A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 6. maí 2008

Ár 2008 þriðjudaginn 6. maí var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.


Þetta var gert:


Oddviti kynnti dagskrá fundarins í 9 töluliðum, sem var eftirfarandi:


1. Skýrsla sveitarstjóra.
2. Fyrirspurn frá Brynju Bjarnfjörð vegna hátíðarinnar "Hamingjudagar á Hólmavík"
3. Umsókn frá Sigurði Þ. Sigurðssyni listmálara um styrk til sýningar á málverkum og teikningum við "Tímann og vatnið" eftir Stein Steinarr.
4. Drög að samningi milli Strandabyggðar og Óskaþrifa ehf.
5. Erindi frá Sigrúnu Sigurðardóttur um fyrirhugaða stofnun Starfsendurhæfingar Vestfjarða.
6. Minnisblað frá Guðjóni Bragasyni um undanþágu heilbrigðisstofnana frá greiðslu lóðarleigu.
7. Erindi frá Stefaníu Sigurgeirsdóttur tónlistarkennara dags. 30.04.2008.
8. Erindi frá Sigurveigu Gunnarsdóttur um kaup á landskika í landi Nauteyrar.
9. Fundargerð skólanefndar Grunnskólans og Tónskólans á Hólmavík dags. 11.04.2008.

Þá var gengið til dagskrár.


1. Skýrsla sveitarstjóra. 
Í skýrslu sveitarstjóra er gerð grein fyrir áframhaldandi leit að skólarútu í stað þeirrar sem hefur verið í notkun frá 2003. Til greina kemur 18 manna Ford Transit bifreið sem kostar tæpar 5,2 millj.kr. en hún er ekki fjórhjóladrifin. Alfreð Símonarsyni skólabílstjóra hugnast betur fjórhjóladrifin rúta en segist munu keyra það sem fyrir hann verður sett.

Þá er greint frá opnunardegi Þróunarsetursins sem tókst vonum framar og hafa allir þeir sem að því komu lýst ánægju sinni með hvernig til tókst. Farið verður í að stofna rekstrarfélag um starfsemina 8. maí nk. og eins verður Námsverið auglýst í næsta blaði Gagnvegs þar sem áhugasamir geta sett sig í samband við skrifstofu sveitarfélagsins óski þeir eftir að nýta sér aðstöðuna þar. 

Að endingu þarf að tilnefna tvo varamenn, annan í atvinnumálanefnd og hinn í menningarmálanefnd í stað Daða Guðjónssonar. Tillaga kom um að Jón Stefánsson verði varamaður í báðum nefndum.


2. Fyrirspurn frá Brynju Bjarnfjörð vegna hátíðarinnar "Hamingjudagar á Hólmavík".
Borist hefur fyrirspurn frá Brynju Bjarnfjörð framkvæmdastjóra Hamingjudaga 2008 þar sem hún vill fá stefnu sveitarstjórnar varðandi böll fyrir 16 ára unglinga, hvað gert verði varðandi uppfærslu á Hamingjuvef og hvort fyrirhugað sé að stækka tjaldsvæðið eða útbúa skammtímasvæði fyrir þann hóp sem vill skemmta sér  fram eftir nóttu. Samþykkt var samhljóða að fela sveitarstjóra að boða Brynju á sinn fund og fara yfir stöðu mála þar sem unnið verður í málum og henni veittur stuðningur.


3. Umsókn frá Sigurði Þ. Sigurðssyni listmálara um styrk til sýningar á málverkum og teikningum við "Tímann og vatnið" eftir Stein Steinarr. 
Borist hefur umsókn dags. 16. apríl 2008 frá Sigurði Þ. Sigurðssyni þar sem hann leitar eftir styrk til sýningar á málverkum og teikningum við "Tímann og vatnið" eftir Stein Steinarr, en ætlunin er að opna sýninguna 11. október 2008 í Reykjavík. Samþykkt var samhljóða að hafna erindinu.


4. Drög að samningi milli Strandabyggðar og Óskaþrifa ehf. 
Lögð eru fram drög að samningi milli Strandabyggðar og Óskaþrifa ehf. þar sem þeir munu sjá um þrif á Íþróttamiðstöð, áhaldahúsi og hjá Upplýsingamiðstöðinni. Felur samningurinn í sér raunkostnað upp á tæpar sjö hundruð þúsund fyrir sveitarfélagið, en hins vegar verður hægt að hafa opna sundlaugina á sunnudögum yfir veturtímann sem bætir þjónustustig sveitarfélagsins. Samþykkt var samhljóða að ganga að tilboði Óskaþrifa ehf. og sveitarstjóra falið að ganga frá samningi.


5. Erindi frá Sigrúnu Sigurðardóttur um fyrirhugaða stofnun Starfsendurhæfingar Vestfjarða. 
Borist hefur erindi dags. 12. apríl 2008 frá Sigrúnu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingi um fyrirhugaða stofnun Starfsendurhæfingar Vestfjarða en slík starfsemi hefur verið á Norðurlandi frá því 2003 og gefið góða raun. Er fyrirhugað í samvinnu við stjórn Lífeyrissjóðs Vestfirðinga að kanna vilja hagsmunaaðila á starfssvæði sjóðsins til að stofna slíka endurhæfingu. Samþykkt var samhljóða að koma að undirbúningi stofnunar Starfsendurhæfingar Vestfjarða.


6. Minnisblað frá Guðjóni Bragasyni um undanþágu heilbrigðisstofnana frá greiðslu lóðarleigu. 
Borist hefur tölvupóstur dags. 22. apríl 2008 frá Guðjóni Bragasyni þar sem greint er frá ákvæði þar sem heilbrigðisstofnanir eru undanskildar greiðslu gatnagerðargjalda og lóðarleigu. Deila hefur staðið milli ríkis og sveitarfélaga um greiðsluskyldu skv. eldri lögum um heilbrigðisþjónustu, en þetta skerðir tekjur sveitarfélaga mikið, ekki síst lítilla sveitarfélaga. Sveitarstjórn Strandabyggðar telur þessa undanþágu afar óeðlilega og álítur það nauðsynlegt að undanþáguákvæðið verði fellt út.


7. Erindi frá Stefaníu Sigurgeirsdóttur tónlistarkennara dags. 30.04.2008. 
Borist hefur bréf dags. 30. apríl 2008 frá Stefaníu Sigurgeirsdóttur tónlistarkennara þar sem hún segir starfi sínu lausu frá og með 1. maí 2008. Sveitarstjórn Strandabyggðar þakkar Stefaníu fyrir góð kynni og vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar í framtíðinni.


8. Erindi frá Sigurveigu Gunnarsdóttur um kaup á landskika í landi Nauteyrar. 
Borist hefur erindi frá Sigurveigu Gunnarsdóttur dags. 28. apríl 2008 þar sem falast er eftir því að fá keyptan landskika sem sumarhús fjölskyldu hennar stendur á.  Samþykkt var samhljóða að hafna erindinu að svo stöddu þar sem verið sé að setja jörðina í heild á sölu.


9. Fundargerð skólanefndar Grunnskólans og Tónskólans á Hólmavík dags. 11.04.2008.
 
Lögð er fram til samþykktar fundargerð skólanefndar Grunnskólans og Tónskólans á Hólmavík frá 11.04.2008. Borin var tillaga um að fresta afgreiðslu fundargerðar til næsta fundar og var hún samþykkt samhljóða.


Fundargerð lesin upp og hún samþykkt. Fundi slitið kl. 19:00.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón