir miklu máli að fyrir liggur vilyrði um framhald á samningi um sértækan stuðning sveitarstjórnarráðuneytis við sveitarfélagið sem gerir kleift að ráðast í nokkrar bráðnauðsynlegar framkvæmdir og viðhald á árinu. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum verður sértækur stuðningur ráðuneytisins að upphæð 47 milljónir á árinu 2022 og 18 milljónir árið 2023.

 

Gert er ráð fyrir eftirfarandi framkvæmdum á árinu 2022:

  • Nýr inngangur ofan við grunnskóla 25.000.000.-
  • Brunavarnir skv. úttekt og frágangur ofan við grunnskóla 4.500.000.-
  • Viðhald í Íþróttamiðstöð, m.a. búningsklefar og sturtur, gluggi í sal og lagnaviðgerðir 10.100.000.-
  • Leikskólalóð, undirbúningsvinna, efnisskipti og drenlagnir 6.000.000.-
  • Staðarkirkjugarður, hlutdeild Strandabyggðar í efniskostnaði samkvæmt lögum 2.400.000.-
  • Yfirlagnir á götur í Austurtúni og Miðtúni 2.500.000.-
  • Bryggjukrani, tæki og uppsetning 10.000.000.-
  • Staðarrétt nýbygging 5.000.000.-
  • Fjárrétt við Krossá í Bitru 2.000.000.-
  • Félagsheimili: Inngangur í kjallara, aðgengi fyrir fatlaða 1.500.000.-
  • Aðal- og deiliskipulag: Samningur við Landmótun um skipulagsvinnu 4.000.000.-
  • Gatnagerð Borgabraut og fleiri smáverkefni 2.000.000.-
  • Slökkvilið: Búnaður og útbúnaður bíls 1.500.000.-
  • Vatnsveita: Dælur og lagnir 3.000.000.-
  • Fráveita: Lagnir 2.000.000.-
  • Veitustofnun: Ljósleiðari 2.000.000.-

 

Heildarkostnaður vegna framkvæmda á árinu 2022 er áætlaður kr. 83.500.000.-

 

Gert er ráð fyrir eftirfarandi lántöku á árinu 2022:

  • Tekið verður lán að upphæð kr. 35.000.000.- á árinu 2022, fyrir afborgunum hjá Lánasjóði sveitarfélaga, og nýtt að mestu leyti til framkvæmda.

 

Sveitarstjórn beinir því til fulltrúa sveitarfélagsins í stjórnum byggðasamlaga og öðrum stjórnum á vegum sveitarfélagsins að þeir beiti sér fyrir aðhaldi og hagræðingu í rekstri viðkomandi félaga og samlaga. Í áætluninni er miðað við að ráðinn verði sveitarstjóri eftir sveitarstjórnarkosningarnar sem haldnar verða 14. maí 2022.

 

Sveitarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun 2022 samhljóða.

 

Lögð fram þriggja ára áætlun Strandabyggðar fyrir árin 2023-2025. Helstu framkvæmdir sem gert er ráð fyrir í þriggja ára áætlun eru áframhaldandi framkvæmdir við leikskólalóð á árunum 2023-2024, framlag vegna byggingar íbúðarhúsnæðis 2023 og aukinn kostnaður við fráveitu og vatnsveitu 2024 og 2025, auk margvíslegra smærri umbóta- og viðhaldsverkefna. Niðurstöðutölur fyrir samstæðuna (A og B hluta sveitarsjóðs) árin 2023-2025 eru jákvæð um kr. 62.067.000.- árið 2023, kr. 59.480.000.- árið 2024 og kr. 64.101.000.- árið 2025.


Sveitarstjórn samþykkir þriggja ára fjárhagsáætlun 2023-2025 samhljóða.

 

  1. Gjaldskrár 2022

Lagðar fram gjaldskrár fyrir Hafnarsjóð Strandabyggðar fyrir árið 2022, einnig Gjaldskrá fyrir byggingarleyfi og byggingarheimild, framkvæmda-, skipulags- og þjónustugjöld í Strandabyggð, Gjaldskrá fyrir stofngjöld fráveitu, fráveitugjald og rotþróargjald í Strandabyggð, Gjaldskrá fyrir gáma og geymslusvæði, Gjaldskrá fyrir Vatnsveitu Strandabyggðar og Gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í Strandabyggð.

 

Gjaldskrár vegna byggingarleyfa og byggingarheimilda, fráveitu, vatnsveitu og gáma- og geymslusvæði eru ýmist miðaðar við fasteignamat eða bundnar við vísitölu og breytast í samræmi við það. Gjaldskrá vegna sorphirðu hækkar um 8%. Gjaldskrá Hólmavíkurhafnar hækkar um 2,5%, en ekki er gert ráð fyrir hækkun á aflagjaldi.

 

Framlagðar gjaldskrár eru samþykktar samhljóða í sveitarstjórn og skrifstofu sveitarfélagsins falið að birta þær á vef sveitarfélagsins og senda til birtingar eftir því sem við á.

 

 

  1. Viðauki IV

Lagður fram svohljóðandi viðauki IV við fjárhagsáætlun Strandabyggðar vegna ársins 2021.

 

„Tekjur:

a)       Sala á gamalli slökkvibifreið, KO-230, skilar 800.000.- og rennur í sveitarsjóð.

b)      Tekjur af ljósleiðara sunnan Hólmavíkur. Samið hefur verið um heimtaugar við ljósleiðara sunnan Hólmavíkur, tekjur Veitustofnunar hækka við það um 4.750.000.-

c)       Tekist hafa samningar um sölu á eignarhlut Strandabyggðar í Laugarhóli ehf. Söluverðmæti er kr. 915.560.- og rennur í sveitarsjóð.

d)      Samningi við Vegagerðina um skil á Hólmavíkurvegi fylgja greiðslur að andvirði kr. 7.250.000.- og renna í sveitarsjóð.

e)      Vilyrði hefur fengist fyrir sérstökum viðbótarstuðningi ráðuneytis við Strandabyggð að upphæð 4.000.000.- vegna kostnaðar við ráðgjöf og bætist í sveitarsjóð.

 

Tekjuaukning vegna viðaukans er samtals kr. 17.715.560.- á árinu 2021

 

Gjöld:

a)       Kostnaður við gerð aðalskipulags verður hærri á árinu en gert var ráð fyrir. Áætlaður kostnaður hækkar um kr. 1.500.000.- í kr. 4.000.000.- í stað 2.500.000.- og færist kostnaður á sveitarsjóð.

b)      Kostnaður vegna skólagöngu barna utan lögheimilissveitarfélags hækkar um kr. 1.500.000.- á árinu 2021, úr kr. 3.000.000.- í kr. 4.500.000.- á árinu 2021

 

Heildaraukning útgjalda af þessu er samtals kr. 3.000.000.- á árinu 2021

 

Framkvæmdir:

a)       Ekki tekst að ljúka framkvæmdum við ljósleiðaralagningu í Djúpi á árinu 2021 og lækkar framlag Veitustofnunar til þess verkefnis af þeim sökum um kr. 1.500.000.- á árinu. Þessi lækkun fjárfestingar í ljósleiðarakerfinu hefur ekki áhrif á niðurstöðu rekstrar Strandabyggðar.

 

Útgjöld til framkvæmda lækka af þessum sökum um 1.500.000.- á árinu 2021.

 

Lántökur:

a)       Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir lántökum í eignarsjóð að upphæð kr. 68.500.000.- á árinu 2021. Þegar hefur verið tekið lán að upphæð kr. 6.800.000.- fyrr á árinu og nú í desember bætast við lán að upphæð kr. 65.000.000.- til skuldbreytinga á eldri lánum og að upphæð kr. 33.000.000.- vegna afborgana ársins hjá Lánasjóði sveitarfélaga.

 

Lántökur ársins hækka af þessum sökum úr kr. 68.500.000.- í kr. 104.800.000.- og hafa lántökur því hækkað um kr. 36.300.000.- á árinu 2021.

 

Heildaráhrifin af viðauka IV er að rekstrarstaða Strandabyggðar batnar sem nemur kr. 14.715.560.- á árinu 2021.“


Sveitarstjórn samþykkir viðaukann samhljóða.

 

Samantekið hefur samþykkt fjögurra viðauka á síðari helmingi ársins 2021 haft þau áhrif á fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrir 2021 að nú er gert ráð fyrir afgangi að upphæð kr. 10.225.000.- af rekstri sveitarfélagsins á árinu (A og B hluta saman), en í upphaflegri fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 var gert ráð fyrir tapi á rekstri samstæðunnar sem nemur kr. 63.535.000.-

 

  1. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga vegna endurfjármögnunar á lánum

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir samhljóða að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 65.000.000 með lokagjalddaga þann 5. apríl 2034, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér.

 

Sveitarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

 

Er lánið tekið til endurfjármögnunar á eldri lánum sem upphaflega voru tekin vegna framkvæmda sveitarfélagsin sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Jafnframt er Salbjörgu Engilbertsdóttur, skrifstofustjóra, kt. 300767-4359, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Strandabyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

 

 

  1. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga vegna afborgana ársins

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir samhljóða að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 33.000.000 með lokagjalddaga þann 5. apríl 2034, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér.

 

Sveitarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til

sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

 

Er lánið tekið til endurfjármögnunar á afborgunum eldri lána sem tekin voru hjá sjóðnum sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Jafnframt er Salbjörgu Engilbertsdóttur, skrifstofustjóra, kt. 300767-4359, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Strandabyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

 

  1. Erindi frá Hlyni Snorrasyni v. almannavarnarnefndar

Tekið fyrir erindi frá Hlyn Snorrasyni dags. 1. október 2021 um sameiningu almannavarnanefnda Reykhólahrepps og sameinaðrar nefndar á Ströndum. Bent er á að erindið hefur verið tekið fyrir áður á fundi í október og tillagan þá samþykkt. Senda þarf svör til Hlyns og sveitarfélaganna.

 

  1. Erindi frá Tálknafjarðarhreppi varðandi sameiningarkosti

Lagt fram erindi frá Tálknafjarðarhreppi dags. 26. nóvember 2021 þar sem gerð er tillaga um að öll sveitarfélög á Vestfjörðum hefji óformlegar sameiningarviðræður, að Ísafjarðarbæ frátöldum. Komið hefur fram að bæði Bolungarvík og Vesturbyggð telja ekki tímabært að svo komnu máli að hefja viðræður um slíka sameiningu. Sveitarstjórn Strandabyggðar telur þess vegna að þessi sameining sé ekki raunhæf og mun ekki taka þátt í slíkum viðræðum að óbreyttu. Tálknafjarðarhreppi er þakkað fyrir erindið.

 

  1. Erindi frá Árneshreppi, svar um sameiningarkosti

Lagt fram svar frá Árneshreppi eftir hreppsnefndarfund 27. nóvember, þar sem tekið var fyrir erindi frá Strandabyggð. Í svari Árneshrepps kemur fram að hreppsnefndin telji ýmislegt standa í vegi fyrir sameiningum sveitarfélaga, hvort sem stefnt sé á litlar sameiningar eða stærri. Árneshreppi er þakkað fyrir svarið. 

 

  1. Umsókn um greiðslu skólagöngukostnaðar utan lögheimilissveitarfélags

Tekin var fyrir umsókn um greiðslu skólagöngukostnaðar utan lögheimilissveitarfélags. Sveitarstjórn samþykkir að greiða kostnaðinn til áramóta.

 

  1. Reglur um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar seinni umræða

Tekin var fyrir, til seinni umræðu, tillaga um breytingu á 14. grein Reglna um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar. Tillaga er um að greinin hljóði svo:

 

„14. gr.

Þátttaka í fundi með rafrænum hætti.

 

Sveitarstjórnarmönnum og nefndarmönnum í sveitarstjórn, nefndum og ráðum á vegum sveitarfélagsins er heimilt að taka þátt í fundi með rafrænum hætti, séu þeir staddir í sveitarfélaginu Strandabyggð eða í erindagjörðum innanlands á vegum þess. Fer um framkvæmd slíkra funda samkvæmt leiðbeiningum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga.“

 

Tillagan samþykkt samhljóða og skrifstofu Strandabyggðar falið að senda breytinguna eða reglurnar í heild sinni til staðfestingar, í samræmi við lög og reglur.

 

  1. Reglur um viðaukagerð hjá Strandabyggð

Lögð fram tillaga um Reglur varðandi framlagningu viðauka í Strandabyggð. Þær eru settar með hliðsjón af 63. grein sveitarstjórnarlaga. Reglurnar eru samþykktar samhljóða af sveitarstjórn.

 

  1. Innkaupareglur Strandabyggðar

Lögð fram tillaga um Innkaupareglur Strandabyggðar. Tilgangur þeirra er að stuðla að vönduðum, hagkvæmum og vistvænum innkaupum og tryggja gæði vöru, þjónustu og verka sem Strandabyggð kaupir. Reglurnar eru samþykktar samhljóða af sveitarstjórn með smávægilegum breytingum.

 

  1. Launastefna Strandabyggðar

Lögð fram tillaga um Launastefnu Strandabyggðar þar sem m.a. er kveðið á um virðingu fyrir ólíkum störfum, starfslýsingar og ákvörðun launa. Starfsmannastefna Strandabyggðar, jafnréttisáætlun og jafnlaunavottun sem nú er unnið að, munu einnig verða mikilvægur hluti af launastefnunni. Stefnan er samþykkt samhljóða af sveitarstjórn.

 

  1. Velferðarnefndarfundur 17. nóvember 2021

Lögð fram fundargerð Velferðarnefndar Stranda og Reykhóla dags. 17. nóv. 2021. Mál 2 um hækkun á fjárhagsaðstoð um 10% sem tekur gildi í janúar 2022 er samþykkt sérstaklega. Fundargerðin samþykkt að öðru leyti.

 

   15.   Velferðarnefndarfundur 29. nóvember 2021

Lögð fram fundargerð frá fundi Velferðarnefndar Stranda og Reykhóla og skipulagsfulltrúa frá 29. nóvember 2021 þar sem rædd var tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við vinnu við aðalskipulag. Fundargerðin samþykkt samhljóða.

 

  1. Ungmennaráðsfundur 29. nóvember

Lögð fram fundargerð frá fundi Ungmennaráðs og skipulagsfulltrúa frá 29. nóvember 2021 þar sem rædd var tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við vinnu við aðalskipulag. Fundargerðin samþykkt samhljóða.

 

  1. Tómstundanefndarfundur 1. desember

Lögð fram fundargerð frá fundi Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefndar og skipulagsfulltrúa frá 1. desember 2021 þar sem rædd var tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við vinnu við aðalskipulag. Fundargerðin samþykkt samhljóða.

 

  1. Fræðslunefndarfundur 29. nóvember

Lögð fram fundargerð frá fundi Fræðslunefndar og skipulagsfulltrúa frá 29. nóvember 2021 þar sem rædd var tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við vinnu við aðalskipulag. Fundargerðin samþykkt samhljóða.

 

  1. Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefndarfundur 1. desember 2021

Lögð fram fundargerð frá fundi Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnda og skipulagsfulltrúa frá 1. desember 2021 þar sem rædd var tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við vinnu við aðalskipulag. Fundargerðin samþykkt samhljóða.

 

  1. Umhverfis- og skipulagsnefndarfundur 1. desember 2021

Lögð fram fundargerð frá fundi Umhverfis- og skipulagsnefndar og skipulagsfulltrúa frá 1. desember 2021 þar sem rædd var tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við vinnu við aðalskipulag. Fundargerðin samþykkt samhljóða.

 

  1. Umhverfis- og skipulagsnefndarfundur 13. desember 2021

Lögð fram fundargerð frá fundi Umhverfis- og skipulagsnefndar frá 13. desember 2021. Sveitarstjórn tekur sérstaklega fyrir lið 1 þar sem lögð var fram skipulagslýsing vegna endurskoðunar aðalskipulags og samþykkir fyrirliggjandi lýsingu og að hún verði auglýst. Sveitarstjórn samþykkir sérstaklega liði 2 og 4.

 

Pétur Matthíasson víkur af fundi við afgreiðslu á lið 3 sem sveitarstjórn samþykkir samhljóða. Pétur kemur aftur á fundinn. Guðfinna Lára Hávarðardóttir víkur af fundi við lið 6a. Sveitarstjórn samþykkir sérstaklega lið 6a. Guðfinna kemur aftur á fundinn.   

 

Sveitarstjórn samþykkir sérstaklega verklag við afgreiðslu framkvæmdaleyfa vegna skógræktar sem lýst er í lið 6b. Jón Jónsson óskar eftir að bókað verði að gæta þurfi vandlega að því í öllum tilvikum þar sem ráðist er í framkvæmdir að farið sé eftir Lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Jafnframt sé áríðandi fyrir allar framkvæmdir í Strandabyggð að sem allra fyrst sé ráðist í grunnskráningu fornleifa í sveitarfélaginu öllu, m.a. til að flýta fyrir afgreiðslu leyfa sem snúast um jarðrask og framkvæmdir. Meðal annars er kveðið á um það í lögunum að skráning fornleifa þurfi að fara fram, áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi og einnig áður en leyfi til framkvæmda er gefið út. Guðfinna Lára Hávarðardóttir og Ásta Þórisdóttir taka undir bókunina.

 

Fundargerðin er samþykkt að öðru leyti.

 

  1. Fjórðungssamband Vestfjarða, áætlun ársins 2022

Lögð fram fjárhagsáætlun ársins 2022 og tillaga um árstillag sveitarfélaga, þingskjal XX frá 66. Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var á Ísafirði 22. og 23. október. Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir áætlunina.

 

  1. Fjórðungssamband Vestfjarða, skipun áheyrnarfulltrúa Strandabyggðar

Lögð fram beiðni frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dags. 3. desember 2021 undirrituð af Aðalsteini Óskarssyni, um að óskað sé eftir að Strandabyggð tilnefni áheyrnarfulltrúa í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga. Samþykkt að skipa Jón Jónsson sem áheyrnarfulltrúa fyrir hönd Strandabyggðar.

 

  1. Samband sveitarfélaga, fundargerð 903

Lögð fram til kynningar, fundargerð 903. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 26. nóvember 2021.

 

  1. Samband sveitarfélaga, tilkynning um breytt skipulag barnaverndar

Lagt fram til kynningar erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 30. nóvember 2021 um breytt skipulag barnaverndar.

 

  1. Samband sveitarfélaga, uppfærsla svæðisáætlana vegna breytinga

Lagt fram til kynningar erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 30. nóvember 2021 um uppfærslu svæðisáætlana um meðhöndlun úrgangs vegna lagabreytinga.

 

  1. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð nr. 136

Fundargerð Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða frá 136. fundi þann 9. desember 2021 lögð fram til kynningar.

 

  1. Erindi frá Reykhólahrepp, svar um sameiningarvalkosti

Lagt fram svar Reykhólahrepps dags. 22. nóvember 2021 við fyrirspurn Strandabyggðar um afstöðu Reykhólahrepps til viðræðna um sameiningu við Strandabyggð.

 

Strandabyggð þakkar Reykhólahreppi fyrir jákvætt svar og samþykkir að óska eftir viðræðum við Reykhólahrepp um sameiningu sveitarfélaganna. Lagt er til að fyrst um sinn verði um óformlegar viðræður að ræða og nágrannasveitarfélögum verði gefinn kostur á að gerast aðilar að viðræðunum, hafi þau áhuga á. Samþykkt samhljóða.

 

Fundargerðin yfirfarin og samþykkt.

 

Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 18:59.

 

Jón Gísli Jónsson

Guðfinna Lára Hávarðardóttir

Ásta Þórisdóttir

Pétur Matthíasson

Jón Jónsson

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón