A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 26. jan. 2010

 

Ár 2010 þriðjudaginn 26. janúar var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar.  Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00.  Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson.  Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Þetta var gert:

 

Oddviti leitaði afbrigða við boðaða dagskrá um hvort taka ætti inn sem 6. lið ályktun sauðfjárveikivarnarnefndar Strandabyggðar og nágrannasveitarfélaga frá 20. janúar og var það samþykkt samhljóða.  Oddviti kynnti þá dagskrá fundarins í  6 töluliðum, sem var eftirfarandi:

 

 • 1. Fjárhagsáætlun Strandabyggðar ársins 2010 og þriggja ára áætlun, seinni umræða.
 • 2. Kauptilboð frá hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. í jörðina Nauteyri við Ísafjarðardjúp.
 • 3. Beiðni um fjárstyrk frá Björgunarsveitinni Dagrenningu.
 • 4. Fundargerð stjórnarfundar Byggðasafnsins á Reykjum dags. 13. janúar 2010.
 • 5. Fundargerð skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 18. janúar 2010.
 • 6. Ályktun Sauðfjárveikivarnarnefndar Strandabyggðar og nágrannasveitar-félaga frá 20. janúar 2010.

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

 • 1. Fjárhagsáætlun Strandabyggðar ársins 2010 og þriggja ára áætlun, seinni umræða. Lögð er fram til seinni umræðu fjárhagsáætlun ársins 2010 ásamt þriggja ára áætlun 2011-2013. Gert er ráð fyrir hagnaði frá rekstri er nemur tæpum tveimur millj. kr. þegar aðalsjóður og B-hluta sjóðir eru teknir saman í samstæðureikningi en tæpum 10 millj. kr. hagnaði frá rekstri aðalsjóðs og A-hluta sjóðum. Hagrætt verður áfram í rekstri og aðhaldi beitt án þess þó að skerða núverandi þjónustu. Eignfærðar fjárfestingar eru áætlaðar 21.5 millj. kr. en helstu verkefni eru að koma í notkun nýrri borholu fyrir vatnsveitu Hólmavíkur, ljúka við klæðningu og skipta um járn á þaki á Höfðagötu 3, breyta sturtuklefa í Félagsheimilinu á Hólmavík í eldhús og lagfæra húseignina að Skólabraut 18. Útsvarsprósenta og fasteignaprósentur breytast ekki milli ára en gera má þó ráð fyrir hækkunum á fasteignagjöldum þar sem fasteignamat húseigna á Hólmavík hefur hækkað umtalsvert milli ára. Önnur þjónustugjöld hækka að meðaltali um 7% nema tónskólagjöld sem hækkuðu um 10% um áramót og gjöld vegna skólaskjóls og mötuneytis sem hækkuð voru haustið 2009. Tekjur eru áætlaðar tæpar 345 millj. kr. og skiptast þannig að áætlaðar skatttekjur verði rúmar 157 millj. kr., framlag jöfnunarsjóðs tæpar 129 millj. kr. og aðrar tekjur rúmar 58 millj. kr. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða eru áætluð rúmar 272 millj. kr., fjármagnsgjöld rúmar 51 millj. kr. og afskriftir tæpar 19,5 millj. kr. Lagt er til við seinni umræðu að hækka húsaleigu um 8%.. Þá var samþykkt að styrkja hjálparstarf vegna náttúruhamfara á Haítí um 100 kr. á hvern íbúa og fela Rauða kross Íslands að ráðstafa féinu. Fjárhagsáætlun var borin undir atkvæði og greiddu fjórir atkvæði með áætluninni en einn greiddi atkvæði á móti. Þá var 3ja ára áætlunin borin undir atkvæði og var hún samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum og einn sat hjá.
 • 2. Kauptilboð frá hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. í jörðina Nauteyri við Ísafjarðardjúp. Borist hefur kauptilboð frá hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. dags. 13. janúar 2010 í jörðina Nauteyri við Ísafjarðardjúp og gildir tilboðið til 25. janúar n.k. Samþykkt er samhljóða að fela sveitarstjóra að gera gagntilboð.
 • 3. Beiðni um fjárstyrk frá Björgunarsveitinni Dagrenningu. Borist hefur beiðni frá Björgunarsveitinni Dagrenningu dags. 13. janúar 2010 um fjárstyrk vegna ársins 2010. Búið var að samþykkja styrk til sveitarinnar í fjárhagsáætlun.
 • 4. Fundargerð stjórnarfundar Byggðasafnsins á Reykjum dags. 13. janúar 2010. Lögð er fram til kynningar fundargerð stjórnarfundar Byggðasafnsins á Reykjum frá 13. janúar 2010.
 • 5. Fundargerð skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík dags. 18. janúar 2010. Lögð er fram til samþykktar fundargerð skólanefndar Grunn- og Tónskólans á Hólmavík frá 18. janúar 2010. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
 • 6. Ályktun Sauðfjárveikivarnarnefndar Strandabyggðar og nágrannasveitar-félaga frá 20. janúar 2010. Borist hefur ályktun frá Sauðfjárveikivarnarnefnd Strandabyggðar og nágrannasveitarfélaga vegna lungnapestar sem upp kom í sauðfé í Miðvestfjarðarhólfi. Vegna þessa gerir nefndin alvarlegar athugasemdir við fjárframlög til viðhalds og endurbyggingar Gilsfjarðarlínu og krefst þess að þegar í stað verði veitt nægt fjármagn til styrkingar hennar þannig að sauðfé hætti að rápa yfir línuna og sama gildir um Kollafjarðarlínu. Krefst nefndin jafnframt að ráðuneytið og/eða Matvælastofnun í samráði við sveitarstjórnir sýni sauðfjárbændum stuðning í verki svo útrýma megi þessari nýju pest af svæðinu. Samþykkt var samhljóða að lýsa stuðningi við ályktun nefndarinnar.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.  Fundi slitið kl. 18:10.

Könnun

Facebook

Atburđadagatal

Nćstu atburđir

Vefumsjón