A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 22. september 2009

 

Ár 2009 þriðjudaginn 22. september var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar.  Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00.  Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson.  Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

 

Þetta var gert:

 

Oddviti kynnti dagskrá fundarins í  11 töluliðum, sem var eftirfarandi:

 

  • 1. Skýrsla sveitarstjóra.
  • 2. Umsókn frá Reyni S. Stefánssyni og Ólöfu B. Jónsdóttur um lóð undir húseignina á Nauteyri.
  • 3. Erindi frá Sigríði G. Jónsdóttur vegna aksturs til og frá vinnu.
  • 4. Erindi frá Bandalagi íslenskra leikfélaga vegna sumarskóla.
  • 5. Erindi frá Domus vegna aðilaskipta að greiðslumarki.
  • 6. Umsókn frá Hrólfi Guðmundssyni um lóðaleigusamning undir fjárhús.
  • 7. Ályktanir frá 54. Fjórðungsþingi Vestfirðinga dags. 4. og 5. september 2009.
  • 8. Umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um frumvarp til laga um sveitarstjórnarkosningar.
  • 9. Greinagerð vegna fundar með sjávarútvegsráðherra þann 8. júlí s.l.
  • 10. Fundargerð Umhverfisnefndar dags. 16. september 2009.
  • 11. Erindi frá stjórn Héraðsbókasafns Strandasýslu vegna málefnis Héraðsbókasafnsins.

 

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

  • 1. Skýrsla sveitarstjóra. Greint er frá því að áætlað er að steypt grunninn undir hús Fiskmarkaðsins fyrir veturinn og hefur verkið gengið samkvæmt áætlun. Teikningar af byggingunni ættu að liggja fyrir í lok vikunnar og þá hægt að leggja þær fyrir bygginganefnd. Þá stendur yfir útboð vegna grjótvarnar við bryggjuna og gert ráð fyrir að farið verði fljótlega í það verkefni. Þá er greint frá því að stjórn Sorpsamlags Strandasýslu auglýsti eftir starfsmanni til að sjá um og reka samlagið og sorpbifreiðina og sóttu fimm manns um stöðuna. Ákveðið var að ganga til samninga við Einar Indriðason og hefur hann verið ráðinn til starfans. Kemur því til með að vanta starfsmann í áhaldahús sveitarfélagsins og verður farið í að auglýsa fljótlega. Einnig er greint frá því að starfsmaður Olíudreifingar kom til Hólmavíkur 17. september s.l. og fór yfir stöðu mála. Verða öll ummerki fjarlægð á bryggju sem og þar sem tankarnir stóðu og verður verkið unnið af Þórði Sverrissyni í samráði við sveitarfélagið. Einnig var skoðuð leigulóð undir olíutankinn sem staðið hefur upp á Skeiði. Þá er greint frá því að framkvæmdir ganga vel upp í Félagsheimili þar sem verið er að útbúa aðstöðu fyrir félagsstarf eldri borgara. Ákveðið hefur verið að bæta aðgengi þar sem gengið er inn í húsið með því að steypa tröppur sem og ramp til að bæta aðgengi fyrir fatlaða. Stefnt er að því að hefja félagsstarfið í lok þessa mánaðar. Að endingu er sagt frá því að við úthlutun á byggðakvóta ársins 2008/2009 kom upp sú staða að fylgt hefur verið 15 tn. reglunni við úthlutun nú, sem kveðið er á um í 4.gr. laga um byggðakvóta. Samkvæmt reglum sveitarstjórnar á að úthluta 50% kvótans jafnt á milli báta og 50% eftir lönduðum afla og hefur það verið gert s.l. tvö ár. En þar sem kvótamagn var meira en nam 15 tonnum á hvern bát var úthlutað eftir reglu sveitarstjórnar á síðasta ári. Í ár bar því hins vegar við að byggðakvótinn var skertur um 40 tn. og því hægt að koma 100 tonnum samkvæmt 15 tn. reglunni. Því miður láðist að fá undanþágu vegna 4.gr. laganna enda hefur þess aldrei verið þörf hingað til. Búið er að athuga málið hjá Fiskistofu og Sjávarútvegsráðuneytinu en samkvæmt þeim er ekki hægt að breyta úthlutunarreglum nú þar sem búið er af hálfu ráðuneytisins að samþykkja reglurnar og auglýsa eftir kvóta samkvæmt þeim. Lögfræðingur ráðuneytisins fullyrðir að ekki sé lagalegur grundvöllur fyrir því að afturkalla úthlutunina og fara á ný í ferlið þar sem fylgt hafi verið eftir öllum settum reglum frá hendi ráðuneytisins og Fiskistofu og allra lögforma gætt. Er spurning um hvað sveitarstjórn vill gera í málinu, hvort hún vilji láta á það reyna að fara fram á breytingu með því að biðja um undanþágu undan 4.gr. eður ei. Samþykkt var með fjórum atkvæðum að leita allra leiða til að fá leiðréttingu á úthlutun byggðakvóta en einn greiddi atkvæði á móti og mótmælir bókuninni.
  • 2. Umsókn frá Reyni S. Stefánssyni og Ólöfu B. Jónsdóttur um lóð undir húseignina á Nauteyri. Borist hefur umsókn frá Reyni S. Stefánssyni og Ólöfu B. Jónsdóttur dags. 30. ágúst 2009 þar sem sótt er aftur um 5.600. m2 lóð undir húseignina á Nauteyri en búið var að samþykkja að gera lóðasamning við þau um 2.500 m2 lóð þann 30. júní s.l. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gera lóðasamning um 2.500 m2 lóð en hafnar erindinu um 5.600 m2 lóð sem hún telur allt of stóra.
  • 3. Erindi frá Sigríði G. Jónsdóttur vegna aksturs til og frá vinnu. Borist hefur erindi frá Sigríði G. Jónsdóttur dags. 13. september 2009 þar sem óskað er eftir að Strandabyggð taki þátt í kostnaði vegna aksturs til og frá vinnu. Jón Stefánsson vék af fundi. Samþykkt var samhljóða að hafna erindinu og segja upp þeim samningum sem eru þegar í gildi en að athugað verði með reglur um greiðslu vegna aksturs m.t.t. fjarlægða. Jón Stefánsson kemur aftur á fund.
  • 4. Erindi frá Bandalagi íslenskra leikfélaga vegna sumarskóla. Borist hefur erindi frá Bandalagi íslenskra leikfélaga dags. 10. september 2009 þar sem leitað er eftir hentugu húsnæði fyrir sumarstarf Leiklistarskóla Bandalagsins. Sveitarstjórn þakkar erindið en því miður er ekki hentugt húsnæði til staðar.
  • 5. Erindi frá Domus vegna aðilaskipta að greiðslumarki. Borist hefur erindi frá fasteignasölunni Domus þar sem beðið er um samþykki sveitarfélagsins um aðilaskipti á greiðslumarki frá jörðinni Kálfanesi yfir á jörðina Ytri-Ós. Samþykkt var samhljóða að verða við erindinu.
  • 6. Umsókn frá Hrólfi Guðmundssyni um lóðaleigusamning undir fjárhús. Borist hefur umsókn frá Hrólfi Guðmundssyni dags. 15. september 2009 þar sem hann fer þess á leit að gerður verði lóðasamningur undir fjárhús svo hægt verði að koma þeim af dánarbúi eiginkonu hans yfir á hans nafn. Samþykkt var samhljóða að gera tímabundinn leigusamning til tveggja ára með möguleika á framlengingu, sé þess þörf.
  • 7. Ályktanir frá 54. Fjórðungsþingi Vestfirðinga dags. 4. og 5. september 2009. Borist hafa ályktanir frá 54. Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var á Ísafirði dagana 4. og 5. september 2009. Lagt fram til kynningar.
  • 8. Umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um frumvarp til laga um sveitarstjórnarkosningar. Borist hefur umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um frumvarp til laga um sveitarstjórnarkosningar varðandi persónukjör sem send var til allsherjarnefndar Alþingis. Lagt fram til kynningar.
  • 9. Greinagerð vegna fundar með sjávarútvegsráðherra þann 8. júlí s.l. Lögð er fram greinagerð vegna fundar Valdemars Guðmundssonar, Más Ólafssonar og Bryndísar Sigurðardóttur með sjávarútvegsráðherra þann 8. júlí 2009 þar sem staða útgerða á Hólmavík var kynnt. Lagt fram til kynningar.
  • 10. Fundargerð Umhverfisnefndar dags. 16. september 2009. Lögð er fram til samþykktar fundargerð Umhverfisnefndar frá 16. september 2009. Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
  • 11. Erindi frá stjórn Héraðsbókasafns Strandasýslu vegna málefnis Héraðsbókasafnsins. Borist hefur erindi frá stjórn Héraðsbókasafns Strandasýslu dags. 17. september 2009 ásamt fundargerð stjórnar frá 16. september 2009 þar sem óskað er eftir skriflegri staðfestingu á framlagi sveitarfélagsins til bókakaupa á yfirstandandi fjárhagsári svo hægt verði að bregðast með ábyrgum hætti við minna framlagi. Samkvæmt fjárhagsáætlun Strandabyggðar er gert ráð fyrir 250 þús. kr. aukaframlagi til bókakaupa. Var framlagið lækkað til að bregðast við samdrætti í tekjum og hærri rekstrarkostnaði. Lagt er til að auka framlagið þetta árið um 100 þús. kr. og var tillagan samþykkt með þremur atkvæðum en tveir greiddu atkvæði á móti.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.  Fundi slitið kl. 19:00.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón