A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 8. des. 2009

Ár 2009 þriðjudaginn 8. desember var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar.  Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00.  Rúna Stína Ásgrímsdóttir varaoddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hennar sátu fundinn Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson, Jón Stefánsson og Ásta Þórisdóttir varamaður.  Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Þetta var gert:

 

Varaoddviti leitaði afbrigða við boðaða dagskrá um að áttunda mál yrði tekið fyrir á fundinum sem er fundargerð íþrótta- og tómstundarnefndar Strandabyggðar og var það samþykkt.  Varaoddviti kynnti þá dagskrá fundarins í  8 töluliðum, sem var eftirfarandi:

 

  • 1. Skýrsla sveitarstjóra.
  • 2. Tilboð í gamla barnaskólann að Kópnesbraut 4b.
  • 3. Styrkbeiðni frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða vegna fyrirhugaðra sjávarrannsókna í Steingrímsfirði árið 2010.
  • 4. Styrkbeiðni frá Stígamótum fyrir árið 2010 ásamt fjárhagsáætlun 2010.
  • 5. Fundargerð umhverfisnefndar Strandabyggðar dags. 25. nóvember 2009.
  • 6. Fundargerð atvinnumálanefndar Strandabyggðar dags. 2. desember 2009.
  • 7. Fundargerð byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 3. desember 2009.
  • 8. Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar Strandabyggðar dags. 19. nóvember 2009.

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

  • 1. Skýrsla sveitarstjóra. Í skýrslu sveitarstjóra er greint frá tilboði vegna tölvukaupa fyrir Grunnskólann á Hólmavík þar sem býðst öflugar tölvur með 19" skjá uppsettar með Windows 7 stýrikerfi og kostar hver tölva einungis 35 þús. kr. jafnvel aðeins minna þar sem ekki kemur til með að þurfa að kaupa lyklaborð. Samþykkti undirrituð að pantaðar yrðu strax tölvur á þessu verði enda munar um í það minnsta 1.4 millj. kr. ef nýjar tölvur væru keyptar eins og til stóð að gera. Er um að ræða lítt notaðar nýlegar tölvur sem keyptar voru fyrir fjármálastofnun á síðasta ári og ekki er not fyrir. Með þessu móti eignast skólinn loksins góðan tölvukost þar sem allar tölvurnar eru með nýjustu forritum.

Þá var sagt frá því að Sparisjóður Bolungarvíkur hefur endurgreitt stofnfé í Eignarhaldsfélagi Vestfjarða en Hólmavíkurhreppur hafði verið félagi við stofnun og greitt 200 þús. kr. í stofnhlutafé.  Nam endurgreiðslan rúmum 460 þús. kr. en greitt hafði verið inn í hlutafélagið árið 2001.  Þar sem aldrei hefur orðið neitt úr hlutafélaginu, en markmiðið með stofnun þess var að auka atvinnusköpun á Vestfjörðum, var ákveðið að leysa upp félagið og endurgreiða stofnféð.

Að endingu er greint frá því að undirrituð sótti fund á Café Riis þar sem verið var að kynna nýleg orgelkaup fyrir kirkjuna á Hólmavík en gripurinn mun leysa af hólmi 31 árs gamalt rafmagnsorgel sem svo sannanlega hefur lifað sitt skeið.  Kostaði orgelið, sem er á við pípuorgel að sögn Viðars Guðmundssonar, litlar 2.7 millj. kr. rúmar og höfðu safnast tæpar 2 millj.  Hafði Hólmadrangur styrkt kaupin um 300 þús. kr. og Kaupfélagið um rúmar 245 þús. kr. ásamt fullt af öðrum félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum.  Stóðu einstaklingar upp og gáfu fé til söfnunarinnar við mikinn fögnuð viðstaddra.  Þar sem frumkvæði þeirra sem að kaupunum standa er mikið og dugnaður við að afla fjár hreint ótrúlegur, hvort sem um er að ræða flygil- eða orgelkaup, leggur undirrituð til við sveitarstjórn Strandabyggðar að orgelsjóður verði styrktur sem nemur kr. 350 þúsund.  Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að styrkja orgelkaupin um 350 þús. kr.

  • 2. Tilboð í gamla barnaskólann að Kópnesbraut 4b. Borist hafa 4 tilboð í gamla barnaskólann að Kópnesbraut 4b, það hæsta að fjárhæð 850 þús. kr. en það lægsta 110 þús. kr. Samþykkt var samhljóða að taka hæsta tilboði sem Atli Már Atlason og Ragnheiður H. Guðmundsdóttir áttu.
  • 3. Styrkbeiðni frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða vegna fyrirhugaðra sjávarrannsókna í Steingrímsfirði árið 2010. Borist hefur erindi dags. 26. nóvember frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða þar sem farið er þess á leit að fyrirhugaðar sjávarrannsóknir á Steingrímsfirði séu styrktar um 350 þús. kr. Stendur AtVest að rannsóknunum ásamt Hafrannsóknarstofnun í samvinnu við heimamenn en meta á burðarþol fjarðarins og endurnýjun sjávar m.t.t. kræklingaræktar og fiskeldis. Tillaga kom um að styrkja verkefnið um 200.000 kr. og var hún samþykkt með þremur greiddum atkvæðum en tveir vildu verða við erindinu.
  • 4. Styrkbeiðni frá Stígamótum fyrir árið 2010 ásamt fjárhagsáætlun 2010. Borist hefur styrkbeiðni frá Stígamótum ásamt fjárhagsáætlun ársins 2010 þar sem falast er eftir stuðningi við starfsemi Stígamóta. Samþykkt var með þremur greiddum atkvæðum að styrkja starfsemina um 30 þús. kr. en tveir sátu hjá.
  • 5. Fundargerð umhverfisnefndar Strandabyggðar dags. 25. nóvember 2009. Lögð er fram til samþykktar fundargerð umhverfisnefndar Strandabyggðar frá 25. nóvember 2009. Fundargerðin er samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum en einn sat hjá.
  • 6. Fundargerð atvinnumálanefndar Strandabyggðar dags. 2. desember 2009. Lögð er fram til samþykktar fundargerð atvinnumálanefndar Strandabyggðar frá 2. desember 2009. Fundargerð er samþykkt með þremur greiddum atkvæðum, einn greiddi atkvæði á móti og einn samþykkti fundargerðina utan 2. dagskrárliðs sem hann greiddi atkvæði á móti.
  • 7. Fundargerð byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar dags. 3. desember 2009. Lögð er fram til samþykktar fundargerð byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar Strandabyggðar frá 3. desember 2009. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
  • 8. Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar Strandabyggðar dags. 19. nóvember 2009. Lögð er fram til samþykktar  Fundargerðin er samþykkt samhljóða.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.  Fundi slitið kl. 18:30.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón